Veislan er byrjuð

Heimsmeistarakeppnin hófst sl. föstudag og er óhætt að segja að keppnin fari ótrúlega vel í gang. Strax í fyrsta leik litu dagsins ljós ákaflega óvænt úrslit þegar Senegal sigraði heimsmeistara Frakka 1 – 0. Þessi leikur hleypti lífi í riðil sem flestir höfðu álitið fremur fyrirsjáanlegan en ásamt Frökkum og Senegölum eru Uruguay og Danmörk í riðlinum. Glæsilegur sigur Dana á Uruguay gerir það að verkum að allt stendur opið í riðlinum og algjörlega óvíst hvort heimsmeistararnir ná að komast í aðra umferð, sérstaklega í ljósi þess að líklega verður Zinidine Zidane ekki með í næsta leik.

Heimsmeistarakeppnin hófst sl. föstudag og er óhætt að segja að keppnin fari ótrúlega vel í gang. Strax í fyrsta leik litu dagsins ljós ákaflega óvænt úrslit þegar Senegal sigraði heimsmeistara Frakka 1 – 0. Þessi leikur hleypti lífi í riðil sem flestir höfðu álitið fremur fyrirsjáanlegan en ásamt Frökkum og Senegölum eru Uruguay og Danmörk í riðlinum. Glæsilegur sigur Dana á Uruguay gerir það að verkum að allt stendur opið í riðlinum og algjörlega óvíst hvort heimsmeistararnir ná að komast í aðra umferð, sérstaklega í ljósi þess að líklega verður Zinidine Zidane ekki með í næsta leik.

Engin önnur sérstaklega óvænt úrslit hafa orðið nema ef vera skyldi ótrúleg rassskelling Þýskalands á Sádi – Arabíu í gær. Úrslit þess leiks undirstrika þá gagnrýni á Heimsmeistaramótið að þar sé of mikil áhersla lögð á að jafna þátttöku heimsálfanna í stað þess að tryggja að einungis bestu liðin fái að taka þátt. Í raun eru flestir sammála um að Evrópukeppnin sé bæði jafnari og betri keppni heldur en Heimsmeistarakeppnin ef litið er til gæða knattspyrnunnar og spennunar í leikjunum. Ljóst er að lið á borð við Sádí – Arabíu, Kosta Ríka, Bandaríkin, Íran og Suður – Kóreu mættu sín lítils t.d. í Evrópukeppninni og ættu í raun ákaflega litla möguleika á að komast í keppnina.

En Heimsmeistarakeppnin snýst um meira heldur en knattspyrnu. Hún er stærsta íþróttamót veraldar og sameinar jarðarbúa í ást sinni á hinum einfalda og fallega leik, knattspyrnunni. Og þótt sú þjóðrækni, og jafnvel þjóðerniskennd, sem fær útrás í keppnum þar sem lið keppa undir gunnfánum þjóða, geti tekið á sig ógeðslegar myndir þá er ljóst að skárri leiðir en tuðruspark eru vandfundnar til þess að veita þeim tilfinningum farveg. Það er því fullkomlega réttlætanlegt að reyna að tryggja fulltrúum sem flestra menningarsvæða tækifæri til þess að taka þátt í veislunni þótt gæði sumra leikja í riðlakeppninni sé vissulega lakari fyrir vikið.

Til eru þeir sem hafa mikið ógeð á keppnisíþróttum og láta ekkert tækifæri ónotað til að lýsa vanþókknun sinni á þeim. Þeir hinir sömu teljast gjarnan til menningarelítunnar og telja sig því hafa tilkall til þess að lýsa frati eða aðdáun á hluti og ætlast til þess að skoðanir þeirra séu í hærri vegum hafðar en annarra. Deiglan telur hins vegar að menning sé allt sem mannlegt er og að íþróttaviðburðir séu menningarviðburðir. HM í knattspyrnu er því stærsti menningarviðburður heims og hefur að auki þá sérstöðu að næstum allir geta notið hans – hvar í stétt sem þeir standa og hver sem bakgrunnur þeirra er. Deiglan óskar öllum gleðilegs heimsmeistaramóts.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)