Aðhald á markaði

Fjallað um vandann í Bandaríska fjármálaheiminum og annars staðar. Aðhald frá markaði, fjölmiðlum og ríkinu er grunnforsenda þess að kapítalisminn virki.

Í bandaríska stjórnkerfinu er hugtakið “checks and balances” ákaflega mikilvægt. Kjarni hugtaksins er sá að enginn þáttur ríkisvaldsins á að geta komist upp með misnotkun valdsins án þess að einhver hafi þá skyldu að benda á það. Þannig getur forseti ekki lýst yfir stríði heldur þarf Öldungadeildin að gera það en Fulltrúadeildin þarf svo að samþykkja fjárveitingar í stríðsreksturinn og getur því í raun stöðvað stríðsreksturinn ef stuðningur við fjárheimildir eru ekki til staðar. Raunar má segja að höfundar stjórnarskrár Bandaríkjanna hafi sett upp alveg snilldarlegt kerfi þótt vissulega séu misbrestir á því að framkvæmdin sé sem skyldi.

Þrígreining ríkisvaldsins er mjög skýrlega greind í Bandaríkjunum miðað við annars staðar. Framkvæmdavaldið er sérstaklega kosið, löggjafinn líka og er skörun þar á milli mun takmarkaðri en víðast. Dómarar eru skipaðir af framkvæmdavaldinu og þurfa staðfestingu Öldungadeildarinnar en rík hefð er fyrir sjálfstæði dómstóla í Bandaríkjunum.

Grundvallarforsenda þess að “checks and balances” kerfi gangi upp er að allir aðilarnir hafi fyrst og fremst hvata til þess að sinna sínu eigin hlutverki á samviskusamlegan hátt. Gjarnar talað um að fjölmiðlar séu “fjórða valdið” í samfélaginu en hlutverk frjálsra fjölmiðla í lýðræðissamfélagi er m.a. að sjá til þess að virkt aðhald sé haft með öllum handhöfum valds og að borgarar séu upplýstir um það ef valdinu er misbeitt. Deila má um mikilvægi sumra fjölmiðla en víst er að alvarlegir fjölmiðlar hljóta að hafa metnað til þess að sinna þessu hlutverki.

Í fjármálaheiminum er reiknað með að ákveðið “checks and balances” kerfi sé einnig til staðar. Í raun má segja að almennir fjárfestar gegni svipuðu hlutverki og kjósendur, stjórnir fyrirtækja gegna svipuðu hlutverki og löggjafi, og stjórnendur fyrirtækisins gegna hlutverki framkvæmdavaldsins. Þá má segja að neytendur gegni hlutverki dómsvaldsins því þeir skera úr um hvort ákvarðanir séu réttar eða ekki. Matsfyrirtæki og endurskoðendur gegna svo nokkurs konar fjölmiðlahlutverki þar sem gert er ráð fyrir að þeir veiti óháðar og hlutlægar upplýsingar um stöðu mála hjá fyrirtækjum.

Hér er auðvitað um mikla einföldun að ræða og vissulega þurfa fyrirtæki að hlýða landslögum og þurfa að svara fyrir almennum dómstólum ef þau gerast brotleg við lögin. Hins vegar má segja að hægt sé að einangra kerfið og þá myndu hlutverk hvers aðila á markaði vera áþekk því sem að ofan er lýst.

Í ljósi fjölmargra hneykslismála undanfarinna missera eru margir farnir að efast um að aðhald í fjármálaheiminum sé nægilegt. Forystumenn í mörgum stórum fyrirtækjum í Bandaríkjunum, t.d. Enron, virðast hafa komist upp með svívirðilega misnotkuna á trausti og fjármunum hluthafa í þeim tilgangi einum að þenja út bankainnistæður sínar og hefur þessi þróun átt sér stað að mestu leyti án viðvaranna eða gagnrýni frá endurskoðendum eða matsfyrirtækjum.

Ástæða þess að slík tilvik koma upp er að hvatakerfið í fjármálaheiminum er ansi brenglað. Matsfyrirtækin stunda langflest verðbréfamiðlun og fá greitt fyrir hver viðskipti sem eiga sér stað. Þannig hafa þau fyrst og fremst hagsmuni af því að almenningur kaupi hlutabréf en til þess er nauðsynlegt að varan, hlutabréfin, líti út fyrir að vera fýsilegur kostur. Fyrirtækin hljóta svo refsingu ef þau mæla með “röngum” hlutabréfum, þ.e. þeim sem lækka í verði. Matsfyrirtækin hafa því hag af því að “tala upp” gengið í fyrirtækjum sem þau hafa áður mælt með kaupum í – en ekki endilega að ljóstra upp um raunverulega stöðu fyrirtækjanna eða gagnrýna þá meðferð fjár sem þar á sér stað.

Endurskoðunarfyrirtækin hafa einnig brenglaða hvata. Þau stunda flest ráðgjafastarfsemi samhliða endurskoðuninni og þurfa því að geta sýnt fram á að ráðin sem þau gefa séu góð og að fyrirtæki sem nýta sér þá þjónustu fái að launum hærra verðmat. Einnig má segja að endurskoðunarfyrirtæki sem fylgja bókstafi laganna mjög ítarlega geti átt á hættu að missa viðskipti ef kúnnunum býðst sveigjanlegri meðferð annars staðar.

Margar lexíur má læra af þeirri brjálæðislegu fjármálauppsveiflu sem ríkti í heiminum fram í marsmánuð árið 2000. Skýrara hlutverkaskipti og aukið aðhald á markaði er eitt af því sem allir sjá nauðsyn fyrir. Þá þurfa mörg fyrirtæki vafalaust að endurskoða launakerfi stjórnenda sinna en binding við hlutabréfaverð hefur gert það að verkum að stjórnendur hafa víða gengið mjög langt í því að setja upp rósrauða mynd af stöðu fyrirtækjanna í stað þess að einbeita sér að raunveruleikanum.

Það er ekki endilega víst að lagasetning af hálfu ríkisins sé það sem þurfi til þess að koma “checks and balances” kerfinu aftur í lag í fjármálaheiminum. Lærdómurinn frá síðustu árum er nægilega dýr til þess að markaðurinn muni leiðrétta sig og líklegt er að heiðarleiki og ráðvendni verði metin á eðlilegan hátt. Krafan um ráðvendni og heiðarleika í fjármálaheiminum mun vafalaust rjúka upp og þannig mun það verða þeim fyrirtækjum, sem víkja af braut heiðarleikans, svo dýrkeypt að fáir þyrðu að láta á það reyna.

Ljóst er að til þess að efnahagskerfi og fjármálamarkaðir heimsins taki almennilega við sér á ný þurfa fjármálastofnanir að endurheimta trúverðugleika sinn. Ein af forsendum þess að frjáls markaður fái þrifist er að upplýsingar séu nákvæmar og sannleikanum samkvæmt. Heiðarleiki er því grunnstoð í frjálsum markaði og fjármálahneyksli síðustu missera kenna okkur að hagkerfi sem byggist á lygum og taumlausu siðleysi fær ekki staðist til lengdar.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.