Grannar í geimnum

„Grannar, allir þurfa góða granna …“ gall við í sjónvarpstækjum landsmanna nánast daglega fyrir nokkrum árum. En hverjir eru grannar sólarinnar (utan sólkerfisins sjálfs), hversu margir eru þeir, og eru þeir nógu góðir til að á þeim geti leynst líf?

Mynd 1: Sólkerfi í mótun

Nú á dögum gera sér flestir vesturlandabúar einhverja grein fyrir því hvar við búum í stjarnfræðilegu samhengi. Við búum á plánetu sem snýst umhverfis sólina okkar. Eins vita flestir að um þessa sömu sól hringsóla aðrar plánetur en okkar, svo sem Mars, Venus, Júpíter o.s.frv. Sólin, pláneturnar og annað smálegt mynda svo sólkerfið okkar.

Fyrir utan sólkerfið eru svo aðrar stjörnur, ekki ósvipaðar sólinni, og þeir sem fylgjast með vísindafréttum vita að umhverfis sumar þessara stjarna eru plánetur. Þessar plánetur eru áhugaverðar fyrir okkur mannfólkið vegna þess að á þeim gæti fundist líf, og eins vegna þess að við gætum í framtíðinni sent leiðangra til slíkra pláneta og stofnað nýlendur.

Þegar hægt er að velta sér upp úr því hvaða banki er búinn að græða mest á árinu, eða hvað á að taka með sér mikinn bjór upp í bústað um helgina, virðist kannski undarlegt að velta sér upp úr slíkum hugmyndum, og vissulega eru þær nokkuð fjarstæðukenndar.

En fyrir leikmanninn er erfitt að átta sig á því nákvæmlega hversu fjarstæðukenndar þær eru. Mun mannkynið geta sent geimför til annarra hnatta í fyrirsjáanlegri framtíð, eða þurfum við að bíða eftir farartækjum sem fara hraðar en ljósið? Þökk sé afstæðiskenningu Einsteins gæti orðið bið eftir slíkum tækjum og því er áhugavert að velta fyrir sér hverjir grannar okkar í geimnum eru eiginlega, og hversu langt í burtu þeir eru.

Næsti nágranni okkar utan sólkerfisins er þrístirnið Alpha Centauri, sem er í rúmlega fjögurra ljósára fjarlægð frá okkur. Ef við vildum spjalla við geimverur sem byggju í því sólkerfi tæki það fjögur ár að senda þeim skeyti og við þyrftum að bíða í fjögur ár til viðbótar eftir svari, eða alls átta ár.

En ef ekkert líf finnst á Alpha Centauri hljótum við að skoða aðrar stjörnur í nágrenninu. Alls eru tíu stjörnur í minna en tíu ljósára fjarlægð frá sólinni. Ef við horfum aðeins lengra, eða í 20 ljósára fjarlægð, finnum við alls um 40 stjörnur. Mynd 2 hér að neðan er einmitt þrívíddarmynd sem sýnir flestar þær stjörnur sem eru í 20 ljósára fjarlægð eða minna. Sólin okkar er gula doppan á miðri mynd. Til að sjá myndina í þrívídd þarf að stara stíft á svörtu hringina tvo, svo þeir renni saman í einn.

Ef myndin er skoðuð rétt sést að stóra stjarnan hægra megin á myndinni (Altair) er framan við sólina, en hinar tvær stóru stjörnurnar eru aftan við sólina. Stóra stjarnan rétt fyrir neðan (og aftan) sólina er einmitt Síríus, bjartasta stjarnan á himninum. Sú sem er vinstra megin við sólina heitir Procyon og er sú áttunda bjartasta.

© Copyright 2001-2002, Centennia Software, Mystic, CT USA. www.HistoricalAtlas.net.

Mynd 2: Grannar okkar í 20 ljósára fjarlægð eða minna
Altair er hægra megin og framan við sólina.
Sirius, bjartasta stjarnan, er rétt fyrir neðan og aftan við sólina.
Procyon er vinstra megin og aftan við sólina.

Ef farið er aðeins lengra út í geiminn bætist talsvert við af stjörnum. Mynd 3 sýnir stjörnur sem eru í minna en 26 ljósára fjarlægð. Þessi mynd er aðeins stærri og sýnir talsvert fleiri stjörnur, en það getur verið erfiðara að sjá hana í þrívídd.

© Copyright 2001-2002, Centennia Software, Mystic, CT USA. www.HistoricalAtlas.net.

Mynd 3: Grannar okkar í 26 ljósára fjarlægð eða minna
Myndin sýnir næsta nágrenni sólar frá sama sjónarhorni og mynd 1.
Altair, Sirius og Procyon eru allar á sínum stað.

Ef líf er á einhverri þeirra stjarna sem sjást á mynd 3 getum við átt sent skeyti til þeirra og fengið svar á innan við 52 árum. En hvað ef ekkert líf er þar að finna? Gætum við sent geimfar á einhverja af þessum stjörnum og fengið skýrslu um það hvernig þar væri umhorfs?

Slíkar ferðir eru að sjálfsögðu ekki mögulegar með nútímatækni, en ef okkur tækist að smíða geimfara sem kæmist á þriðjung ljóshraða gætum við sent það hvert sem er innan kúlunnar sem er, á um 75 árum. Geimfarið gæti svo sent okkur skýrslu, sem bærist um 25 árum seinna, eða um 100 árum eftir að það lagði af stað.

Þetta er áhugavert að hafa í huga á leiðinni upp í bústað, eða hvert sem leiðin liggur um helgina. Og fyrir áhugasama má benda á að fleiri myndir af grönnum okkar í geimnum má finna hér.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)