Hver er rétta niðurstaðan?

Lögfræði og lagaleg álit hafa mikið verið til umræðu að undanförnu í tengslum við nýju útgáfu fjölmiðlafrumvarpsins svonefnda. Hafa margir lögfræðingar verið kallaðir fram á sjónarsviðið, eða komið þangað sjálfir ótilkvaddir, og greint frá niðurstöðum sínum um það hvort Alþingi sé heimilt að stjórnlögum að samþykkja fjölmiðlafrumvarpið í núverandi útgáfu. Lögfræðilegar niðurstöður þessa fólks eru ærið mismunandi.

Lögfræði og lagaleg álit hafa mikið verið til umræðu að undanförnu í tengslum við nýju útgáfu fjölmiðlafrumvarpsins svonefnda. Hafa margir lögfræðingar verið kallaðir fram á sjónarsviðið, eða komið þangað sjálfir ótilkvaddir, og greint frá niðurstöðum sínum um það hvort Alþingi sé heimilt að stjórnlögum að samþykkja fjölmiðlafrumvarpið í núverandi útgáfu. Lögfræðilegar niðurstöður þessa fólks eru ærið mismunandi og hafa menn verið algerlega á öndverðum meiði um hvað sé tækt í þessum efnum.

Það að lögspekingar komist í þessu máli að a.m.k. þremur mismunandi niðurstöðum sýnir glöggt að það er oft við nokkurn vanda að etja þegar lögfræðingar eru beðnir um að gefa álit sitt á málum. Þeir geta ekki sett álitamálið í forrit og beðið það um niðurstöðu, líkt og hægt er að gera við flest raunvísindaleg vandamál. Í stærðfræði eru 2+2 = 4. Í lögfræði eru hlutirnir hins vegar ekki jafnferkantaðir, klappaðir og klárir. Þar verður að finna réttarregluna sem leitað er að með aðferðum sem eru ekki alveg jafngagnsæjar og í raunvísindunum. Lítum á aðferðafræðina í stuttu máli.

Til að finna svar við lögfræðilegri spurningu er fyrst að leita svara í löggjöfinni sjálfri, þ.e. lögum sem Alþingi hefur sett, og forsetinn samþykkt, eða eftir atvikum í reglugerðum settum á grundvelli laga. Í 26. gr. stjórnarskrárinnar segir að ef forseti Íslands synjar lagafrumvarpi sem Alþingi hefur samþykkt staðfestingar skuli það þá svo fljótt sem kostur er borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Þetta er nokkuð skýr texti en svarar þó ekki öllum spurningum, t.d. ekki þeirri sem brennur á vörum lögfræðinga núna um það hvort Alþingi geti sjálft fellt fjölmiðlalögin á þessum tímapunkti úr gildi og hvort, og þá að hvaða marki, það geti sett ný lög um sama efni í sama frumvarpi eða öðru frumvarpi. Þessari spurningu svarar texti ákvæðisins ekki. Við verðum því að prófa næsta þrep í aðferðafræðinni.

Næsta þrep felst í því að túlka lagaákvæðið með hliðsjón af öðrum lagaákvæðum í stjórnarskránni sjálfri. Sé það gert er nærtækast að líta til 2. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að Alþingi fari með löggjafarvaldið (reyndar ásamt forsetanum sem hafði þegar synjað frumvarpinu staðfestingar). Það ákvæði svarar þó ekki þeirri spurningu hvernig staða Alþingis er gagnvart hinum handhafanum, forsetanum, þegar hann hefur beitt synjunarvaldi sínu. Það ákvæði svarar heldur ekki spurningunni um hvort Alþingi sé unnt að taka málið úr þeim farvegi sem forsetinn hefur komið því í, þ.e. að það skuli til þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar. Engin svör. Alls staðar enda menn að því er virðist á veggjum.

Næsta þrep er að líta til lögskýringargagna ákvæðunum til skýringar. Þar er ekkert um þetta efni að finna. Þá er að líta til þess hvort einhverjar venjur hafi myndast um þetta efni. Engar slíkar. Að því búnu fordæmi dómstóla. Engin slík. Við taka fleiri heimildir til að finna réttarregluna í, t.d. svonefndar meginreglur laga og eðli máls. Þannig feta menn stiginn til að leita að réttarreglunni en finna vart eitthvað sem hönd er á festandi, a.m.k. ekki með skýrum hætti. Allt er þetta loðið og teygjanlegt.

Þannig veitir lögfræðin alls ekki í fyrstu atrennu skýrt svar við þeirri spurningu sem leitað var svara við. Það gerir fræðigreinin raunar sjaldnast. Yfirleitt eru svör bundin miklum fyrirvörum og varnöglum og háð ýmsum atvikum, fyrirséðum og ófyrirséðum. En svörin leynast þarna einhvers staðar. Markmiðið er að finna þau og nálgast eins rétta niðurstöðu og unnt er með þeim aðferðum sem lögfræðin býður. Í því felst vandinn.

Hópur lögfræðinga hefur á undanförnum dögum reynt að nálgast hið rétta svar við því álitaefni sem efst er á baugi í þjóðfélaginu nú og getið var um hér að ofan. Einhver þeirra hefur réttu niðurstöðuna, en enginn veit hver, allra síst þeir sjálfir. Til þess að kveða upp úr um það höfum við dómstóla, en allsendis er óvíst um hvort málið kemur nokkurn tímann á þeirra borð með einum eða öðrum hætti. Á meðan verðum við að bíða í óvissunni.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)