Blátt áfram átakið

Mörgum til ánægju var hið nýja fjölmiðlafrumvarp ekki á dagskrá Kastljóssins á þriðjudagskvöld. Annað umræðuefnið þáttarins var þó síður en svo skemmtiefni en það var kynferðisleg misnotkun barna

Í þættinum sátu fyrir svörum tvær systur sem báðar urðu fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku og hafa í samstarfi við Ungmennafélag Íslands hafið átak sem kallast Blátt áfram . Átakinu er ætlað að efla forvarnir vegna kynferðislegs ofbeldi gagnvart börnum og er aðaláhersla lögð á að foreldrar beri ábyrgðina sem forráðamenn barna sinna. Það sem vakti mikinn óhug eru þær tölur sem systurnar nefndu um tíðni kynferðislegs ofbeldis gagnvart börnum en samkvæmt íslenskri rannsókn sem þær vísuðu til verður fimmta hver kona og tíundi hver karl fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku. Þær hafa þó báðar á tilfinningunni að hlutfallið sé hærra en vonandi reynist sá grunur ekki réttur.

Á heimasíðu átaksins, www.blattafram.is ,er kynferðislegt ofbeldi skilgreint sem ,,Hvers kyns kynferðisleg athöfn milli fullorðins einstaklings og ólögráða einstaklings þar sem annar aðilinn hefur vald yfir hinum eða tveggja ólögráða einstaklinga þar sem annar aðilinn hefur vald yfir hinum”. Áhersla er lögð á að tala um málefnið hreint og opinskátt til að fyrirbyggja að börn lendi í þessari skelfilegri reynslu. Mörgum finnst það eflaust óþægilegt að ræða þetta málefni við börn enda er málið viðkvæmt og jafnframt hefur reynslan sýnt að gerendur eru oft aðstandendur sem börnin ættu að geta treyst. Á heimasíðunnni er einkennum barna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi jafnframt lýst og hvernig bregðast skuli við kvikni grunur foreldra um slíkt.

Framtak systranna er lofsvert og þó að oft sé erfitt að nálgast viðvangsefnið þá er það nauðsynlegt. Foreldrar, forráðamenn, kennarar og aðrir sem koma að uppeldi barna þurfa að standa saman að því að gera börnum grein fyrir alvarleika málsins.

Nokkur umræða hefur verið um það að undanförnu hvort afnema eigi fyrningarfresti vegna kynferðisafbrota á grundvelli þess að fórnarlömb leiti sér oft ekki aðstoðar fyrr en löngu eftir að brotin eru framin og hafa menn verið dæmdir sekir í slíkum málum en verið sýknaðir sökum útrunnins fyrningarfrests. Á heimasíðu átkasins er hægt að senda bréf sem mun berast til valinna þingmanna þar sem hvatt er til þess að fyrningarfrestir í kynferðisafbrotamálum séu afnumdir. Eru lesendur hvattir til að kynna sér þetta mál betur og taka afstöðu

Latest posts by Guðrún Pálína Ólafsdóttir (see all)

Guðrún Pálína Ólafsdóttir skrifar

Guðrún Pálína hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2002.