Spurt að leikslokum

sdfdNýlega bárust okkur gleðifregnir þess efnis að Framsóknarflokkurinn hefði mælst með 7,5 prósentustiga fylgi á landsvísu.

Það er alltaf stuð á æfingum hjá fótboltaliði Framsóknarflokksins.

„Halló og verið hjartanlega velkomin í spurningaþáttinn Spurt að leikslokum, vinsælasta gagnvirka dagskrárlið landsins; spurningaþátt þar sem ég spyr en þjóðin svarar. Sjálfur heiti ég Halldór Benjamín Þorbergsson og er spurningahöfundur, spyrill, tíma- og stigavörður. Þá er ekki eftir neinu að bíða og fyrir löngu kominn tími til að hefja leikinn. Bíðum samt aðeins…“

…Það er ekki laust við að það fari hrollur um þær örfáu hræður sem þáttastjórnandinn kallar áhorfendur sína, þegar misheppnaðir brandarar hans þeytast eftir útvarpsbylgjunum. En þau eru nú einu sinni ættingjar hans og verða því, illu heilli, að gjöra svo vel að mæta í upptökuverið einu sinni í viku og þykjast vera áhugasöm um þennan arfaleiðinlega dagskrárlið.

Það er dálítið langt síðan að það tók að syrta í álinn hjá þáttastjórnandanum. Í upphafi gekk þetta þó alveg eins og smurt: Áhorfendur biðu í röðum eftir að fá að vera viðstaddir upptökur á þættinum, áhorf var gríðarlegt og allt virtist ganga spurningahöfundi í haginn og þátturinn var sá vinsælasti á landinu. Í dag er hann hins vegar bara vinsælasti gagnvirki spurningaþátturinn á landinu (vafasamur heiður) — og í leið eini gagnvirki spurningaþátturinn — þrátt fyrir að sjónvarpsstjarnan láti þess sjaldan getið í inngangi. Bara ef hann gæti enduruppgötvað sjálfan sig og fundið sér annan vettvang til að slá í gegn á. Þá yrði hann aftur eins og hann á að sér að vera.

Mönnum léttir þegar upptöku á þættinum lýkur og áhorfendur streyma fram í kaffiherbergi til að fá sér einn molasopa. Um fátt annað er rætt er útreið Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum. Þáttastjórnandinn skynjar andrúmsloftið og ákveður á augabragði að spila inn á áhorfendur sína. Hann nær í stól og stígur upp á hann í sömu andrá og hann hefur upp raust sína og þrumar yfir gestum kaffistofunnar:

„Kæru gestir, um leið og ég þakka ykkur fyrir komuna vil ég fá að segja örfá orð um stöðu Framsóknarflokksins.“ Hann verður þess fljótt áskynja að áhorfendur taka við sér og það er ekki laust við að smá spenna um framvinduna byggist upp. Hann heldur áfram: „Um daginn varð ég vitni að því þegar varaformaður flokksins sagði í útvarpsfréttum að skoðanakannanir sem sýndu slæma útreið flokksins væru bara ekki marktækar! Varaformaðurinn er ekki marktækur“ — segir þáttastjórnandinn og rekur hnefann út í loftið. Fólk tekur heilshugar undir orð hans sem verður til þess að efla þrótt hans um allan helming.

„Fljótlega klikkti hann síðan út með því að segja að flokkurinn væri miðjuflokkur sem legði það í vana sinn að finna sáttarleið í erfiðum málum — semja um hlutina. Á mannamáli þýðir þetta að niðurstaðan skiptir flokkinn ekki nokkru máli svo lengi sem þeir bera eitthvað út býtum. Bara eitthvað!“ Einhverjir klappa, aðrir dæsa en fullljóst er að honum hefir tekist að fanga óskipta athygli gesta sinna.

Hann heldur áfram: „Kannski er ég að ofureinfalda, en kemur aldrei sá tími að menn verða einfaldlega, samvisku sinnar vegna, að standa fast á sínu og útiloka allar málamiðlanir? Hversu langt til vinstri er t.d. hægt að teyma hægrimenn þar til þeir verða einfaldlega að segja nei og neita því að leita málamiðlanna?“

„Nei þýðir nei, Framsókn er glæpur!“— hreytir hann út úr sér, en flestum áheyrendum þykir þetta vera einum of ódýr útúrsnúningur til að vera fyndinn.

Hann skynjar af áhorfendum að þá er farið að þyrsta eftir léttara hjali og hann veit að hann getur ekki brugðist þeim. Með semingi ákveður hann því að segja: „Samt get ég alveg fyrirgefið gömlum karlfuskum það að styðja Framsóknarflokkinn, enda byggist stuðningur þeirra að miklu leiti á fornri frægð flokksins, þegar hann hafði eitthvað til málanna að leggja í íslenskum stjórnmálum. En að vera ungur framsóknarmaður er svona álíka jafnhressandi og að vera lifandi lík — annað gjörsamlega útilokar hitt. Svona eins og að segjast spila sóknarfótbolta en nota samt alltaf leikkerfið 8-1-1. Með Sif á miðjunni og Jón Kristjánsson frammi.“

Hlátrasköllin ætla allt og alla að kæfa en hann á enn eftir að láta uppáhaldsbrandarann sinn gossa; hann er enn með trompið upp í erminni. Hann bíður eftir fullkominni þögn og þegar það má nánast heyra saumnál detta segir hann kokhraustur:

„En hvað ætti svoleiðis fótboltalið eiginlega að kalla sig? Hmmmm! Hey, ég veit!

Hvernig hljómar Framsóknarfótboltaliðið Lík?“

Góða helgi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)