Evrópusambandið og fjárlagahallinn

Á þriðjudaginn skilaði Evrópudómstóllinn niðurstöðu sinni í deilu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við ráðherraráðið.

Á þriðjudaginn skilaði Evrópudómstóllinn niðurstöðu sinni í deilu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við ráðherraráðið. Framkvæmdastjórnin hélt því fram að ákvörðun ráðherraráðsins um að fresta aðgerðum gegn Frakklandi og Þýskalandi til að fá löndin til að takast á við fjárlagahalla sinn hefði brotið í bága við stöðugleikasáttmála sambandsins og krafðist þess að ákvörðunin yrði ógilt.

Stöðugleikasáttmála Evrópusambandis er ætlað að halda fjárlagahalla aðildarríkjanna innan við 3% af vergri landsframleiðslu og gerir ráð fyrir að ríkin séu sektuð fari fjárlagahallinn ítrekað yfir þau mörk. 3% – reglunni og refsiaðgerðunum er ætlað að koma í veg fyrir að léleg fjármálastjórn í einu ríki hafi áhrif á allt evrusvæðið. Frakkland og Þýskaland eru nú á góðri leið með að brjóta þau mörk þriðja árið í röð.

Fyrri hluta árs 2003 tók ráðherraráð Evrópusambandsins (fjármálaráðherrar aðildarríkjanna) ákvarðanir um að Þýskaland og Frakkland yrðu að taka á fjárlagahalla sínum og gáfu þjóðunum nokkurra mánaða frest til þess.

Um haustið var ljóst að Frakkland hafði ekki fylgt tilmælum ráðherraráðsins og aðgerðir Þýskalands voru ófullnægjandi. Í samræmi við stöðugleikasáttmálann lagði framkvæmdaráðið til við ráðherraráðið að þjóðirnar tvær skyldu ná ákveðnum skilgreindum árangri í baráttunni við fjárlagahallann innan settra tímamarka.

Þann 25. nóvember kom ráðherraráðið saman og greiddi atkvæði um tilmæli framkvæmdastjórnarinnar um hvernig löndin tvö skyldu koma böndum á fjárlagahallann. Undir áhrifum frá Þýskalandi og Frakklandi náðu tilmælin hins vegar ekki settum meirihluta, jafnvel þó Frakkland og Þýskaland hafi ekki sjálf kosið um málið, enda aðilar að málinu. En auk þess að samþykkja ekki tilmæli framkvæmdastjórnarinnar tók ráðherraráðið ákvörðun um að fresta aðgerðum gegn Frakklandi og Þýskalandi og mæltist til þess að löndin skyldu binda enda á fjárlagahallann eins fljótt og hægt væri.

Frakkland og Þýskaland eru að sjálfsögðu stórveldi í evrusamstarfinu og hafa mikil pólitísk áhrif. Það var þó ekki eina ástæðan fyrir því að þeim tókst að koma í veg fyrir ákvörðun um aðgerðir gegn sér, heldur var ljóst að fleiri þjóðir horfðu fram á að fjárlagahallinn færi fram úr mörkunum og höfðu því hag að því að ekki yrði gripið til aðgerða gegn Frakklandi og Þýskalandi.

Framkvæmdastjórnin var hins vegar mjög ósátt við þessar ákvörðun, enda ljóst að hún braut í bága við stöðugleikasáttmálann og vísaði hún málinu því til Evrópudómstólsins. Var bæði krafist niðurstöðu um þá ákvörðun ráðherraráðsins að fara ekki að tilmælum framkvæmdastjórnarinnar og þá ákvörðun að fresta aðgerðum gegn Frakklandi og Þýskalandi.

Niðurstaða dómstólsins var tvíþætt. Í fyrsta lagi væri ekkert við því að gera að ráðherraráðið hefði ekki samþykkt tilmæli framkvæmdastjórnarinnar. Þetta er eðlilegt miðað við reglur sambandsins sem gera ráð fyrir að til að tilmæli séu samþykkt þurfi ákveðinn meirihluta ráðherraráðsins. Náist hann hins vegar ekki, er ekkert við því að gera. Hins vegar taldi dómstóllinn að ráðherraráðið hefði brotið reglur með nýrri ákvörðun um að fresta öllum aðgerðum gegn löndunum tveimur og ógilti þá ákvörðun.

Allir virðast fagna niðurstöðunni. Framkvæmdastjórnin fagnar því að ákvörðunin um að fresta aðgerðum hafi verið dæmd ógild og ráðherrarnir fagna að réttur þeirra til að fara ekki að tilmælum framkvæmdastjórnarinnar var staðfestur.

Ákvarðanir um aðgerðir gegn aðildarríkjum til að þau haldi fjárlagahallanum innan réttra marka geta þannig samkvæmt reglum sambandsins verið í endalausum baklás milli framkvæmdastjórnarinnar og ráðherraráðsins.

Ef Evrópusambandið ætlar að geta haldið utan um fjárlagahalla í aðildarríkjunum og beitt þau aðgerðum má ljóst vera af þessu máli að taka þarf ferlið til endurskoðunar. Sérstaklega þegar litið er til þess að á næstu árum er von á enn fleiri löndum inn í evrusamstarfið sem hingað til hafa mátt berjast við erfiðari fjárhagsaðstæður en þau lönd sem núna standa að evrunni.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.