Vafravandræði

Í síðasta pistli fjallaði ég um leiðir til þess að framlengja líf tölvupósts sem samskiptaforms. Nú verður fjallað um hvernig hægt er að gera notkun á veraldarvefnum bærilega.



Í síðasta pistli fjallaði ég um leiðir til þess að framlengja líf tölvupósts sem samskiptaforms. Nú verður fjallað um hvernig hægt er að gera notkun á veraldarvefnum, hinni meginþjónustu Internetsins, bærilega.

Sú einfalda hugmynd Tim Berners-Lee að búa til krækjur eða hlekki (e. links) milli skjala hefur verið útvíkkuð á ýmsa lundu frá fyrstu útgáfu veraldarvefsins árið 1990. Þróunin hefur verið í þá átt að byggja meiri virkni inn í vafrann (e. browser) og gera vefinn lifandi, t.d. með hreyfimyndum og leikjum. Þessi aukna virkni opnar hins vegar möguleika á misnotkun sem hefur verið nýttur til hins ítrasta undanfarna mánuði. Nú er svo komið að vinsælasti vafrinn, Internet Explorer (IE) frá Microsoft, er vart nothæfur.

Ástæða þess að IE hefur orðið svo illa úti er að hluta til tæknilegs eðlis: IE er mjög þétt tengdur Windows stýrikerfinu og því geta öryggisholur í IE leyft aðgang að stýrikerfinu í heild. Hinn hluti skýringarinnar er í raun bara hin mikla útbreiðsla IE: Aðrir vafrar hafa líka öryggisholur en meðan hægt er að níðast á 95% tölvunotenda með því að misnota IE þá tekur því ekki að eltast við afganginn.

Athygli vekur að flestir þeir sem misnota öryggisholur í vöfrum gera það í gróðaskyni, öfugt við vírusa- og ormahöfunda sem oft eru bara fiktgjarnir unglingar. Einkennin, sem notendur verða varir við, eru því oft þannig að upphafssíða vafrans verður einhver rússnesk leitarvél eða að fljúgandi klámauglýsingaspöld flögra um skjáinn í tíma og ótíma. En sem betur fer eru enn til menn sem forrita öðrum til gagns.

Starfsmönnum Google er margt til lista lagt og meðal annars hafa þeir hannað tækjastiku (e. toolbar) fyrir IE sem hindrar fljúgandi auglýsingaspjöld af vægari gerðinni. Google stikan er vissulega góðra gjalda verð en dugar skamt þegar fagþrjótar eru á ferð. Auk þess að þvinga fórnarlambið til þess að horfa á auglýsingar reyna þeir yfirleitt að koma njósnaforriti inn á tölvuna sem getur lifað sjálfstæðu lífi og safnað upplýsingum um tölvunotkun viðkomandi. Þegar í slík óefni er komið verður að grípa til róttækari aðgerða.

Allir Windows-notendur, sem tengjast Internetinu, ættu að nota svokallaðan eldvegg. Eldveggur er forrit sem fylgist með netumferð inn og út úr tölvunni. Á vinnustöðum sjá kerfistjórar venjulega um að reka eldveggi en á heimilstölvum er slíkt á ábyrgð notenda. Zone Alarm eldveggurinn er ókeypis fyrir heimilisnotkun og hægt er að sækja hann yfir netið. Hann er einfaldur í notkun og öflugt tól til þess að uppgötva njósnahugbúnað. Ef njósnahugbúnaður finnst má yfirleitt fjarlægja hann með Spybot eða Ad-Aware, sem bæði eru ókeypis. Nýleg grein hjá O’Reilly fjallar um notkun þessara forrita.

Glöggir lesendur hafa þegar hér er komið sögu auðvitað áttað sig á því að ábendingar mínar hér að ofan (að eldveggnum frátöldum) eru sannkallaðar reddingar. Í þessu efni sem öðrum er að sjálfsögðu best að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Lokalausnin á vafravandanum er því auglóslega að slást í hóp með glöðu 5 prósentunum og hætta að nota IE. Óhætt er að mæla með Opera vafranum, sem höfundi þykir taka IE fram í flestu. Full útgáfa Opera kostar $39 en ef mönnum er ekki á móti skapi að hafa litla auglýsingu í horni skjásins er hægt að nota hann frítt. Annar góður kostur er Mozilla Firefox. Hann er ókeypis án kvaða, enda að mestu þróaður af sjálfboðaliðum. Báðir þessir vafrar lesa inn stillingar úr IE þegar þeir eru settir upp svo mjög auðvelt er að skipta. Fyrir fólk sem eyðir miklum tíma á vefnum er vandfundið gagnlegra frístundaverkefni þessa dagana en vafraskipti. Svo er auðvitað best að ekki skipti allir yfir í sama vafrann, því þá liði ekki á löngu áður en harmasaga IE endurtæki sig.