Konurnar frá Juárez

Konurnar frá JuárezÞar sem ég beið á rútustöð í Sevilla síðastliðna páska greip ég kæruleysislega eitt spænskt glanstímarit hjá blaðasalanum og hugsaði mér gott til glóðarinnar.

Konurnar frá JuárezÞar sem ég beið á rútustöð í Sevilla síðastliðna páska greip ég kæruleysislega eitt spænskt glanstímarit hjá blaðasalanum og hugsaði mér gott til glóðarinnar. Ég ætlaði að eiga virkilega huggulegan dag á ströndinni og fræðast um tísku, sólarolíu og sæta flamencostráka í “Glamour” blaðinu. Eftir að hafa komið mér þægilega fyrir í sandinum og flett hratt í gegnum “nýjasta nýtt” rak ég augun í athyglisverða grein Maríu Teresu Guerra; Mujeres de Ciudad de Juárez, ¿Quién las va a defender?”eða “konurnar frá Juárezborg, hver ætlar að verja þær?”

Í Juárez búa um 1.5 milljón manna en borgin er á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. Á þeim landamærum hafa ýmsir voveiflegir atburðir átt sér stað þar sem fólk hefur lagt líf sitt í hættu við að komast yfir til Bandaríkjanna til að láta draumana rætast. Er grasið alltaf grænna…?

Á síðustu tíu árum hafa nærri því 400 ungar konur verið myrtar í þessari mexíkósku borg. Þær áttu það sameiginlegt að vera ungar og fátækar. Þeim var rænt, misþyrmt, nauðgað og þær að lokum myrtar. Aðgerðarleysi að hálfu yfirvalda heldur áfram á meðan krossum til minningar um fórnarlömbin fjölgar. Hróp fjölskyldna þeirra á hjálp hafa loks náð eyrum heimsins. Þekktir mexíkóar eins og Salma Hayek hafa einnig lagt hönd á plóg við að vekja athygli á stöðu kvenna á þessum slóðum.

Ein þessara stúlkna var hin 17 ára gamla Lilia Alejandra García Andrade, tveggja barna einstæð móðir í Juárez. Eins og svo margar ungar stúlkur í borginni vann hún í verksmiðju í úthverfi Juárez en meira en 220.000 konur vinna í slíkum verksmiðjum, margar hverjar ólöglega og eru algerlega réttindalausar sökum ungs aldurs. Lík Liliu fannst nokkrum metrum frá verksmiðjunni í febrúar 2001 á óupplýstum göngustíg sem starfsstúlkurnar ganga heim á hverju kvöldi. Hennar hafði þá verið saknað í tæpa viku. Tveimur dögum áður en líkið fannst fékk lögreglan ábendingu frá vegfarendum um að verið væri að nauðga konu í bíl af tveimur mönnum á sama stað og líkið fannst síðar.

Lögreglan gerði ekkert! Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International var lögreglubíll sendur á svæðið tveimur klukkustundum síðar en þá var að sjálfsögðu allt með kyrrum kjörum. Leitin virtist vonlaus þar til lík Liliu fannst limlest. Á hálsinum mátti sjá fingraför þess sem hafði kyrkt hana. Fjölskyldan bað um að málið yrði rannsakað frekar en lögreglan neitaði og lokaði málinu. Í ljós kom þó að henni hafði verið haldið fanginni í a.m.k. fimm daga áður en hún var myrt. Yfirvöld rannsökuðu ekki vinnubrögð og afskiptaleysi lögreglunnar á staðnum og málið var látið kyrrt liggja.

Lilia þurfti ekki að deyja. Þessari ungu tveggja barna móður hefði vel mátt bjarga en reynt var að þagga niður í fjölskyldu hennar sem og fjölskyldum annarra fórnarlamba. Saga þeirra er þó ekki gleymd og nú berjast fjölskyldur þeirra fyrir rétti þeirra, þar sem morðingjarnir virðast fá að ganga lausir og óáreittir án afskipta lögreglunnar. Þeim skal komið til dóms og laga.

Latest posts by Þórhildur Birgisdóttir (see all)