Alnæmi um allan heim

Í nýútgefinni skýrslu UNAids kemur fram að á síðasta ári hafi um fimm milljónir manna greinst með HIV veiruna. Í dag er talið að 38 milljónir manna séu smitaðar af þessari ólæknandi vá. En hvert er upphaf þessa mannskæðasta veirufaraldurs sögunnar?

Í nýútgefinni skýrslu UNAids, alnæmisvarnastofnunar Sameinuðu þjóðanna kemur fram að á síðasta ári hafi um fimm milljónir manna greinst með AIDS sjúkdóminn, en það er mesti fjöldi sem greinst hefur á einu ári hingað til. Undanfarið hefur kastljósi alnæmisumræðu verið beint mestmegnis að Afríku en skv. skýrslunni virðist jafnvel sem að alnæmisfaraldurinn þar hafi bæði í mið- og norðurhluta landsins náð risi sínu og séu jafnvel á undanhaldi. Aukning hefur hinsvegar orðið á öðrum landssvæðum eins og Austur-Evrópu og Asíu.

Í dag er talið að 38 milljónir manna séu smitaðar af þessari ólæknandi veiru. En hvert er upphaf þessa mannskæðasta veirufaraldurs sögunnar?

Almennt er talað um að HIV veiran hafi fyrst komið fram fyrir rúmum 20 árum, en þó er það svo að talið er að fyrstu heimildir um sjúkdóminn megi rekja svo langt sem aftur til 1959. Þá lést maður í Afríku af völdum dularfulls sjúkdóms, en ekki var staðfest fyrr en 20 árum síðar, þegar blóðsýni úr honum var rannsakað, að hefði verið af völdum HIV veirunnar.

Það var þó árið 1981 sem að veiran fór að láta á sér kræla fyrir alvöru. Þá sló New York Times upp frétt sem greindi frá sjaldgæfu formi krabbameins, Kaposi´s Sarcoma meðal samkynhneigðra karlmanna í New York og Kaliforníu. Ungum mönnum með flensueinkenni fjölgaði geysilega á bráðamóttökum og þarna má segja að upphaf þessa stærsta heilsufarsvandamáls samtímasögunnar hafi verið.

Þegar sjúkdómurinn var fyrst kynntur opinberlega var hann kallaður GRID (gay-related immune diffency), og brennimerkti samfélag samkynhneigðra þannig að gagnvart þessum samfélagshópi mögnuðust fordómar um allan helming. Árið 1983 höfðu sjúkdómstilfelli af völdum veirunnar verið tilkynnt í 33 löndum, og á sama ári tilkynntu bandarísk stjórnvöld að tekist hefði að einangra hana, n.t.t. retróveiru sem kölluð var HTVL-II.

Árið 1984 lést kanadískur flugþjónn, sem kallaður hefur verið sjúklingur ,núll’, en víst þykir að hann hafi haft náin kynni við marga af þeim sem fyrst urðu sjúkdómnum að bráð. Í lok þess árs var talið að um 8000 væru smitaðir í USA, og þar af töldust til 3700 dauðsföll. 1985 endurskírði teymi vísindamanna veiruna HIV (Human Immunodeficiency Virus). Það var síðan ekki fyrr en 6 árum eftir upphaf faraldursins eða 1987 sem fyrst kom fram lyf, AZT, sem var samþykkt og gefið sjúklingum. Sama ár viðurkennir forseti Bandaríkjanna, Ronald Reagan vandann, og notar orðið AIDS (acquired immune deficiency syndrome) í fyrsta skipti opinberlega. Árið 1990 er talið að um ein milljón manna séu smitaðar.

Á fyrstu árum níunda áratugarins fór mikið púður í deilur um hvort að lyfið AZT hefði í raun og veru einhverja þýðingu. Önnur lyf komu fram á sjónarsviðið, en árið 1996 varð vísindamönnum ljóst að þar sem veiran getur legið í dvala í sjúklingnum er algjör eyðing hennar ómöguleg, og sjúkdómurinn því ólæknandi. Árið 1998 eru fyrstu AIDS bóluefnin reynd á mönnum. Hræðilegt ástand í Afríku verður hvatning evrópskra lyfjafyrirtækja til að hunsa einkaleyfislög og hefja framleiðslu ódýrari samheitalyfja til að selja til Afríku. Framleiðslan var þó stöðvuð í krafti laganna. Í kjölfar stigvaxandi ógnar faraldursins í Afríku drógu bandarísku lyfjafyrirtækin þó kæruna til baka og var þá farið að framleiða og dreifa ódýrari lyfjum til þeirra svæða Afríku sem verst voru leikin, þá Suður-Afríku. Í lok árs 2001 höfðu 21 milljónir manna beðið lægri hlut í baráttunni við HIV, þar af 17 milljónir í suðurhluta Afríku og var 31 milljónir taldar smitaðar. Í dag eru hinsvegar,eins og áður hefur komið fram, um 38 milljónir smitaðar.

Á engan hátt sér fyrir endann á þessum faraldri, og segja talsmenn UNAids að núverandi framlag alþjóðasamfélagsins gegn þessari válegu veiru sé hvergi nærri ásættanleg þegar horft er til þess að hún virðist ekki eiga sér nokkur útbreiðslutakmörk. Þó svo að fregnir af því að jafnvægi sé að komast á á sumum svæðum í Afríku, þá má líklega útskýra það að hluta með því að sá gífurlegi fjöldi sem deyr þar núna vegur upp á móti nýsmituðum. En jafnvel þó svo að e.t.v sé eitthvað um að lægjast í útbreiðslum á þessum svæðum, þá kemur það fyllilega á móti að önnur áður minna smituð svæði heimsins, eins og t.d. Asía og Evrópa sýna nú meiri fjölda nýsmitaðra. Því miður lítur út fyrir að AIDS faraldurinn sé jafnvel bara enn á byrjunarstigum.

Heimildir:

World health organization

AIDS timeline

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.