Þegar minnihlutinn ræður

Um helgina verður gengið til atkvæða í forsetakosningum. Fátt virðist geta komið í veg fyrir endurkjör Ólafs Ragnars Grímssonar þótt skoðanir séu skiptar um hann. En þótt nánast sé öruggt að enginn frambjóðandi fái fleiri atkvæði, gæti nú gerst að þegar tillit er tekið til atkvæða til mótframbjóðenda, auðra seðla, og þeirra sem sitja heima, fái Ólafur ekki atkvæði meirihluta þeirra sem eru á kjörskrá. Hvað þá?

Nú um helgina verður gengið til atkvæða í forsetakosningum. Fátt virðist geta komið í veg fyrir endurkjör Ólafs Ragnars Grímssonar, en þó eru skoðanir skiptar um hann. Samkvæmt skoðanakönnunum styðja um 70% kjósenda Ólaf, tæp 10% styðja Baldur og um 20% styðja engan frambjóðanda. Ef veðrið verður gott á laugardaginn gæti svo farið (eins og gerðist síðast þegar framboð kom fram gegn sitjandi forseta) að kosningaþáttaka yrði ekki nema 70%. Ef þetta yrði niðurstaðan hefðu ekki nema 70% af 70% greitt Ólafi atkvæði sitt, eða 49% kosningabærra manna.

Hvað þá? Svarið við því er einfalt: Ólafur tæki einfaldlega sæti sitt sem forseti, með stuðning minna en 50% þjóðarinnar á bak við sig, eftir kosningar þar sem minna en 75% þjóðarinnar hefðu tekið þátt. Niðurstaða af þessu tagi yrði að sjálfsögðu túlkuð sem ósigur fyrir Ólaf, en engum dytti annað í hug en að hann sæti út kjörtímabilið.

Í sumum löndum eru tvísýnar kosningar endurteknar með færri þáttakendum þar til einn stendur eftir með hreinan meirihluta. Íslendingar hafa þó ekki hefð fyrir því og tilhugsunin um að endurtaka kosningarnar, með aðeins Ólaf og Baldur í framboði, virkar líka nokkuð undarleg.

En til að koma í veg fyrir að á Bessastöðum sæti forseti með minnihluta þjóðarinnar á bak við sig, mætti þá ekki hugsa sér að þingmeirihluti myndi einfaldlega velja forseta í þeim tilfellum sem afgerandi niðurstaða fengist ekki í kosningum? Stjórnarskráin segir reyndar að forsetinn skuli vera þjóðkjörinn, en það er ekkert í stjórnarskránni sem beinlínis bannar Alþingi að setja lög um lágmarksþáttöku í kosningum (eða lágmarksstuðning tiltekins frambjóðanda) til að forsetakosningar verði bindandi. Og það þótt heilar fjórar greinar hennar fjalli um kjör forseta, sem þykir mikið í okkar stuttu stjórnarskrá.

Enginn efast um að slíkar tilraunir þingmeirihlutans yrðu dæmdar kolólöglegar fyrir dómstólum. En það má heldur ekki líta fram hjá því að jafnvel þótt ekki væri ólöglegt að þingið veldi forseta, þá myndi það ekki tryggja að hann hefði meirihluta þjóðarinnar á bak við sig.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fékk í síðustu kosningum 51,4% greiddra atkvæða á landsvísu. En ekki greiddu allir atkvæði. Kjörsókn í þessum kosningum var 87,8%, sem þýðir að ríkisstjórnin situr ekki í umboði nema 45,1% kosningabærra manna. Það væri öfugmæli ef menn ætluðu að leysa vandamál vegna minnihlutastuðings við forseta með því að láta bara annan minnihluta ráða.

Á Íslandi er hefðin í slíkum málum skýr: Stærsti minnihluti sem getur komið sér saman um tiltekna niðurstöðu, og nennir að tjá skoðanir sínar í kosningum, ræður niðurstöðunni.

Það er því óþolandi að meirihluti Alþingis, sem kemur saman í kjölfar forsetakosninganna til lagasetningar um þjóðaratkvæðagreiðslur, skuli skirrast við að lýsa því yfir að þjóðaratkvæðagreiðsla sú sem fram fer um fjölmiðlalögin í byrjun ágúst verði bindandi lokaniðurstaða í því máli. Það er hin ríkjandi hefð og tilvísanir í flugvallarkosningu R-listans, sem hingað til hefur verið talin misheppnuð, eru veik rök fyrir öðru.

Þótt stjórnarskráin banni ekki að setja lög um lágmarksþáttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum þá leyfir hún það ekki heldur, og viðleitni stjórnmálamanna til að reyna sífellt á þanþol hennar er óviðkunnaleg. Tilhugsunin um að á Íslandi kunni í framtíðinni að gilda lög sem meirihluti kjósenda hefur fellt í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu er ekki síður óviðkunnaleg og vonandi að ekki verði sett lög sem bjóða slíku heim.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)