Framhaldsskólum bjargað…

Menntamálaráðherra hefur nú í einni svipan leyst fjárhagsvanda framhaldsskólanna. Hvers vegna er ekki það sama uppi á teningnum þegar kemur að efsta skólastigi landsins?

Aðeins eru liðnir tveir sólarhringar frá því að neyðarkall kom frá framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að þeim væri svo naumt skammtað fé af hálfu menntamálaráðuneytisins, að þeir neyddust til þess að synja hundruðum nemenda um skólavist. Þetta er sannarlega slæmt mál, en útlit er fyrir að viðkomandi skólameistarar þurfi ekki að hafa frekari áhyggjur, því menntamálaráðherra hefur komið þeim til bjargar.

Umræðan í fjölmiðlum hefur ekki staðið lengi en fjölmörg orð hafa fallið og ófá í þá átt að framhaldsskólamenntun sé þjóðfélaginu nauðsynleg, jafnframt að hún sé þjóðhagslega hagkvæm og sjálfsagður réttur þeirra sem ná svo langt að útskrifast úr grunnskóla. Þetta kann vel að vera rétt og Íslendingar hafa lengi verið meðvitaðir um þetta – í það minnsta að einhverju leyti.

Að þessu sögðu má setja fram tvær spurningar. Annars þá hvort ráðherra hyggi á fleiri björgunaraðgerðir í menntakerfinu, þá sérstaklega á háskólastigi og hins vegar hvort fullyrðingar um framhaldsskólanám eigi ekki sömuleiðis við um háskólamenntun. Er háskólamenntun ekki þjóðhagslega hagkvæm, er hún ekki sjálfsögð eða hætta þessir þættir að skipta máli að loknum framhaldsskóla?

Háskólamenntun er sannarlega þjóðhagslega hagkvæm, því hjá þeim þjóðum þar sem menntunarstig er hátt og margir eru háskólamenntaðir er hagvöxtur jafnan nokkuð stöðugur til langs tíma og þetta skiptir jafnvel meira máli fyrir fámennar þjóðar eins og okkar. Af þessu leiðir sjálfkrafa að háskólamenntun er sjálfsögð fyrir alla sem hennar leita – eða hvað?

Nú ber svo við að allir háskólar á Íslandi hafa einhverjar leiðir til þess að takmarka fjölda nemenda sinna. Háskóli Íslands hefur fram að þessu staðið einn í því að hleypa öllum inn sem vilja, en því miður hefur orðið þar breyting á og þar er nú harkalega framfylgt öllum reglum sem gilda um skrásetningu við skólann. Þetta hefur í för með sér færri nýskráningar en á síðasta ári og gefur því auga leið að ekki komast allir þar að sem vilja, því annars myndi þeim fjölga. Þeir nemendur sem ekki komast inn hafa í engin önnur hús að venda því dyr annarra skóla eru sömuleiðis lokaðar eða í það minnsta mjög þröngar.

Ríkisháskólarnir svo kölluðu takmarka fjölda nemenda af illri nauðsyn því fjárhagsrammi þeirra er svo þröngur að hann er löngu sprunginn. Ríkisreknu einkaháskólarnir takmarka hins vegar eins og þeim sýnist því þar er víst nóg að bíta og brenna.

Eftir stendur íslenska þjóðin með þá spurningu hvort ekki sé tímabært að gera eitthvað í fjárhagsvanda efsta skólastigsins á Íslandi og þá sérstaklega Háskóla Íslands. Sem dæmi má nefna að við stöndum OECD-löndunum töluvert aftar í ríkisframlögum til háskóla og það er kominn tími til að gripið sé í taumana áður en það verður um seinan. Menn hljóta í það minnsta að gera þá kröfu að menntamálayfirvöld viðurkenni mikilvægi háskólanáms og búi því það umhverfi sem því ber.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)