Útflutningur hugbúnaðar

Á þriðjudaginn birti Seðlabanki Íslands árlega skýrslu sína um útflutning hugbúnaðarfyrirtækja árið 2003. Miðað við þessar tölur frá Seðlabankanum má segja að íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum hafi ekki gengið of vel að selja sínar vörur á erlendri grundu. Sé þetta skoðað í alþjóðlegu samhengi kemur Ísland betur út.

Íslenskur „tölvulúði“ að störfum.

Á þriðjudaginn birti Seðlabanki Íslands árlega skýrslu sína um útflutning hugbúnaðarfyrirtækja árið 2003. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að alls 95 fyrirtæki af 132, sem svöruðu, höfðu selt hugbúnað eða þjónustu honum tengda til erlendra viðskiptavina á árinu 2003. Heildarútflutningsverðmætið nam um 3,7 milljörðum króna eða rétt um 39 mkr. á hvert útflutningsfyrirtækjanna að meðaltali. Einungis 12 af þessum 95 fyrirtækjum fluttu út fyrir meira en 100 mkr. og nam útflutningur þessara 12 stærstu um 61% af heildarútflutningsverðmæti hugbúnaðar 2003.

Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) nam útflutningurinn 0,5% og 1,3% sem hlutfall af heildarútflutningi Íslands 2003. Til að setja þetta í samhengi við aðalútflutningsvöru okkar Íslendinga í gegnum árin jafngildir þetta í útflutningsverðmæti um 27.000 tonnum af þorski, miðað við núverandi kílóverð, eða ríflega 5% af áætluðum þorskkvóta næsta fiskveiðitímabils. Það er nú allt og sumt.

Miðað við þessar tölur frá Seðlabankanum má segja að íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum hafi ekki gengið of vel að selja sínar vörur á erlendri grundu. Sé þetta skoðað í alþjóðlegu samhengi kemur Ísland betur út. Útflutningsverðmæti íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, var hærra en meðaltalið bæði í OECD og Evrópusambandslöndunum árið 2002 og sem dæmi er hlutfallið einungis 0,1% í Bandaríkjunum (0,7% sem hlutfall af heildarútflutningi). Eitt land sker sig úr í þessu sambandi en það er Írland. Hlutfall hugbúnaðar af heildarútflutningi Íra nam 9,1% og af vergri landsframleiðslu nam það 8,5% árið 2002. Ástæða þess er sú að Írsk stjórnvöld byggðu upp hagstætt skattaumhverfi fyrir hugbúnaðar og tæknifyrirtæki sem gerði það að verkum að flest stærstu fyrirtæki heims á því sviði eru með útibú þar. Um 90% af hugbúnaðarútflutningi Írlands er vegna erlendra fyrirtækja sem eru staðsett þar.

Af þessu er því ljóst að hugbúnaður skipar nánast alls staðar nema á Írlandi, veigalítinn sess í heildarútflutningi OECD og ESB þjóða. Það þarf þó ef til vill að taka tilllit til þess að hugbúnaðargerð er ungur atvinnuvegur og hugbúnaður sem söluvara milli landa enn yngri. Til dæmis hefur útflutningur hugbúnaðar frá Íslandi aukist úr 31 milljón króna árið 1990 í 3700 milljónir 2003, miðað við meðalgengi ársins 2003. Aukningin milli áranna 2002 og 2003 var 9,5% sem verður að teljast allgott.

Hugbúnaðargeirinn á Íslandi er þó mun stærri en þessar tölur gefa til kynna. Þar sem stór hluti felst í beinni þjónustu og tengslum við viðskiptavini, auk innri þjónustu eigin tölvudeilda fyrirtækja og stofnana, verður stór hluti veltunnar til á innanlandsmarkaði. Þetta gerir það líka að verkum að til að ná árangri í útflutningi á hugbúnaði er nauðsynlegt að vera með til staðar þjónustufyrirtæki í þeim löndum sem verið er að herja á. Framleiðslan sjálf getur í sjálfur sér farið fram hvar sem er og þróunin verður líklega sú í framtíðinni að framleiðslan flyst nær eingöngu til þeirra landa þar sem vinnuaflið er ódýrast og nóg er af menntuðu starfsfólki eins og á Indlandi. Þau lönd þar sem framleiðslan verður, eins og Írland í dag, munu því flytja út mikið af hugbúnaði en í öðrum löndum mun útflutningurinn einungis nema broti af landsframleiðslu.

Hugbúnaðargeirinn á Vesturlöndum mun því líklega þróast enn frekar í þá átt að vera einungis þjónustuiðnaður með þeim afleiðingum að útflutningur hugbúnaðar mun ekki vaxa með sama hætti og verið hefur og jafnvel dragast saman þar sem framleiðslan verður þar sem vinnuaflið er ódýrast. Tekjur vegna beinnar þjónustu, s.s. uppsetningar, ráðgjafar, séraðlagana á kerfum og þess háttar munu þó væntanlega halda áfram að aukast hratt með aukinni tæknivæðingu verkferla og sjálfvirkni. Hugbúnaðargeirinn mun því halda áfram að vaxa og dafna en sú framtíðarsýn sem varð til á tímum netbólunnar, þar sem möguleikar Íslands í útflutningi á hugbúnaði m.a. vegna hentugs prufumarkaðar voru taldir miklir, er líklega enn fjarlægur draumur.

Skýrsla Seðlabankans

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)