Hreinn bögglingur

Frá því að forsetinn beitti neitunarvaldi sínu á fjölmiðlalögin í síðustu viku eru nokkur atriði sem hafa verið að bögglast fyrir þjóðinni. Í fyrsta lagi hefur undanfarin ár og áratugi ævinlega verið talað um neitunarvald forsetans til dæmis skrifaði Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði bók fyrir tíu árum síðan um þróun íslensku stjórnarskrárinnar þar sem talað er um þennan rétt sem neitunarvald eða synjunarvald, en í sjálfu sér skiptir það ekki máli þar sem að neita og synja er í sjálfu sér sami hluturinn.

Frá því að forsetinn beitti neitunarvaldi sínu á fjölmiðlalögin í síðustu viku eru nokkur atriði sem hafa verið að bögglast fyrir þjóðinni. Í fyrsta lagi hefur undanfarin ár og áratugi ævinlega verið talað um neitunarvald forsetans til dæmis skrifaði Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði bók fyrir tíu árum síðan um þróun íslensku stjórnarskrárinnar þar sem talað er um þennan rétt sem neitunarvald eða synjunarvald, en í sjálfu sér skiptir það ekki máli þar sem að neita og synja er í sjálfu sér sami hluturinn. Þar að auki beitir forsetinn því valdi sem stjórnarskráin felur honum á sama hátt og útlensku neitunarvaldi (veto). Nú vilja hins vegar margir nota orðið málskotsréttur, en það er frekar nýtt af nálinni nema kannski í lagamáli, meðal almennings hefur ekki verið talað um málsskotsrétt fram að þessu. Það neitunarvald sem almenningur þekkir og skilur er einskonar öryggisventill ef þingið fer hamförum og setur einhver lög sem eru gersamlega út úr kortinu. Frú Vigdís Finnbogadóttir nefndi til dæmis dauðarefsingar í því sambandi þegar Ísland afsalaði sér töluverðu fullveldi og gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu fyrir réttum áratug. Nú talar Ólafur Ragnar Grímsson um málsskotsrétt í stað neitunarvalds. Undir þetta taka fyrrum pólitískir samherjar á vinstri vængnum og núverandi samherjar hjá fjölmiðlarisanum Norðurljósum undir forystu kosningastjóra forsetans.

Í öðru lagi er áhugvert að velta fyrir sér rökstuðningi forsetans fyrir beitingu neitunarvaldsins. Til dæmis talaði hann um að það væri gjá milli þings og þjóðar vegna fjölmiðlafrumvarpsins. Hvort sem það er rétt eða ekki þá er ljóst að Ólafur Ragnar hefur breytt þessari meintu gjá í raunverulegt ginnungagap. Síðan segist forsetinn ekki taka afstöðu gegn þinginu eða frumvarpinu. Þetta er að sjálfstæðu fjarstæða, hann er að beita neitunarvaldi, þar með að neita að skrifa undir lög sem Alþingi Íslendinga hefur sett og hafnar þar með vilja meirihluta réttkjörins löggjafarvalds til lagasetningar og brýtur gegn gróinni þingræðishefð sem ríkt hefur hér á landi. Ólafur Ragnar segist gera þetta vegna hávaða og deilna í þjóðfélaginu um málið. En í hverju fólst þessi hávaði? Hann fólst fyrst og fremst í mikilli umfjöllun fjölmiðla, sem er ekki óeðlilegt þar sem málið snertir þá beint. Að auki fékk forsetinn í hendur rúmlega 30 þúsund undirskriftir sem safnað hafði verið á netinu. Þetta eru þó færri undirskriftir en Frú Vigdísi Finnbogadóttur voru afhentar vegna EES. Undirskriftarlistarnir núna hafa ekki verið birtir opinberlega og vafi er um áreiðanleika söfnunarinnar. Rök forsetans til að beita neitunarvaldinu í þessu máli eru því frekar slök.

Í þriðja lagi er allur aðdragandi neitunarinnar mjög sérkennilegur. Fá mál hafa fengið jafn ítarlega umfjöllun á Alþingi og fjölmiðlafrumvarpið, meira að segja gafst tími til að lesa heilu bókarkaflana í ræðustól. Frumvarpinu var breytt töluvert í meðförum Alþingis og tekið var tillit til flestra athugasemdanna við það. Það er reyndar merkilegt að nokkrir þingmenn hafa lýst því yfir fjölmiðlum að þeir séu efnislega sammála fjölmiðlalögunum, en hafi greitt atkvæði á móti vegna þess með hvaða hætti þau voru lögð fram. Þetta stríðir að gegn því drengskaparheiti sem alþingismenn sverja við stjórnarskránna um að fylgja sannfæringu sinni og engu öðru. Allur þessi gauragangur varð til þess að forsetinn gat ekki mætt í konunglegt brúðkaup í Danmörku, gat ekki sagt hug sinn til fjölmiðlalaganna fyrr en framboðfrestur til forsetakosninganna var runninn út og gat ekki undirritað lög sem komu til hans frá Alþingi. Við íslenska þjóðin stöndum frammi fyrir áður óþekktum aðstæðum. Sameiningartákn þjóðarinnar beitti neyðarvaldi sínu til að stöðva lög sem í raun og veru eru lítilfjörleg og skipta stjórnskipun landsins litlu máli. Ef til vill var komin sprunga eða gjá á milli þings og þjóðar vegna fjölmiðlamálsins, en sú sprunga var hvorki dýpri né hættulegri en aðrar slíkar sem verða til þegar umdeild mál eru í deiglunni. Drottningin í Danmörku skilur ekki hvers vegna forseti Íslands gat ekki komið í brúðkaupið, forsætisráðherra Íslands skilur ekki hvers vegna forsetinn skrifaði ekki undir og íslenska þjóðin veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Þetta er hreinn bögglingur.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.