75% vitleysa

Þær hugmyndir sem fram eru komnar um lágmarksþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum eru afar vitlausar. Í þessu tilfelli er auðvelt fyrir alla kjósendur að átta sig á hversu vitlausir þessir ólíku þröskuldar eru: Jafnvitlausir og prósentutalan sem til þeirra svarar.

Guðjón Arnar er bara svona svolítið vitlaus. Nánar til tekið svona 25% prósent vitlaus. Í Kastljósþætti sagði Guðjón Arnar nefnilega að hann teldi að setja þurfti einhvern þröskuld, t.d. 25%, á þátttökununa í þjóðaratkvæðagreiðslum til að niðurstaðan væri bindandi. Hins vegar taldi Guðjón að það væri kannski sniðugt að láta kosninguna taka lengri tíma, ekki bara dag, „kannski svona viku“ og verður sú vitleysa ekki mæld með tölu. Hefur Guðjón heyrt af utankjörfundaratkvæðagreiðslum?

Hugmyndin um þröskulda í kosningum stafar af hinum hjartnæma ótta við fámenna þrýstihópinn sem getur þröngvað vilja sínum fram í krafti lágrar kosningaþátttöku. Guðjón Arnar hræðist þrýstihópa sem 24% af þjóðinni tilheyra, margir hafa reynt að koma í veg fyrir alræði 49%-þrýstihópa og jafnvel eru þeir til sem geta ekki sofið vegna þeirrar tilhugsunar um að fámennur, 74%– þrýstihópur, geti bókstaflega stjórnað hér öllu og kúgað hið réttkjörna þing sem öllu skal ráða (sbr. þingræði).

Í þjóðaratkvæðagreiðslum um inngöngu A-Evrópu ríkja inn í ESB var víða krafist 50% kjörsóknar. Í tveimur löndum, Póllandi og Slóvakíu, má í raun segja að andstæðingar aðildar hafi hjálpað til við að koma löndunum inn í ESB. Ef rúmur helmingur þeirrra hefði setið heima þá hefði kjörsóknin farið undir 50% og innganga landanna hefði hugsanlega tafist. Þetta sýnir fáranleika slíkra þröskulda. Skyndilega skaðar það málstaðinn að greiða honum atkvæði.

Það er rangt að slíkir þröskuldar ýti upp kjörsókn. Í flestum kosningum hefur önnur fylkingin hag af því að niðurstaðan verði ekki bindandi. Þeir kjósendur fara ekki á einhvern „bömmer“ þótt kjörsókn verði lág.

Tökum sem dæmi kosninguna sem fram undan er. Hvað eiga stuðningsmenn fjölmiðlafrumvarpsins að gera ef 50% lágmarksþátttöku verður krafist? Ef þeir eru fleiri þá vinna þeir hvort sem er með því að sniðganga kosningarnar. Ef þeir eru færri þá beinlínis gera þeim málstað sínum skaða með því að mæta því þá eru þeir að ýta upp kjörsókn og auka líkur á því að kosningin verði gild.

Við erum þá sem sagt búin að búa til kerfi sem letur fólk frá þátttöku í kosningum. Þar með er hugmyndin um leynilegar kosningar líka farin út um gluggann enda er þá farið að skipta meira máli hvort þú kýst en ekki hvað.

Það sem ýtir upp kjörsókn er áhugi kjósenda og sannfæring um að atkvæði þeirra skipta máli. Umræddir þröskuldar hafa ekkert með hvoru tveggja að gera. Eða er þá ekki nauðsynlegt að setja sambærilega þröskulda á Alþingiskosningar. Ef kjörsókn lækkar milli ára, þá situr bara sama þingið áfram?

Nei, það eiga ekki vera nein takmörk á það við hvaða aðstæður lýðræðið fái að ganga sinn gang. Eða hvers vegna eiga þeir sem nenna ekki að mæta, eru útlöndum eða nýlátnir að taka völdin af þeim sem nenntu að setja sig inn í málið? Og ef að Ríkisstjórnin metur það svo að áhugi á kosningunum hafi verið það lítill að henni sé óhætt að leggja fram sama frumvarp á næsta þingi, þá getur hún gert það og tekið pólitíska ábyrgð í næstu kosningum.

Allir þröskuldar á kjörsókn eru vitlaus hugmynd frá stærðfræðilegu og lýðræðislegu sjónarmiði. Og þeim hærri sem menn setja þá þeim mun andlýðræðislegri verða þeir.

Eða hvernig væri bara að fara með þetta alla leið og krefjast hvorki meira né minna en: 100% þátttöku? Það væri nú ekki mikið vitlausari hugmynd en þessi 75% sem menn hafa nefnt.

Nánar til tekið: svona 25% vitlausari.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.