Blikur á lofti

Síðastliðinn laugardag birti Fréttablaðið athyglisverða könnun sem sýndi að einungis þriðjungur þjóðarinnar styddu ríkisstjórnina en 69,1 prósent væru andvíg. Ef gengið yrði til kosninga nú, samkvæmt könnuninni, fengi Sjálfstæðisflokkurinn einungis um 25 prósent fylgi sem myndi teljast til tíðinda í ljósi fyrri úrslita.

Síðastliðinn laugardag birti Fréttablaðið athyglisverða könnun sem sýndi að einungis þriðjungur þjóðarinnar styddu ríkisstjórnina en 69,1 prósent væru andvíg. Ef gengið yrði til kosninga nú, samkvæmt könnuninni, fengi Sjálfstæðisflokkurinn einungis um 25 prósent fylgi sem myndi teljast til tíðinda í ljósi fyrri úrslita. Þó að langt sé til næstu kosninga og varlega þurfi að fara í að lesa of mikið í niðurstöður slíkra kannana eru vissar blikur á lofti um breytingar á stuðningi þjóðarinnar við ríkisstjórnina.

Ýmis rök má færa fyrir því að fylgi stjórnarflokkanna sé að minnka eins hratt og raun ber vitni. Til dæmis heyrist frá Samfylkingunni að þeirra góða starf sé loks að skila sér, sameining vinstri manna sé handan við hornið og öflugir leiðtogar flokksins séu nú búnir að finna rétta stefnu og geti stýrt skipinu til hafnar. Óhætt er þó að fullyrða að tvíeykið Össur og Ingibjörg eiga lítinn heiður af minnkandi fylgi stjórnarinnar því að svo virðist sem forystumenn stjórnarflokkanna séu að taka af þeim ómakið með hverju slæmu þingmálinu á fætur öðru og mjög umdeildum ummælum í fjölmiðlum. Þessum málum verða ekki gerð skil í þessum pistli enda mikið um þau skrifað á Deiglunni og skoðun penna vefritsins ætti að vera öllum ljós.

Oft er sagt að barátta íslenskra stjórnmála snúist um stóran hóp kjósenda sem gerir ekki upp hug sinn fyrr en á kjörstað. Flestir telja að meirihluti þessara kjósenda rokki einhvers staðar á miðju hins pólitíska litrófs – séu einhvers konar frjálslyndir jafnaðarmenn sem vilji frelsi í viðskiptalífinu en halda í velferðarkerfið. Við skulum kalla þá óákveðna kjósendur.

Þeir sem ekki tilheyra þessum hópi eru mun ákveðnari kjósendur sem eru með skoðanir sínar á þeim valkostum sem eru í boði í kosningum á hreinu. Á þennan hóp kjósenda geta flokkarnir treyst enda er oft sagt að um kjarnafylgi flokkanna sé að ræða. Nú á síðari árum hefur ýmislegt bent til þess að fjöldi þeirra sem til fyrri hópsins teljast sé að aukast á kostnað þess síðarnefnda.

Hingað til hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið talinn með sterkasta kjarnafylgið. Hvort að skýringin á því sé öflugt flokkstarf eða vel ígrunduð hugsjónarvinna skal ósagt látið en líklegast er þó að blöndu af hvoru tveggja þurfi til.

Nú eru blikur á lofti um að ekki einungis gangi hratt á stuðning óákveðinna kjósenda Sjálfstæðisflokksins heldur hafi nú einnig verið gengið fram af hluta kjarnafylgis. Að kjósendur sem hingað til hafa verið taldir tryggir stuðningsmenn séu ekki lengur vissir í sinni sök.

Á þessu er líklega eðlileg skýring. Þeir sem tilheyra óákveðnu fylgi, eru hægra megin í stjórnmálum en vilja ekki binda trúss sitt við einn ákveðinn stjórnmálaflokk hafa hingað til að valið þann kost sem er næst þeirra hugsjónum þ.e. Sjálfstæðisflokkinn. Hafa kannski ekki alltaf verið sammmála forystunni en fylgt meginhugsjónum og trúað því að þingflokkurinn fari eftir því. Jafnframt hafa ungir Sjálfstæðismenn styrkt þennan hóp í trúnni með ályktunum um aukið frelsi og minni ríkisafskipti. Mál eins og fjölmiðlafrumvarpið, loforð um ríkisábyrgð, aukið eftirlit með útlendingum o.fl. hafa brotið þessar meginhugsjónir – fækkað valkostum þessa hóps um einn og skilið hann eftir frammi fyrir fátæklegu vali. Von um að ungir frjálshyggjumenn, sem hafa undanfarin ár talað fyrir auknu frelsi og settust nýverið á þing, standi vörð um þessar meginhugsjónir hafa farið fyrir lítið sem sýnir sig best í skilyrðislausum stuðningi þeirra við fjölmiðlafrumvarpið. Þeir sem tilheyra kjarnafylgi flokksins og hafa ekki nú þegar fengið nóg, lenda í því að þurfa að svara fyrir gjörðir ríkisstjórnarinnar, ekki síst vegna opinbers stuðnings við Sjálfstæðisflokkinn. Vegna þess hve erfitt það hefur reynst upp á síðkastið verður að teljast eðlilegt að þessi hópur minnki einnig.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að halda sínum dyggustu stuðningsmönnum er ljóst að mikið þarf að vinna í innra starfi og líta þarf í eigin barm. Athuga þarf hvort þau mál sem hafa verið hvað mest í umræðunni séu í raun og veru í samræmi við þau meginmarkmið sem sameina flokkinn – hvert stefnan sé tekin.

Ef niðurstaðan er sú að frelsi, lágmarks ríkisafskipti og víðsýni ráði för er ekkert að óttast. Ef ekki, má vænta þess að skoðunarkönnun Fréttablaðsins sé vísir að því sem koma skal.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.