Stytting náms

Á seinustu dögum hafa tveir menntaskólar tilkynnt að þeir ætli að bjóða upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs. Þetta aukna framboð er mjög jákvætt og gefur góðan undirbúning undir almenna styttingu námsins.

Á seinustu dögum hafa tveir menntaskólar tilkynnt að þeir ætli að bjóða upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs. Áður hafði einn skóli sérstaklega verið stofnaður með það að leiðarljósi að stytta nám í framhaldsskóla, en þar er námið tvö ár en ekki þrjú.

Þessir tveir skólar til viðbótar eru Verslunarskóli Íslands og Menntaskólinn við Sund, fyrir báða þessa skóla er þetta hrein viðbót við það námsúrval sem er í boði. Hæfileikaríkir nemendur geta sótt um og væntanlega munu klárustu nemendurnir komast inn. Töluvert meira álag mun leggjast á þesar nemendur en ekki er gert ráð fyrir að slakað verði á kröfum í náminu.

Þessi hraðferð er kærkomin nýjung í íslenskt menntaskólaumhverfi, og gefur klárum einstaklingum tækifæri á að vera komnir út á atvinnumarkaðinn ári fyrr og þar með skapa sér og þjóðinni auknar tekjur. Þessir möguleikar hafa verið fyrir hendi í fjölbrautaskólum þar sem fólk hefur á eigin rammleik getað valið sér meira efni, hins vegar hefur fólk sem hefur viljað nýta sér kosti bekkjakerfisins ekki átt þesss möguleika fyrr en nú.

Töluverð umræða hefur verið um almenna styttingu á framhaldsskólanum niður í 3 ár. Á vef menntamálaráðuneytisins má finna skýrslu um málið. Í henni kemur fram að með þessu styttingunni myndi meðalfjöldi nemenda í framhaldsskólum fækka um 18%, með tilheyrandi sparnaði fyrir framhaldsskólana. Á sama tíma myndi tímabundin fjölgun verða í háskólunum fyrsta árið þegar tveir árgangar koma inn í skólana. Það er alveg ljóst að auka þarf fjármuni til háskólanna á meðan þetta gengur yfir.

Í skýrslu á frá menntamálaráðuneytinu er gert ráð fyrir að þriggja ára nám til framhaldsskóla hefjist árið 2006. Þessi breyting er ákjósanlegt skref í þá átt. Háskólarnir fá tækifæri til að aðlaga sig að þeirri aukningu ásamt því að menntaskólarnir geta notað reynsluna af þessu til að undirbúa styttinguna.

Í það heila virðast breytingarnar vera til hins góða, helstu gallar við breytingarnar eru að þær skuli ekki vera á fleiri brautum. Áframhaldandi þróun í þessa átt mun einfalda styttinguna þegar að henni kemur og reynast mikilvægur grunnur þegar kemur að upplýstri ákvörðun varaðandi styttinguna, t.d. upplýsingar varðandi sparnað skólanna eða brotfall. Næst er að skoða hvernig má stytta grunnskólann.

——-

Skýrsla um styttingu námstíma til stúdentsprófs – Ágúst 2003

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.