Bandarískir hermenn frömdu umfangsmikla stríðsglæpi

Það vakti mikla athygli þegar hópur friðarsinna víðsvegar að úr heiminum ákvað að gerast „mannlegir skildir” í Írak í aðdraganda innrásar bandamanna í fyrra. Meðal þessara friðarsinna var Ruth Russell, áströlsk tveggja barna móðir, sem vakti heimsathygli þegar opið bréf hennar til forsætisráðherra Ástralíu birtist í dagblöðum víða um heim. Í viðtali við Baldur Arnarson og Zoë Robert segir Ruth m.a. frá stríðsglæpum bandarískra hermanna fyrstu daganna eftir fall Baghdad, og framlagi Dags Ingvarsonar og Íslands til friðarmála í borginni skömmu fyrir innrás bandamanna. Deiglan birtir nú þetta viðtal fyrst íslenskra fjölmiðla.

Það vakti mikla athygli þegar hópur friðarsinna víðsvegar að úr heiminum ákvað að gerast „mannlegir skildir” í Írak í aðdraganda innrásar bandamanna í fyrra. Meðal þessara friðarsinna var Ruth Russell, áströlsk tveggja barna móir, sem vakti heimsathygli þegar opið bréf hennar til forsætisráðherra Ástralíu birtist í dagblöðum víða um heim. Í viðtali við Baldur Arnarson og Zoë Robert segir Ruth m.a. frá stríðsglæpum bandarískra hermanna fyrstu daganna eftir fall Baghdad, og framlagi Dags Ingvarsonar og Íslands til friðarmála í borginni skömmu fyrir innrás bandamanna.

Stríðsglæpir Bandaríkjamanna í Írak
Ruth heyrði fyrst um fall Baghdad í gegnum breska útvarpið því að hún var innilokuð í hjarta borgarinnar. En í fjarska heyrðust háværar drunur frá skriðdrekum bandamanna, sem fyrirhafnarlítið brutu niður veikar varnir lýðveldishersins:

„Ég vissi minna um hvað var að gerast heldur en fólk á vesturlöndum, en síðan, þegar það varð orðið ásættanlega óhætt að svipast um, fór ekki á milli mála að bandamenn höfðu hertekið Baghdad. Ég get fullyrt að þessa daga skutu bandarísku hermennirnir á allt og alla því að þeir vissu að þeir yrðu ekki dregnir til ábyrgðar,“ segir Ruth. „Ef þú ert ekki dreginn til ábyrgðar getur þú komist upp með hvað sem er. Þetta voru hræddir Bandaríkjamenn á tvítugsaldri á framandi slóðum, sem skutu í allar áttir í örvæntingu. Ljósmyndir á heimasíðu minni [sjá í greinarlok] sýna svo að ekki verður um villst að Bandaríkjamenn frömdu umfangsmikla stríðsglæpi í hjarta Baghdad daganna eftir fall borgarinnar. Það að Bandaríkjamenn eru ekki dregnir til ábyrgðar er stóralvarlegt mál, því að ég get fullyrt að þeir frömdu stríðsglæpi. Ég sá lík í miðborg Baghdad sem að bandarískir hermenn höfðu brennt til að gera þau óþekkjanleg. Ég sá fólksbíla þar sem heilu fjölskyldurnar höfðu voru skotnar til bana, jafnvel börnin í aftursætinu. Þetta gerist þegar óvinurinn er alls staðar. Þessi morð voru ekkert annað en stríðsglæpir.“

Íslenski fáninn vakti vonarneista í hjörtum íbúa Baghdad
„Dagur Ingvarson kom með stóran íslenskan friðarfána sem hann setti upp við „friðarbrúna“ í Baghdad nokkrum vikum fyrir innrás bandamanna í borgina. Það var einstök stund þegar hann hengdi upp íslenska fánann, enda vakti þetta vonarneista í hjörtum borgarbúa. Dagur tók einnig þátt í að setja upp tónleika í íraska þjóðleikhúsinu, þar sem heimamenn settu upp skemmtiatriði fyrir hlé, en við friðarsinnarnir eftir hlé. Þetta tókst svo vel að við settum upp svipaða sýningu í húsi íraska balletdansflokksins. Hann hafði mikinn áhuga á að kynnast írösku þjóðinni og tók þátt í friðargöngu um borgina þar sem hann hélt á spjaldi áletrað „Ísland“ á arabísku og ensku. Dagur var heimsmaður og hafði starfað í Tælandi og Kína áður en hann slóst í lið með okkur. Hann hélt sig stundum til hlés og vann þá að ljósmyndum sínum. Hann var mjög örlátur og gaf gjarnan götubörnum bæði peninga og mat. Dagur var sérlega mikilvægur fyrir okkur því að hann kom með tæknilega þekkingu inn í hópinn, sem auðveldaði mörgum mannlegum skjöldum að koma boðum áfram til umheimsins. Hann yfirgaf Baghdad áður en innrásin hófst, en táknrænt mikilvægi þess að hafa einhvern frá Íslandi var ómetanlegt, því að það sýndi hvað einn einstaklingur getur fengið áorkað, með því að túlka andstöðu þjóðar sem var yfirlýstur stuðningsaðili innrásarinnar.“

Írösk yfirvöld afar hjálpleg
Ruth segir að hún og Dagur og aðrir mannlegir skildir hafi ekki óttast að vera tekin höndum af íröskum stjórnvöldum:

„Írösk stjórnvöld vissu að við höfðum gríðarlega athygli fjölmiðla og að það gæti verið mjög skaðlegt fyrir ímynd þeirra að taka okkur höndum, hvað þá að taka okkur af lífi. Þetta var einkum vegna þess að við [mannlegir skildir] vorum í upphafi um 500, frá 52 þjóðlöndum. Að myrða fólk úr þessum hópi hefði því haft áhrif víða. Írösk stjórnvöld sögðu að við værum á okkar eigin ábyrgð og að við gætum yfirgefið landið þegar okkur sýndist. Við höfðum fullt ferðafrelsi, fyrir utan að okkur var bannað að umgangast hernaðarmannvirki. Það var ennfremur í þeirra þágu að leyfa okkur að gæta áætlaðra skotmarka bandamanna, því að það sparaði þeim herafla. Að auki voru báðir aðilar að reyna að koma í veg fyrir stríð svo að það má segja að það hafi skapast all sérstakt bræðralag á milli okkar. Írösk stjórnvöld gengu þó úr skugga um að við tækjum ekki myndir á röngum stöðum meðan þau eygðu enn von um að innrásinni yrði afstýrt. Þau sáu um að okkur vanhagaði ekki um neitt og útveguðu okkur hópferðabifreið, símasamband við útlönd, tölvur, skrifstofur, hótelherbergi og túlka. Þau lögðu sig fram við að láta okkur líða vel og sýndu okkur fornleifaminjar í nágrenni Baghdad. Síðast en ekki síst útveguðu þau okkur einkabílstjóra, en án þeirra hefði starf okkar verið mjög erfitt. Og þegar ljóst var að innrás bandamann í Írak væri óumflýjanleg aðstoðuðu þau hinum mannlegu skjöldunum að yfirgefa landið, en ég og vinur minn David, ásamt nokkrum öðrum, urðum eftir. Reynsla Davids sem fyrrum Víetnam hermaður var ómetanleg þegar að við þurftum að taka ákvarðanir um hversu langt við ættum að ganga í að hætta lífi okkar til að ná ljósmyndum, daganna eftir fall borgarinnar [sjá greinarlok].“

Ágreiningur innan hópsins
Ágreiningur innan hins fjölþjóðlega hóps mannlegra skilda þótti gott fréttaefni vikurnar fyrir árás bandamanna. Og eins og menn muna, þá var breska pressan einkar áhugasöm um valdataflið innan hópsins. Ruth segir að vestrænn hroki hafi stundum spillt fyrir starfsemi hópsins: „Ken [O´Keefe] vildi verða frægur í gegnum formannsstöðu sína í hópnum. Þegar að honum varð ljóst að hann hefði ekki nægjanlega stuðning til að verða hinn „mikli leiðtogi“ breyttist viðhorf hans til málstaðarins. Og eftir að við báðum hann að fara heim ákvað hann að lýsa því yfir í fjölmiðlum að samtökin væru á rangri leið, misheppnuð.“ En hvers vegna ákváð fólk að hætta lífi sínu og gerast mannlegir skildir? „Fólk kom af misjöfnum ástæðum. Sumir voru aðeins með okkur í tvær vikur á meðan að við fórum um Evrópu og áður en við komum inn til Baghdad. Aðrir voru með okkur alveg fram á innrásina, en ég og nokkrir aðrir urðum eftir í Baghdad. Og þegar fólk vissi að það gæti ekki komið í veg fyrir innrásina ákvað það að fara. Bandaríkjamennirnir í hópnum, t.a.m., áttu yfir höfði sér langa fangelsisvist og $100,000 fjársekt ef þær lendu í vandræðum nálægt átakasvæðum eftir að átök höfðu brotist út. Þeir urðu því að yfirgefa landið. Í dag eru tveir Bandaríkjamenn í fangelsi fyrir að virða þessar reglur að vettugi. Nokkra daga eftir að bandamenn höfðu hertekið landið ákváðum við sem eftir urðum að fara, enda vissu fjölskyldur okkar ekki hvort við værum enn á lífi.“

Mikil áhugi heimspressunnar
„Á meðan ég dvaldi í Baghdad hafði ég tengilið í Adelaide [Suður-Ástralíu] sem sá um að koma skilaboðum frá mér til réttra aðila, sérstaklega fjölskyldu minnar. Þessi tengiliður var nauðsynlegur því að það rigndi yfir mig fyrirspurnum frá fjölmiðlum víða um heim, m.a. frá B.B.C. Án þessarar fjölmiðlaathygli hefðu mótmæli okkar haft mun minni áhrif. Ég man sérstxaklega eftir sjónvarpsviðali sem Channel 7 [Ástralíu] tók við mig í myndveri í borginni, því að daginn eftir höfðu sprengjur bandamanna jafnað það við jörðu. Ég skrifaði opið bréf til John Howards, sem birtist í dagblöðum víða um heim, m.a. í The Washington Post. Fyrir vikið fékk ég „milljón dollara“ fjölmiðlaathygli sem að hvern friðarsinna dreymir um. Athygli fjölmiðla var þó af misjöfnum toga. Darryn Hinch [áströlsk útvarpsstjarna] hringdi í mig vikulega í tengslum við útvarpsþátt sinn og ásakaði mig um að hjálpa málstað Husseins með starfi mínu í Baghdad. Að sjálfsögðu lét þau orð sem vind um eyru þjóta, enda var ég Ástrali á eigin vegum að sýna fram á andstöðu mína við innrásina. Ásakanir John Howards, um að ég væri athyglissjúkur kjáni, snertu mig ekki heldur. Þannig málflutningur dæmir sig sjálfur.“

Grét þegar íraskar konur báðu fyrir mér
„Það var geysilega tilfinningaríkt að umgangst borgarbúa Baghad í aðdraganda innrásarinnar. Ég man t.d. eftir „heimsmeistaramóti“ í knattspyrnu sem við héldum á íþróttasvæði Baghdad Háskóla skömmu fyrir innrásina. Mannlegir skildir víðsvegar að úr heiminum komu saman og léku knattspyrnu. Þetta var fyrst og fremst karlamót, en það kom stúlka frá Slóveníu og krafðist þess að fá að vera með. Hún skoraði fyrsta markið og stal senunni frá körlunum. Mótið hafði þannig mikla táknræna þýðingu fyrir viðstadda, sem sáu fulltrúa umheimsins leika sér með bolta eins og þeir væru heima hjá sér. Sá atburður sem að hafði hins vegar mest áhrif á mig var þegar ég var viðstödd kertafleytingu á Tígris ánni. Meðal viðstaddra voru íraskar konur sem gerðu litla „báta“ úr laufblöðum og fleyttu niður ána. Heimspressan var viðstödd og heimamenn sungu lög, þannig að þetta var mjög alþjóðlegt. Mitt í þessari kyrrðarstund tóku nokkrar íraskar konur mig afsíðis og báðu mig að fylgja sér. Ég gekk með þeim og að litlu bænahúsi ætluðu konum, þar sem mér var sagt að bíða inni. Þær töluðu saman fyrir utan bænahúsið og komu síðan inn og lögðu jurt á lófa mína, sem mér skilst að sé aðeins notuð við hátíðleg tækifæri. Síðan báðu þær fyrir mér, en ég gat ekki annað en grátið. Þetta var þeirra leið til að þakka mér fyrir baráttu mína.“

Heimsókn Howards til Baghdad sýndarmennska
Ruth telur heimsókn John Howards til Baghdad 25 apríl s.l. hreina sýndarmennsku, framkvæmda í áróðurskyni, en sá dagur, „ANZAC Day“, er kenndur við ástralskar og Ný-sjálenskar hersveitir sem réðust til atlögu í Gallipoli, Tyrklandi, 25 apríl 1915. Það er vert að geta þess, áður en lengra er haldið, að táknrænt mikilvægi þessa dags, sem heiðrar minningu fallinna ástralska hermanna, hefur aukist mjög í stjórnartíð Howards [1996-2004]. Og er eftirlifandi áströlskum hermönnum úr seinni heimsstyrjöldinni hampað sem stríðshetjum í stærstu borgum Ástralíu að morgni þessa dags, sem er smátt og smátt að verða þýðingarmeiri fyrir ástralska þjóðarsál heldur en formlegur þjóðhátíðardagur landsins, 26 janúar. Ruth er ekki í vafa um að Howard hefur spilað á þessa hernaðardýrkun nú mitt í kosningabaráttunni syðra:

„Vandamálið við Howard er að hann upphefur stríðsrekstur og mikilvægi þess að deyja fyrir þjóðina í stríði. Hvert sem hann fer talar hann um stríð. Við höfum aldrei heyrt hann tala um frið, né heldur Alexander Downer [utanríkisráðherra Ástralíu]. Ef þú vilt frið, þá talar þú um og undirbýrð frið. Stefna Howard er því þvert á það sem hún ætti að vera, enda eru Bandaríkjamenn að tala um að setja upp herstöð í Darwin [Darwin er höfuðborg Northern-Territory, og nyrsta höfuðborg Ástralíu]. Af hverju er Ástralía ekki eins og Nýja-Sjáland og Kanada sem að neita að taka þátt í stríðsbrölti? Tilhugsunin um að áströlsk stórfyrirtæki græði á innrásinni í Írak er hræðileg.“

Misþyrmingar á stríðsföngum koma ekki á óvart
Pyntingar bandarískra hermanna á íröskum föngum koma Ruth ekki á óvart, því að hún segir þær hafa átt sér stað árum saman og að Rumsfeld sé gerður að sökudólgi fyrir hefð sem að hann er ekki höfundur að. Andstaða Íraka gegn hernámsliðinu kemur Ruth heldur ekki á óvart: „Þegar bandamenn yfirtóku Baghdad ríkti enginn fögnuður í huga þeirra Íraka sem að voru í kringum mig. Þvert á móti ríkti sorg og örvænting í hugum borgarbúa. Í þessu skyni er mikilvægt að minna á að íraska þjóðin hafði búið lengi við einangrun og strangar takmarkanir á skoðanfrelsi þegar við komum inn í landið. Við þurftum því að gæta okkur á að spyrja ekki of margra spurninga. Íraskur almenningur var einnig ekki viðbúinn allri athyglinni sem yfirtaka bandamanna hafði í för með sér. Og til að sameinast í glundroðanum neitaði íraskur almenningur að klæðast á vestræna vísu. Þannig sýndi fólkið fram á að það hyggðist halda menningu sinni óspilltri af vestrænum áhrifum.“

Og hvernig sérðu fyrir þér framhald mála í Írak?

„Bandaríkjamenn eru að reyna að gera það sem þeir hafa gert í 19 öðrum ríkjum, þ.e. að steypa yfirvöldum af stóli og koma í staðinn á leppstjórn. Þetta lítur út fyrir að vera hið dæmigerða ferli: strengjabrúður í stjórn og bandarísk fyrirtæki hagnast.“ Að lokum, hvað finnst þér um þá tilgátu að Ástralía sé orðið 51. ríki Bandríkjamanna? „Ég tek að mörgu leyti undir það, enda styrkist samband þjóðanna stöðugt.“

Viðtalið birtist í enskri útgáfu á vefsíðu indymedia víða um heim, m.a. á vefsíðum samtakanna í París, Belgíu, Englandi og Brisbane, en frekari birtingar á netinu eru fyrirhugaðar.

Heimasida Ruth: www.ruthrussell.net – Tengillinn „David´s tank battle story“ vísar á myndir af fórnarlömbum innrásarinnar, sem Bandaríkjamenn brenndu til að gera óþekkjanleg.