„I read the newspaper“

<%image(frettir/baghdad_2.jpg|203|152|Írak)%>– Sagði George W. Bush, þegar hann var spurður um lestrarvenjur sínar. Þær eru þó ekki til umfjöllunar í þessum pistli, heldur forsetatíð George Bush. Senior og junior. Like father, like son.

<%image(frettir/baghdad_2.jpg|203|152|Írak)%>Bandarískt efnahagskerfi hefur á undanförnum 65 ár verið pískað áfram undir formerkjum “the war economy”. Með því er átt við að stórum hluta fjárlaga bandaríska ríkisins er eytt í uppbyggingu og viðhald á hernum, í von um að örva þannig viðskiptalíf landsins. En til hvers að hafa her ef þú hefur engan til að berjast við?

Bush eldri stóð frammi fyrir þessu vandamáli í forsetatíð sinni. Í 60 ár höfðu Bandaríkin farið í víking til Kóreu, Víetnam, Kúbu, Dómíníska Lýðveldisins, auk þess að standa í ýmis konar hernaðarbrölti í Evrópu, Afríku, Mið-Austurlöndum og S-Ameríku. Til að berjast gegn rauðu hættunni sem flæddi frá Sovétríkjunum, allt þar til þau hrundu skyndilega.

Þá var loksins komið tækifæri fyrir Bandaríkin til að endurskipuleggja utanríkisstefnu sína. Losa um hundruði miljarða dollara frá hernum og veita þeim til uppbyggilegra verkefna…eða bara lækka skatta.

Til að aflétta tilvistarkreppu bandaríska hersins fór Bush eldri í tvö stríð. Í desember árið 1989 réðust 26.000 bandarískir hermenn inn í Panama til að fanga Noriega og færa fyrir rétt vegna fíkniefnaviðskipta. Skv. opinberum tölum Pentagon létust 700 saklausir borgarar, eða tvöfalt fleiri en Kínverska ríkisstjórnin drap í stúdentauppreisninni á Torgi hins himneska friðar, hálfu ári áður. Eftir að hafa komið réttum manni við stjórnartaumana mældist enginn munur á magni fíkniefna sem fóru í gegnum Panama. Mission failure.

Stríðið var stutt og auðveldlega unnið. Ekki hafði enn tekist að sannfæra bandaríska borgara um nauðsyn þessa hernaðarbrölts, auk þess að fylgi Bush var að minnka. Eftir innrás Íraka í Kúveit gafst tækifæri til að bæta hér úr. Fljótlega fóru að berast fréttir af áætlun Saddams til að smíða kjarnorkuvopn, en lítið var um sannanir (hljómar kunnuglega). Í janúar ‘91 bað Bush bandaríska þingið um heimild til að fara í stríð og hófst það um miðjan mánuðinn. Mánuðunum fyrir stríðið hafði Saddam verið lýst sem endurbornum Hitler. Eftir að stríðinu lauk, einum og hálfum mánuði eftir að það byrjaði, leyfðu Bandaríkin Hussein að vera áfram við völd sem mótvægi gegn Íran.

Ástæða þessarar stuttu og ef til vill dulítið selektívu söguskoðunar er sú að hún á margt sameiginlegt með raunveruleika dagsins í dag. Núna, 12 árum eftir að faðir hans lét af embætti, er George W. Bush yngri að gera upp forsetatíð sína. Ég hef aldrei skilið þá staðreynd að sumir íslenskir hægrimenn finna sig knúna til að styðja við bakið á Bush, einfaldlega vegna þess að hann er íhald. Ofar á baugi ætti að vera trúarofstæki, gríðarlegur fjárlagahalli, auknir styrkir í landbúnaði og stálstríðið við Evrópusambandið. Nýlega sendi Cato stofnunin, mekka frjálshyggjunnar, frá sér skýrslu þar sem Bush var talinn dýrasti forseti Bandaríkjasögunnar.

Í forsetatíð sinni hefur George “I´m a war president” Bush yngri farið í 2 stríð og komið á ástandi sem svipar til kalda stríðsins. Með stríðinu gegn hryðjuverkum er komin hin endanlega réttlæting hervæðingu Bandaríkjanna. Tekist hefur að greipa ótta inn í bandarísku þjóðarsálina og bíður hún þess eins að stríðinu ljúki. En hvenær og þá hvernig lýkur þessu stríði? Ekki sé ég fyrir endan á því, enda listi “öxulvelda hins illa og co.” sífellt að lengjast. Íran, N-kórea, Sýrland, Osama Bin laden… eða bara Stefán Pálsson og samtök herstöðva andstæðinga.

Staðreyndin er sú að hryðjuverkavandi heims er samfélagslegs eðlis sem verður aldrei leystur af stærsta her heims.

Og já, þú ert ekki að lesa Múrinn…

Latest posts by Sigurður Örn Hilmarsson (see all)