Vanhæfi

sdfdPistlahöfundur lýsir sig hér með algjörlega vanhæfan til umræðu um efni þessa pistils.

Gulur, rauður, grænn og blár — svartur, hvítur, fjólublár. Það verður að viðurkennast að skáldið sem samdi þetta rím, hefir átt betri daga!

Ég sé þetta alveg ljóslifandi fyrir mér. Í reykmettuðu bakherbergi djúpt í Efstaleiti sitja meðlimir Útvarpsráðs í þungum þönkum. Umræðuefnið er ærið. Kaffikannan er látin ganga réttsælis frá Gunnlaugi til Páls, en ekkert sullast niður — innan þessara flokka er sko allt í fullkomnu jafnvægi. Framundan er þó átakafundur og þessari stund hafa þau öll beðið eftir. Fundarstjóri ræskir sig um leið og hann stendur upp og fangar óskipta athygli meðfundarmanna þegar hann segir háum en digurbarkalegum rómi: „Jónsi, er okkar maður í ár — ballöður rokka!!!“

Í sömu andrá stökkva Andri, Anna, Páll, Ingvar, Kjartan, Svanfríður og allir hinir Útvarpsráðskrakkarnir úr sætum sínum og ráða sér vart fyrir kæti. Þetta var góður dagur hjá Útvarpsráði, fundarmenn eru í sjöunda himni.

Hér er vert að staldra við í stutta stund. Það væri að æra óstöðugan að láta þennan pistil fjalla um stöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði. Enn glæfralegra væri að nota tækifærið til að lýsa frati á framlag okkar í júróvisjón þetta árið. Hins vegar væri alveg hreint gráupplagt að láta pistilinn fjalla um það hversu súrrandi vanhæfir meðlimir Útvarpsráðs eru til að velja framlag Íslands í söngvakeppni Evrópu.

Fyrir það fyrsta hygg ég að ekkert þeirri búi yfir nokkru tónlistarlegu innsæi. Ég sé það bara ekki gerast: Páll raular alltaf sama söng og formaðurinn og gæti í besta falli hafa verið falskur meðlimur í mónótónískum kór á yngri árum, rödd Svanfríðar er svo hljómfögur að það tekur því ekki að lýsa henni fyrir lesendum — og Andri Óttarsson — maðurinn á ekki einu sinni sjónvarp!

Í annan stað hefir ráðið oft verið gagnrýnt fyrir slagsíðu til hægri — en fyrr má nú rota en dauðrota: „…Blend with my blue, those colours of you“. Hins vegar er fullljóst að fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa nú eitthvað fært sig upp á skaftið þegar á leið fundinn og biðla ekki lengur til manna heldur ana áfram af blindri flokkshollustu: „…I blend my blue in those colours of you!“ Án þess að spyrja hvorki kóng né prest!

Nei þýðir nei — og í þriðja lagi er í fjórða lagi.

Og svo eiga menn bara ekkert að vera að sulla með liti. Vitiði ekki hvað gerist ef maður blandar saman bláum og grænum í hlutföllunum 70:30? Jú, útkoman verður einhvers konar óskiljanleg ljósblá slikja sem enginn fílar. Ekki nógu blá til að teljast blá og því síður nægjanlega græn til að vera græn. Hvorki fugl né fiskur.

Það gilda nefnilega áþekk lögmál í júróvisjón og pólitík. Það þýðir ekkert að feta einhvern milliveg í veikri von um að gera öllum til geðs. Menn eiga bara að leggja fram almennilegt rokk og standa og falla með því, í stað þess að þynna það út í einhvers konar ballöðu sem allir eiga að fíla.

Endalausar málamiðlanir gera engan ánægðan og atkvæði fjöldans skila sér bara ekki í hús — og á endanum er aðalmaðurinn dæmdur til að koma í sjónvarpsfréttir með falskt sigurbros á vör og segjast vera frábærlega ánægður með lyktir mála.

19. sæti.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)