Rómeó og Júlíus

sdfdSaga sú af dauðadæmdri þrá og deilum manna um auð og völd, sem á dánarbeði valda endi fá, er ein af þeim sem sögð er hér í kvöld.

Í Verónsborg ríkir magnþrungin spenna. Merkútsíó, Tíbalt, Kapúlett og allir hinir villingarnir eru steinsofnaðir, en greyið Rómeó liggur andvaka. Hann stígur löturhægt fram úr rúminu og tygjar sig til ferðar. Eftir langa för kemst Rómeó loks örþreyttur á áfangastað. Svitinn perlar á enni hans, hjartað hamast, en ekkert fær haldið aftur af honum: „Ó, Júlíus – ó, Júlíus“ – öskrar Rómeó í átt að svölunum, en ákveður síðan að klifra upp vínviðinn til fundar við ástina. Úr fjarska heyrir frú Kapúlett að einhver er staddur við svalardyrnar og rennir í grun um að ekki sé allt með felldu. En í sömu andrá opnast svalahurðin og Júlíus, fúlskeggjaður og kafloðinn, baðar út höndunum um leið og hann ropar út úr sér í bland við hryglu og andremmu:

„Ó, Rómeó – ó, Rómeó“.

Gott og vel, kannski er þetta fulldjúpt í árinni tekið. Hins vegar er ofangreindur formáli nauðsynlegur til þess að lesendur Deiglunnar átti sig á hvað hvernig toppstykkið á íslenskum leikhúsmógúlum fúnkerar.

Nýjasta nýtt í leikhúslífinu er að velja karlmenn í kvenhlutverk og kvenmenn í karlhlutverk. Um þessar mundir má þannig sjá snillinginn Eggert Þorleifsson í hlutverki elliærar ömmu á fjölum Borgarleikhússins og í næsta sal mundar Halldóra Geirharðsdóttir lensuna í titilhlutverkinu í Don Kíkóta.

Við gætum svo sem látið þetta liggja á milli hluta ef ekki væri fyrir svipuð, en mun alvarlegri hlutverkaskipti á Alþingi. Reyndar hafa þau ekkert með kyn að gera — pestin á þeim bæ leggst á kellingar af báðum kynjum.

Raunveruleikinn er nefnilega oft betri en nokkur skáldskapur. Og alveg hreint ótrúlegt hvernig mismunandi sögur eiga það til að fléttast saman í eina. Þannig er ljóst að menn telja sig þurfa að höggva mannvígan risa í herðar niður og stinga sverðinu að vígi loknu á bólakaf í Hringtorgið við Þjóðminjasafnið, sem víti öðrum til varnaðar. En sama hve hátt skríllinn mótmælir smekkleysunni — halda menn áfram að berjast við vindmyllur.

En örvæntið ekki; lykilinn að góðum skáldskap er alltaf að finna í endanum.

Því verkið er sígilt og sviðið er sett. Sýningin hefir verið full af lífi, sogað athygli til sín og gefið okkur tækifæri á að upplifa ólíkindalegan skáldaheim. Í sameiningu höfum við hlegið að frjálslyndum aukapersónum en grátið heiftina enda þótt endirinn sé öllum kunnur — er léttir sorginni yfirsterkari. Því saga sú af dauðadæmdri þrá og deilum manna um auð og völd, sem á dánarbeði valda endi fá, er ein af þeim sem sögð var hér í kvöld.

Þúsund sinnum góða helgi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)