Er betra að gefa en þiggja?

Margir hafa velt því fyrir sér af hverju fjölmiðlafrumvarpið er fram komið einmitt núna og af hverju Framsóknarflokkurinn, með utanríkisráðherra í fararbroddi, styður það jafn einarðlega og raun ber vitni. Er kannski einföld skýring á þessu?

Það kannast allir við það að vilja endurgjalda greiða og gjafir. Þessi tilhneiging er svo rík í okkur að hún hefur sérstaka skilgreiningu innan sálfræðinnar og kallast gagnkvæmni. Okkur finnst við ekki aðeins skuldbundin að endurgjalda gjafir heldur einnig að þiggja þær. Það fylgir því óþægileg tilfinning að afþakka greiða eða gjöf. Þetta stafar af því að okkur er kennt frá unga aldri að það sé kurteisi að endurgjalda gjafir. Þetta ferli, að gefa og þiggja, er í raun grundvöllur mannlegra samskipta og því mjög rótgróið í okkar samfélagi. Rannsóknir hafa einmitt sýnt að þessi tilhneiging er svo sterk að fólk gefur oft margfalt til baka það sem það hefur fengið að gjöf. Af þessu má sjá að hægt er að nýta sér þetta fyrirbæri á margvíslegan máta.

Gagnkvæmni er oft notuð við sölu á ýmis konar vörum og þjónustu. Kynningar, þar sem fólki gefst kostur á að smakka ýmislegt matarkyns, eru mjög algengar í t.d verslunum. Bóksalar bjóða bók að gjöf ásamt heimsendingu. Hér er ekki um gjafmildi að ræða heldur sölubragð. Neytandanum finnst hann skuldbundinn að endurgjalda gjöfina og kaupa meira. Auðvitað gerist það ekki í öllum tilfellum en þó það oft að það margborgar sig fyrir fyrirtæki að vera með slíkt á boðstólum.

Gagnkvæmnin er einnig notuð á öðrum vettvangi, í stjórnmálum. Lyndon B. Johnson er sá forseti Bandaríkjanna sem hefur náð hvað flestum málum í gegnum þingið. Ástæðan fyrir því er talin sú að á fimmtán ára þingmannsferli sínum var hann mjög duglegur að miðla málum og koma málum áfram fyrir aðra þingmenn. Þar af leiðandi voru fjölmagir þingmenn honum skuldbundnir þegar hann settist í forsetastólinn, sem gerði það að verkum að hann átti auðveldara með að koma sínum málum áfram.

Atburðir liðinna vikna sýna að slíkar málamiðlanir eiga sér stað líka á hinu háa Alþingi okkar Íslendinga. Kristinn Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, greiddi atkvæði með s.k útlendingafrumvarpi þrátt fyrir að hann væri á móti sumum ákvæðum þess. Ástæðuna fyrir þessu sagði hann vera þá að þingmenn yrðu oft að gangast inn á málamiðlanir og greiða atkvæði en þeir fengju þá stuðning á móti í sínum málum.

Margir hafa velt því fyrir sér afhverju fjölmiðlafrumvarpið er fram komið einmitt núna og afhverju Framsóknarflokkurinn, með utanríkisráðherra í fararbroddi, styður það jafn einarðlega og raun ber vitni. Í umræðum um frumvarpið á Alþingi hafa þingmenn Samfylkingarinnar talað fyrir atvinnufrelsi en þingmenn stjórnarflokkanna fyrir nauðsyn þess að setja hömlur á eign markaðsráðandi fyrirtækja í fjölmiðlum. Reyndar hafa sumir gengið svo langt að líkja umræðunni við “skiptidaga” Skjás eins, þar sem þáttastjórnendur skiptu um hlutverk hver við annan, Egill Helga stýrði þá InnlitÚtlit og Vala Matt Silfrinu.

Afhverju leggur forsætisráðaherra frumvarpið fram einmitt núna? Getur það verið að forysta Framsóknarflokksins styðji fjölmiðlafrumvarpið vegna gagnkvæmni við Sjálfstæðisflokkinn? Er forsætisráðherrastóllinn þess virði?

Latest posts by Ingunn Guðbrandsdóttir (see all)