Hver velur hvað ég borða?

Undanfarna daga hefur, í Ástralíu, farið fram ráðstefna um þann heilbrigðisvanda sem steðjar að heiminum vegna offitu. Ráðstefnuna sitja fræðimenn sem hafa þar kynnt rannsóknir sínar ásamt því að ræða mögulegar lausnir á vandanum. Sú lausn sem ratað hefur í fréttir kemur frá Barry Popkin.

Undanfarna daga hefur, í Ástralíu, farið fram ráðstefna um þann heilbrigðisvanda sem steðjar að heiminum vegna offitu. Ráðstefnuna sitja fræðimenn sem hafa þar kynnt rannsóknir sínar ásamt því að ræða mögulegar lausnir á vandanum. Sú lausn sem ratað hefur í fréttir kemur frá Barry Popkin.

Barry Popkin er framkvæmdastjóri offiturannsóknamiðstöðvar við Háskólann í Norður-Karólínu og telur hann að hin mikla offita sem margir Bandaríkjamenn glíma við stafi af of mikilli neyslu á gosdrykkjum. Hann telur að það séu ekki endilega hinir risastóru skammtar af skyndibitafæði, kartöfluflögum eða sælgæti sem séu aðal orsökin heldur sykraðir drykkir. Lausn hans á þessu er sáraeinföld; hækka skatta á gosdrykki og aðra drykki sem innihalda sykur. Eins og svo oft áður rata tillögur um skattahækkanir í fréttir.

Sambærilegar hugmyndir hafa komið upp hér á landi er snúa að því að skattleggja frekar vörur sem teljast óhollar. Þrátt fyrir að þetta gæti fyrir sumum virst góð lausn á miklum vanda er svo ekki. Skatta á ekki að leggja á vörur til að stýra neyslu einstaklinga og eru fyrir því nokkrar ástæður.

Fyrir það fyrsta felur slík neyslustýring í sér mismunum. Einstaklingar eiga að hafa þann rétt að velja hvað þeir borða og drekka. Ef ég vil borða súkkulaði í morgunmat og drekka gos með á ég rétt á því vali. Það er ósanngjarnt að ég þurfi að greiða hærri skatta af þeim vörum heldur en þeir sem kjósa að borða eitthvað annað, eitthvað sem einhverjir aðrir, t.d stjórnvöld, ákveða að sé hollt. Dæmin sýna að opinberar stofnanir geta haft rangt fyrir sér þegar kemur að því að ákveða eitthvað fyrir aðra.

Í öðru lagi er mjög líklegt að þau rök sem liggja að baki neyslustýringu séu röng. Ekki hefur verið full sannað hvað það er sem orsakar offitu. Er það aukið hreyfingarleysi? Eru það stærri skammtastærðir? Er það aukin neysla á fitu og sykri? Eða er það einfaldlega almennt aukin neysla á mat og drykk, og þar með hitaeiningum?

Í þriðja lagi getur slík skattlagning haft óeðlileg áhrif á samkeppni framleiðenda á matvælamarkaði og eru stjórnvöld þannig að stýra framleiðslu. Ef einhver vara, t.d sælgæti, er talin óholl en önnur ekki, t.d kex, stendur framleiðsla á kexi aftar í samkeppninni. Slíkt hamlar samkeppni og kemur í veg fyrir nýjungar sem hefðu getað leitt af sér meiri hagvöxt og aukna velferð almennings.

Einstaklingar verða að taka ábyrgð á sínu lífi, líkama og heilsu. Það er þeirra að velja hvaða leiðir þeir fara til að lifa heilbrigðu lífi.

Latest posts by Ingunn Guðbrandsdóttir (see all)