Stílbrot og afturför

Yfirvofandi lagasetning um eignarhald á fjölmiðlum er í hróplegu ósamræmi við þá þróun í átt til aukins frjálsræðis sem einkennt hefur íslenskt samfélag síðasta áratug og í raun afturhvarf til þess tíma er stjórnmálamenn höfðu bein afskipti af atvinnulífinu.

Fátt virðist nú geta komið í veg fyrir að lög sem takmarka mjög eignarhald á fjölmiðlum verði samþykkt á Alþingi fyrir þinglok. Ríkisstjórnin samþykkti frumvarpið á fundi sínum í gær og ef marka má orð forystumanna stjórnarflokkanna ríkir einhugur um málið í stjórnarliðinu.

Eins og fram hefur komið í fréttum kveður frumvarpið á um að ljósvakamiðlar og fjölmiðlardagblöð* geti ekki verið á sömu hendi, auk þess sem menn í markaðsráðandi stöðu í óskyldum rekstri mega ekki koma að rekstri fjölmiðlaljósvakafjölmiðla*. Fram kom í máli forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í gær að það væri nánast skylda ríkisstjórnarinnar og Alþingis að bregðast við þeirri samþjöppun sem orðið hefði á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Frumvarpið hefur enn ekki verið lagt fram og því ríkir óvissa um nákvæmt innihald þess. En að teknu tilliti til ofangreindra orða forsætisráðherra og þess sem fram hefur komið um innihald frumvarpsins, er engum blöðum um það að fletta, að lagasetningunni er beint gegn ákveðnu fyrirtæki á íslenskum fjölmiðlamarkaði, Norðurljósum.

Sú svipmynd sem nú blasir við á íslenskum fjölmiðlamarkaði kann vissulega að gefa tilefni til að setja skýrar reglur um upplýst eignarhald og sjálfstæði fréttastofa. Það er hins vegar ekki í neinu samræmi við það meðalhóf sem stjórnvöldum ber að gæta, að skerða stjórnarskrárbundin réttindi manna til að tryggja óvilhalla fjölmiðla. Ef markmiðið er fjölbreytni í fjölmiðlarekstri, þá er vandséð að fjölbreytnin væri mikil ef rekstri Fréttablaðsins, DV, Stöðvar 2, Sýnar og Bylgjunnar hefði ekki verið bjargað á síðustu mánuðum.

Yfirvofandi lagasetning er mikið stílbrot á þeirri stefnu sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa markað frá árinu 1991. Hún lýsir ekki mikilli trú ráðamanna á hinn frjálsa markað. Hún er ekki til marks um að landsstjórnin sé í höndum manna sem hafa að leiðarljósi frelsi einstaklingsins til orðs og æðis. Það er dapurlegt að stjórnmálaflokkur, sem á síðustu árum hefur leyst íslenskt þjóðfélag úr viðjum hafta og ríkisafskipta, skuli standa á bak við slíka lagasetningu.

Þar fyrir utan verður það að teljast afar óheppilegt að lögunum sé einkum beint gegn ákveðnu fyrirtæki sem forsætisráðherra hefur ítrekað lýst sem andsnúnu sér.

Virtir lögspekingar á borð við Sigurð Líndal, heiðursprófessor í lögum, hafa látið í ljós miklar efasemdir um að fyrirhuguð lagasetning standist ákvæði stjórnarskrár sem vernda eignarétt og atvinnufrelsi manna. Þá er ástæða til að taka undir orð Haralds Sveinssonar, stjórnarformanns Árvakurs, sem óttaðist að slík lagasetning myndi grafa undan íslenskum fjölmiðlarekstri til frambúðar.

Að mati Deiglunnar er hér stigið óheillavænlegt skref. Yfirvofandi lagasetning er í hróplegu ósamræmi við þá frelsisþróun sem einkennt hefur íslenskt samfélag á síðustu árum og afturför til þess tíma þegar stjórnmálamenn höfðu bein afskipti af íslensku atvinnulífi.

Deiglan hefur oftsinnis lýst yfir stuðningi við stefnu og hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins um frelsi einstaklingsins og lágmarksafskipti ríkisins. Leyfir Deiglan sér að draga í efa að þetta frumvarp hefði notið mikils stuðnings innan Sjálfstæðisflokksins, ef það hefði verið lagt fram af ríkisstjórn án aðildar hans. Líklega hefði Sjálfstæðisflokkurinn þá staðið sameinaður í harðri andstöðu gegn því.

*[Leiðrétt]

Athugasemd ritstj. Þessar missagnir breyta engu um afstöðu ritstjórnar til frumvarpsins.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)