Heilagar kýr

Samkvæmt yfirlýsingum landbúnaðarráðuneytisins stefnir í að verðlagnin á heildsölu mjólkurafurða verði áfram í höndum opinberrar verðlagsnefndar þrátt fyrir tilmæli samkeppnisstofnunar um að gefa verð frjálst eins fljótt og auðið er.

Ekki alls fyrir löngu kom Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, fram í Kastljósinu til að verja þá ákvörðun að enn á ný yrði frestað að afnema opinbera verðlagningu á mjólk.

Notaði hann ýmis rök til að styðja málið. Athyglisverðust var þó þau sú röksemdarfærsla að þar sem stórkostlegur aðstöðumunur væri á milli lítilla kaupmanna og stórverslana væri þetta fyrirkomulag síðasta haldreipið, bláþráðurinn, sem kæmi í veg fyrir endalok kaupmannsins á horninu. Stóru verslanirnar gætu kúgað birgja í verðlagningu á almennri matvöru, þvingað þá til að lækka verð í heildsölu og þannig fengið lægra verð en almennum kaupmönnum býðst.

Opinber verðlagning á mjólk tryggði hins vegar jafna aðstöðu stórra og smárra kaupmanna og héldi þannig lífi í kaupmanninum á horninu. Með því væri tryggt að fjölbreytni ríkti á matvörumarkaði og lágt vöruverð neytendum til hagsbóta.

Nokkuð sérstakt hlýtur að teljast að ráðherra tali með þessum hætti. Ekki síst í ljósi þess að samkeppnisráð hefur tvisvar beint þeim tilmælum til landbúnaðarráðuneytisins að gera heildsöluálagningu á mjólkurvörum frjálsa. Einnig má velta fyrir sér hvort Guðni trúi því í raun og veru að opinber verðlagning tryggi fjölbreytni almennt eða bara á mjólk – að sumar kýr séu heilagari en aðrar.

Vonandi gera þó flestir sér grein fyrir því að neytendur greiða ómeðvitað fyrir þennan „fjölbreytileika“ og mjólkurframleiðsla hrærist í þeim vanda að starfa ekki eðlilegu samkeppnisumhverfi með tilheyrandi aðhaldi og metnaði. Eins ber það vott um foræðishyggju á háu stigi þegar stjórnmálamenn vilja vinna að því að halda lífinu í kaupmanninum á horninu og tryggja þannig aukið val neytenda. Af hverju ekki að leyfa fólki að taka þessa ákvörðun sjálft. Bónus eða kaupmaðurinn á horninu hlýtur að vera ákvörðun sem okkur er treystandi fyrir.

Sú stærðarhagkvæmni sem hlýst af því að reka stórar verslanir á að sjálfsögðu að koma neytendum til góða. Ef einstakir kaupmenn geta þvingað verð niður í heildsölu er ástæðan væntanlega sú að þeim býðst svipuð vara annarsstaðar á samkeppnishæfu verði. Svo lengi sem allir hafa jafnan aðgang að markaði er eðlilegt að menn keppist við að fá sem mest gæði fyrir minnst verð.

Mjólkurframleiðsla á Íslandi býr nú þegar við ágætis samkeppnisforskot því að litlar líkur eru á því að erlendir aðilar flytji nýmjólk til landsins. Hins vegar myndu minni höft á innflutningi á annarskonar

mjólkurvöru hafa það í för með sér að verð lækkaði og úrval ykist.

Framleiðendur þyrftu í kjölfarið að keppa á alþjóðlegum markaði og neytendur sjálfir tækju ákvörðun um hvort þeir tækju íslenskar vörur fram yfir erlendar. Nokkuð víst er að þegar allt er tekið til greina væru neytendur betur settir eftir slíkar breytingar.

Löngu er orðið tímabært að stjórnvöld taki markviss skref í þá átt að svipta íslenskan landbúnað þeim höftum sem hafa sligað hann undanfarin ár. Opinber verðlagning er dæmi um forneskjulegan hugsunarhátt sem hefði átt að útrýma fyrir löngu.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.