Annars flokks Íslendingar

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga nr. 96/2002. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að aðrar og strangari reglur gildi um útlendinga á ýmsum sviðum en Íslendinga.

Stöndum vörð um mannréttindi og virðingu fyrir réttindum einstaklinga óháð þjóðerni.

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga nr. 96/2002. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að aðrar og strangari reglur gildi um útlendinga á ýmsum sviðum en Íslendinga. Er þetta aðallega á þeim sviðum þar sem ranghugmyndir um útlendinga hafa verið einna ríkastar til dæmis varðandi meint málamyndahjónabönd innflytjenda og meintan atvinnuþjófnað þeirra. Margoft hefur verið sýnt fram á að þessar hugmyndir eru byggðar á fordómum og fáfræði sem sýnir best hversu vanhugsað núverandi frumvarp dómsmálaráðherra er í raun og veru.

Frumvarpinu er meðal annars ætlað að hindra meint málamyndahjónabönd innflytjenda. Rétt er að geta þess að ekkert liggur fyrir sem bendir til þess að þetta sé vandamál og raunar má benda á að Íslendingar hafa lengi stundað það að stofna til hjúskapar áður en haldið er til náms eða vinnu erlendis til að einfalda búsetu beggja aðila. Ekki hefur mönnum þótt neitt sérstaklega athugavert við það! Frumvarpið kveður hins vegar á um að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli sambúðar, hjónabands eða samvistar sé að makinn hafi náð 24 ára aldri. Þetta er lagt til á meðan íslensk lög kveða á um að hver sem hafi náð 18 ára aldri geti gengið í hjúskap. Þessi mismunun brýtur klárlega gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Þrátt fyrir að ofangreindar tillögur séu alvarlegar þá er það ekki nálægt því að vera alvarlegasta breytingin sem gerð er tillaga um. Steininn tekur nefnilega algjörlega úr þegar kemur að hugmyndum um eftirlit með hjónaböndum og samböndum útlendinga. Frumvarpið gerir nefnilega ráð fyrir að ef grunsemd er um að útlendingur sé í málamyndahjónabandi þá hafi lögreglan heimild til að leita á útlendingnum, á heimili hans, herbergi eða í hirslum. Í athugasemdunum kemur jafnframt fram að þegar yfirvöld meta hvort grunur sé á málamyndahjónabandi sé meðal annars litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars.

Mann setur hljóðan við að lesa þessa tillögu og efast um að höfundar hennar upplifi íslenskan veruleika með sama hætti og við hin. Ætlum við virkilega að fara að setja fáránlega íþyngjandi valdheimildir til höfuðs útlendingum einungis til þess að lögreglan geti rannsakað tilurð hjúskapar þeirra og huglæga afstöðu þeirra til hjónabandsins? Hvort fólk sé í alvörunni ástfangið eða bara að plata? Og að hverju ætlar lögreglan svo sem að komast um hjónabandið með því að framkvæma leit á persónu og heimili manna sem ekki nokkur ástæða er til að ætla að hafa framið nokkuð það brot sem réttlætir slíkt. Hefur hún virkilega ekki eitthvað annað betra að gera?

Hægt er að gagnrýna fjölmörg önnur atriði í frumvarpinu, t.d. er Útlendingastofnun veitt heimild til að krefjast lífsýnis af öllum sem sækja um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Jafnframt er gert ráð fyrir að einungis sé hægt að sækja um dvalarleyfi fyrir aðstandanda fyrir ættingja eldri en 67 ára gamla til að mynda ekki hjáleið inn á íslenskan vinnumarkað. Þessi atriði eru eins og margt annað byggð á fáfræði og fordómum en ekki er rökstutt á nokkurn hátt af hverju þörf er á slíkum ákvæðum.

Þetta frumvarp er því miður einfaldlega sama marki brennt og margt annað sem hefur komið frá dómsmálaráðuneytinu um málefni útlendinga. Það byggist á því hugarfari að útlendingar séu annars flokks eintaklingar og eigi ekki rétt á sömu meðferð og réttindum og aðrir hér á landi. Að sama skapi er lítið sem styður setningu laganna frekar en vanalega. Engar úttektir, skýrslur eða rannsóknir liggja fyrir, heldur er vísað í einhverjar furðulegar ábendingar án þess að það sé rökstutt nánar. Það er því ekki sýnt fram á að nokkurt vandamál sé yfir höfuð til staðar. Í dómsmálaráðuneytinu verða þessar ábendingar engu að síður nægileg ástæða til að setja íþyngjandi löggjöf fyrir alla útlendinga hér á landi!

Nú stendur yfir undirskriftasöfnun gegn frumvarpi dómsmálaráðherra. Þar er frumvarpinu mótmælt og Alþingi hvatt til að hafna því. Það skiptir máli að við sýnum samstöðu með þeim sem eru skotspónar þessa frumvarps og eru allir hvattir til að taka þátt í undirskriftasöfnuninni. Látum ekki þá sem verða fyrir barðinu á þessari mismunun og óréttlæti standa eina í baráttunni fyrir almennum mannréttindum heldur stöndum fast við hliðina á þeim.

Hafðu í huga að þú veist aldrei hvar óréttlætið ber næst niður!

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.