Anselm af Kantaraborg

Því verður varla haldið fram, að hann sé í hópi þekktustu heimspekinga sögunnar. En þrátt fyrir það, þá var Anselm af Kantaraborg einn merkasti heimspekingur miðaldar, og sönnun hans fyrir tilvist Guðs er án efa ein sú hugvitssamlegasta sem sett hefur verið fram.

Er hægt að sanna tilvist Guðs? Í gegnum nánast alla sögu heimspekinnar – og þá sérstaklega á miðöldum og í byrjun nýaldar – hefur þetta verið sígilt viðfangsefni – hugmyndin um hina æðstu og fullkomnustu veru. Af öllum þeim aragrúa af mismunandi röksemdum sem settar hafa verið fram fyrir tilvist Guðs, eru þrjár mikilvægastar. Og yfirleitt er hægt að fella allar útgáfur af guðssönnunum undir einhverja af þessum þremur.

Skipulagsrökin eru ein þeirra. Heimurinn virðist vera eitt stórt skipulag, þar sem allt hreyfist í samræmi við einhvern tilgang. Skipulagsrökin miðast því við að skýra það, hver hafi komið þessu skipulagi á. Þessi rök urðu sérstakt viðfangsefni Davids Hume í Samræðunum um trúarbrögð. Eftir það rit, var almennt talið að Hume hafi gagnrýnt rökin það ítarlega, að þau hafi ekki átt sér viðreisnar von. Seinna meir biðu þessi rök svo enn meiri hnekki, með tilkomu nútímavísindagreina. Önnur rökin eru svokölluð heimsfræðileg rök. Í stuttu máli eru þau á þá leið, að úr því að heimurinn sé yfirhöfuð til, þá hljóti það að þýða að Guð sé til – annars væri enginn heimur til. Tilvera Guðs er því gefin. En þriðju rökin – og jafnframt þau frægustu – eru verufræðilegu rökin. Upphafsmaður þessara raka er talin hafa verið heilagur Anselm(1033-1109), erkibiskup af Kantaraborg. Skoðum þau nánar.

Anselm þessi fæddist á Ítalíu árið 1033. Sextíu árum seinna, árið 1093, varð hann erkibiskup í Kantaraborg á Englandi. Upphaf þeirrar heimspeki sem blómstraði á miðöldum og var kölluð skólaspeki, má rekja alla leið aftur til heilags Anselms. Heimsmynd skólaspekinnar er fléttuð saman úr kenningum Aristótelesar og kristinni trú. Sá sem átti mestan heiðurinn af því að blanda þessu tvennu saman í eina heildsteypta heimsmynd var svo Tómas af Akvínó. Enda hefur hann nú á síðari tímum oft verið nefndur hinn opinberi heimspekingur Rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Þessi heimsmynd kirkjunnar átti eftir að verða mjög lífseig og harðsnúinn eins og Galíleó og fleiri vísindamenn á 17. öld áttu eftir að kynnast.

En aftur að heilögum Anselm. Verufræðilega sönnunin á tilveru Guðs, eins og rökin eru iðulega nefnd, setti Anselm fram í riti sínu Proslogion, sem talið er hafa komið út um 1100. Og er framsetning þeirrar rökfærslu sem hann kemur með, svo sannarlega hugvitssamleg. Svo glæsileg þótti hún, að í kjölfarið áttu eftir að fylgja fjölmargir þekktir heimspekingar sem töldu rök hans sanna að Guð sé til. Þekktastir þeirra eru eflaust Descartes og Leibniz, sem sjálfir komu með verufræðileg rök í ætt við þau sem Anselm setti fram. Reynum að endursegja þessa stuttu og klassísku röksemdarfærslu Anselms.

Til að byrja með þá er nauðsynlegt að skilja grundvöllinn að hugmyndinni um Guð – æðsta og fullkomnasta vera sem við getum hugsað okkur. Ekkert gæti hugsanlega verið meira. Það má bera þetta saman við hugmyndina um þríhyrning. Þríhyrningur er þess eðlis, að ég get ekki nokkurn vegin hugsað mér hann öðruvísi, en sem slíkan. Þríhyrningur er aðeins þríhyrningur, ef hann hefur þrjú horn. Það er sjálft inntak hugmyndarinnar sem felur þessi óhjákvæmilegu sannindi í sér. Og það er eins farið með hugmyndina um Guð. Sá sem veltir því fyrir sér hvort hann geti nú ekki hugsað sér einhverja veru sem er örlítið fullkomnari en Guð, veit einfaldlega ekki hvað hugmyndin um Guð táknar.

Næst skulum við gera ráð fyrir að Guð sé aðeins til í hugarburði okkar – ekki í raunveruleikanum. Og við getum ekki annað en fallist á það, af því að við erum einmitt á þessari stundu að hugsa um Guð. En ef við hugsum okkur veru sem hefur alla þá eftirsóknarverðu eiginleika til að bera, nema það eitt, að vera til, þá er hún augljóslega ekki hin æðsta og fullkomnasta vera sem til er. Því vera sem er til í raunveruleikanum, hlýtur að vera fullkomnari heldur en vera sem er aðeins til sem hugmynd í huga okkar. Af því leiðir, að það er hrein fjarstæða að gefa okkur það, að Guð sé einungis til í huga okkur. Það sem er óraunverulegt getur aldrei verið fullkomnara en það sem er raunverulegt – Guð hlýtur því að vera til.

Sannfærandi? – Í huga Anselms var þetta að minnsta kosti óyggjandi sönnun. Markmið hans var þó ekkert endilega að sannfæra efahyggjumenn eða einhverja aðra ef því var að skipta. Nei, hann vildi aðeins halda því fram, sem hann áleit einfaldlega vera staðreynd. Við þá sem efuðust gaf hann ekki mikið fyrir. Eða eins og hann orðar það í Proslogion:*

„Hví segir heimskinginn í hjarta sínu: Enginn Guð, þegar svo augljóst er skynsamlegri hugsun að þú sért mestur alls? Hvers vegna nema fyrir þá sök að hann er bæði heimskur og vitlaus?“

En þrátt fyrir góð tilþrif Anselms í rökfærslu sinni, þykir flestum eitthvað bogið við hana. Fæstir hafa þó getað komið sér saman um, hvað nákvæmlega það sé. Og það gerir sönnunina líka svona einstæða. Margar mismunandi athugasemdir hafa verið nefndar í því sambandi. Ef litið er til raunhyggjumanna, þá hafna þeir þess háttar sönnunum, sökum vantrúar á því að hægt sé að nota hyggjuvitið eitt saman, til að sanna hvað sé til í þessum heimi og hvað ekki. Öfugt við rökhyggjumenn.

Það var síðan seint á 18. öld með merkilegri röksemdarfærslu Immanuel Kants, sem verufræðilega sönnunin fékk sinn mesta skell. Án þess að fara eitthvað nánar út í það hér, þá byggðist rökfærslan á því, að sýna fram á að tilvist Guðs sé ekki eiginleiki hans, líkt og Anselm hafði gefið sér.

Hvort það merki að Kant hafi verið „bæði heimskur og vitlaus,“ skal hins vegar ósagt látið.

* Úr Proslogion (um 1100), kafli 3. Íslensk þýðing er eftir Gunnar Harðarson, heimspeking.