Endalaust af olíu

Með reglulegu millbili birtast greinar þar sem því er spáð að olíubirgðir heimsins muni klárast innan nokkurra áratuga. En einhvern veginn fær maður aldrei á tilfininguna að þessar spár séu að rætast. Eldsneytisverð á Íslandi er ekki hátt vegna þess að olían sé fágæt munaðarvara heldur vegna þess hversu ofboðslega eldsneyti er skattlagt.

Með reglulegu millbili birtast greinar þar sem því er spáð að olíubirgðir heimsins muni klárast innan nokkurra áratuga. En einhvern veginn fær maður aldrei á tilfininguna að þessar spár séu að rætast. Eldsneytisverð á Íslandi er ekki hátt vegna þess að olían sé fágæt munaðarvara heldur vegna þess hversu ofboðslega eldsneyti er skattlagt. Í löndum þar sem það er ekki skattlagt umfram aðrar vörur þá kostar lítrinn svipað og líter af vatni. Þetta sýnir hversu hagkvæmt og afkastamikið dreifikerfi eldsneytis er um allan heim. Hefur þú t.d. lent í því að koma á bensínstöð sem er lokuð vegna vöruskorts?

Stundum heyrist því fleygt að endurnýjun bílaflotans sé jákvæð vegna þess að nýir bílar mengi minna heldur en gamlir. Þetta er aðeins að hluta til satt. Vissulega hefur mönnum tekist að þróa bílvélar þannig að útblásturinn er orðinn hreinni. En þegar kemur að útblæstri koldíoxíðs, sem margir telja vera stærsta umhverfisvandamál samtímans, þá er annað uppí teningunum því koldíoxíðmagn í útblæstri nánast algjörlega háð eyðslu bílsins. Samkvæmt nýlegri grein í vefútgáfu New York Times þá hefur meðaleyðsla nýrra bíla í Bandaríkjunum aldrei verið hærri en nú! Umhverfisverndarsinnar sem margir hafa valið Hummer jeppann sem skotmark benda til dæmis á að hann eyðir meira eldsneyti heldur en Ford T módel, árgerð 1908.

Ástæðurnar fyrir því að nýir bílar í Bandaríkjunum eyða meira að meðaltali en áður eru að sjálfsögðu margar. T.d. má nefna að díselbílar hafa hverfandi markaðshlutdeild og það er í þróun dísilhreyfilsins sem mestu framfarirnar hafa orðið á undanförnum áratug. Til samanburðar má nefna að markaðshlutdeild dísilbíla í Þýskalandi er orðin rúmlega 42%. En hver er þá ástæðan fyrir því að dísilbílar eru svona óvinsælir í Bandaríkjunum? Margir myndu svara því til að ástæðan liggi í lágu eldsneytisverði. Það sé hreinlega enginn efnahagslegur þrýstingur á fólk að kaupa bíla sem eyða minna vegna þess að eldsneytið sé hreinlega “of” ódýrt. En það er fleira sem kemur til. Mengunarvarnarlöggjöf fyrir nýja bíla í Bandaríkjunum leggur ofuráherslu á þætti eins og agnir í útblæstri en nánast enga á magn koldíoxíðs. Þá virðist dísilbíllin eiga við ímyndarvanda að stríða. Fólk sé þá ekki fyrir sér sem umhverfisvæn farartæki. Íslendingar eiga líka erfitt með að nýta sér hraða framþróun dísilhreyfilsins en það er heimatilbúinn vandi vegna úreltrar löggjafar um þungaskatt. Það er hins vegar efni í annan pistil.

Að undanförnu virðist hins vegar vera að birta til með tilkomu svokallaðra tvinnbíla. Nafnið tvinnbíll, á ensku hybrid vehicle, kemur til af því að þeir hafa tvo aflgjafa. Annars vegar hefðbundinn bensín- eða dísilhreyfil og hins vegar rafmagnsmótor. Í hvert sinn sem hemlað er þá er hreyfiorkan nýtt í að hlaða rafgeyma og getur þetta orðið til þess að minnka eyðslu verulega. Þessi tækni hefur marga kosti. Einn sá mikilvægasti er sá að hún krefst þess ekki að nýju dreifikerfi fyrir eldsneyti verði komið á. Fjöldi nýrra ökutækja sem nýta þessa tækni eru á leiðinni eða þegar komnar á markað. Toyota Prius er sennilega þeirra þekktast. Ekki sakaði fyrir japanska framleiðandann að hópur af Hollywood stjörnum mætti á þessum látlausa litla bíl á Óskarsverðlaunaafhendinguna í staðinn fyrir að mæta á stórri limósínu eins og vaninn er. Sem betur fer er þessi tækni ekki einskorðuð við litla bíla sem aðeins eru ætlaðir fyrir hörðustu umhverfisverndarsinna. Nýi Lexus jeppinn er til dæmis boðinn sem tvinnbíll á einhverjum maraðssvæðum og nokkrir framleiðendur hafa tilkynnt að þessi tækni eigi að verða aukabúnaður í öllum gerðum í framtíðinni.

Latest posts by Óskar Hafnfjörð Auðunsson (see all)