Árangur opinberra stofnana

Á undanförnum árum hefur stefna ríkisins varðandi stjórnun opinberra stofnana verið sú að taka upp stjórnunaraðferðir einkageirans og innleiða árangursstjórnun. Mikilvægt er við þessar breytingar að hafa í huga þann eðlismun sem er á stjórnun og rekstri opinberra stofnana og einkafyrirtækja. Í pistli þessum er skoðað í hverju þessi eðlismunur felst.

Ríkið hefur það hlutverk eins og kunnugt er að sinna þeim nauðsynlegu verkefnum sem ekki eru talin henta einkarekstri. Hvaða verkefni það eru sem svo er ástatt um hafa menn hins vegar deilt og miklar breytingar hafa verið á viðhorfum til þessa málefnis undnanfarin ár eins og sjá má af þeirri einkavæðingarstefnu sem framfylgt hefur verið í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar. Til eru aðilar sem vilja ganga mun lengra í einkavæðingu en gert hefur verið og svo eru aðrir sem telja allt of langt gengið.

Ljóst er, sama hveru langt verður gengið í einkavæðingu, að ríkið mun ávallt hafa með höndum þó nokkurn fjölda verkefna sem stofnunum ríkisins verður falið að sinna. Mikilvægt er að vel sé haldið utan um rekstur opinberra stofnana og að stjórnun þeirra sé árangursrík.

Á undanförnum árum hefur stefna ríkisins verið sú að taka upp stjórnunaraðferðir einkageirans og innleiða árangursstjórnun. Mikilvægt er við þessar breytingar að hafa í huga þann eðlismun sem er á stjórnun og rekstri opinberra stofnanna og einkafyrirtækja. Munurinn fellst aðallega í því að ekki er til endanlegur mælikvarði á árangur opinberra stofnanna líkt og hagnaður eða tap er endanlegur mælikvarði á árangur einkafyrirtækja.

Ástæður þessa eðlismunar eru einkum eftirfarandi:

Markmið opinberra stofnanna eru lítt skilgreind í lögum og í sumum tilfellum á það sama við um verkefni stofnana. Óljós markmið gera það að verkum að ekki er hægt að meta endanlegan árangur opinberrar stofnunnar og því erfitt að dæma frammistöðu stjórnenda og starfmanna stofnunarinnar.

Laga- og regluumhverfi opinberra stofnanna er oft margþætt og flókið en opinber rekstur fylgir fyrirmælum laga meðan einkafyrirtæki hafa frelsi til athafna innan þess ramma sem þeim eru sett með lögum. Því er sveigjanleiki einkafyrirtækja mun meiri en opinberra stofnana.

Með setningu upplýsingalaga var gagnsæi stjórnsýslunnar tryggt þannig að almenningur, fjölmiðlar og aðrir eiga rétt á aðgangi að gögnum varðandi ákvarðanir opinberra stofnanna og starfsemina almennt. Ákvarðanir opinberra stofnanna eru því iðulega til umfjöllunar í fjölmiðlum meðan ákvarðanir einkafyrirtækja eru ekki opnar almenningi og birtast ekki í fjölmiðlum nema fyrirtækið komi þeim á framfæri.

Opinberar stofnanir leggja áherslu á jafnræði borgaranna meðan einkafyrirtæki einbeita sér að skilvirkni og samkeppnisrekstri. Stjórnendur opinberra stofnana verða fyrir þrýstingi úr öllum áttum og líta oft á tíðum þannig á að þeir hafi marga yfirmenn. Hagsmunaaðilar, þingmenn, almenningur og fjölmiðar reyna iðulega að hafa áhrif á ákvarðanatöku stjórnenda hins opinbera.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru til að útskýra þann eðlismun sem er á milli stjórnunar og reksturs opinberra stofnanna og einkafyrirtækja. Ljóst er að löggjafinn getur bætt möguleika stofnana á því að mæla árangur sinn með því að skýra markmið einstakra stofnana í lögum og gera með því árangursmælingar hjá hinu opinbera markvissari. Með því verður innleiðing árangursmælinga einfaldari og því fýsilegri í augum stjórnenda og líklegra að þeim aðferðum verði fylgt í stjórnun og rekstri opinberra stofnanna. Það liggur í hlutarins eðli að rekstrarumhverfi einkafyrirtækja og opinberra stofnana verður aldrei fyllilega sambærilegt. Ríkið á hins vegar að gera allt hvað það getur til að gera opinberum stofnunum kleift að starfa markvisst og á árangursríkan hátt.

Heimildir:

Fjármálaráðuneytið, Starfsumhverfi ríkisstarfsmanna við aldahvörf

Rainey, Hal G. Understanding and Managing Public Organizations. San Francisco: Jossey-Bass Publishers, 1991.

Allison, Graham T. Public and Private Management: Are They Fundamentally Alike in All Unimportant Respects? Kafli í Shafrix, Jay M., Hyde Albert C Classics of Public Administration (Eds.). Fort Worth: Philadelphia, 1997.

Latest posts by Unnur Brá Konráðsdóttir (see all)

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Unnur Brá hóf að skrifa á Deigluna í október 2004.