Sameining hverra?

Mikil umræða hefur verið um hlutverk forseta Íslands síðustu vikur. Flestir virðast hallast á þá skoðun að hans helsta hlutverk sé að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Pistlahöfundur fjallar um skoðanir sínar á því þegar örfáir kjósendur geta sameinast um að velja sameiningartákn þjóðarinnar.

Svo virðist sem forsetakosningar séu mér einkar hugleikið efni þessa dagana og í ljósi þeirrar miklu umfjöllunar sem forsetakosningar hafa fengið síðustu daga og vikur ætti það ekki að koma neinum á óvart. Í síðasta pistli mínum fjallaði ég um það hversu mikilvægt það er í lýðræðisríki að þeir sem uppfylli kjörgengisskilyrði fái að bjóða sig óátalið fram til embættis sem á annað borð skal kjósa í. Var sá pistill skrifaður í ljósi þeirra neikvæðu viðbragða sem Ástþór Magnússon fékk við sinni framboðsyfirlýsingu.

Nú er hins vegar ætlunin að fjalla um annan þátt í forsetakosningum. Núna nýlega ríkti mikil spenna meðal stjórnmálamanna í Þýskalandi þegar stjórnmálaflokkarnir voru að gera upp hug sinn um hverjir ættu að „slá saman í forsetaframbjóðanda.“ Fulltrúar stjórnmálaflokkanna sem mynda þýska þingið sátu tímunum saman á mislokuðum fundum og keyptu og seldu hugmyndir að forsetaframbjóðanda til að styðja.

Hér á landi hefur mikið verið rætt um það í tengslum við komandi forsetakosningar að eitt helsta hlutverk forseta Íslands sé að vera sameiningartákn þjóðarinnar – svona við hlið þjóðfánans og þjóðsöngsins. Einhvern veginn virðast margir, ef ekki flestir, vilja að litið sé á forsetaembættið sem eins konar þverpólitískt embætti. Einhvern sem allir geta fylkst um að muni ekki hella niður í opinberum heimsóknum eða blóta í áramótaávarpinu en hefur lítinn annan tilgang en það.

Ég ætla ekki að dæma um það hér og nú hvort Ólafur Ragnar sé sameiningartákn þjóðarinnar enda er mikið vatn runnið til sjávar síðan hann tók við embætti og ómögulegt að vita hversu stór hluti þjóðarinnar stendur á bak við hann í dag. Hins vegar finnst mér stórmerkilegt að hægt sé að kalla sig sameiningartákn þjóðarinnar með aðeins brot af atkvæðum þjóðarinnar á bak við sig, bara svo lengi sem maður er með meira en hinir. Sameiningartákn hlýtur að vera eitthvað sem þjóðin sameinast um. Alla vega meiri hluti þjóðarinnar.

Þá er ég þó ekki að reyna að styrkja stoðum undir ágæti kerfis eins og þess sem ég var að lýsa hér áðan, þar sem pólitískt kjörnir stjórnmálamenn plotta í hornum um það hver fær að vera sameiningartákn. Mín skoðun er sú að þá sé alveg eins hægt að plotta bara um þetta um leið og maður setur saman ríkisstjórn og þá… þá er ekki lengur um að ræða sameiningartákn heldur pólitískt tákn og þá getum við alveg eins sleppt honum. Eða hvað?

Rætt hefur verið um nauðsynlegar breytingar á lagareglum um embætti forseta Íslands, hlutverk hans, kosningar til embættisins og kjörgengi. Ef ætlun stjórnmálamanna er að halda í embætti forseta Íslands sem hið mikla þverpólitíska sameiningartákn sem þeir halda fram að það sé þá ættu þeir a.m.k. að koma í veg fyrir að um geti verið að ræða sameiningu einungis brots þjóðarinnar þegar kemur að því að velja þetta tákn.

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)