Che-bolurinn, ómálefnaleg örsaga

Það er brilljant hvernig kapítalisminn bregst við andófi gegn sjálfum sér, enginn sendur til Síberíu eða Mansjúríu, engir böðlar, engir hlekkir, engir geðvondir fangaverðir, en andstaðan einfaldlega gerð að markaðsvöru og þeir sem eru á móti frjálsum viðskiptum eru fullkomlega frjálsir að því að borga fyrir Che-boli, og vafðar buxur eða diska með Rage against the machine.

Che-bolurinn (made in China) vaknar um 9 leytið í vesturbænum (West-side!). Hann vinnur hvergi – hann er „stickin’ it to the man!“, að eigin áliti. Félagi okkar lemur í casio-klukkuna (Japan) og rífur sig á fætur. Hann burstar stellið með rafmagnstannburstanum sínum (Danmörk) og klæðir sig í handvöfðu buxurnar sínar. Ekkert barnaþrælkunar Nike-drasl (B.N.A.) sem framleitt er í þriðja heiminum (Indónesía), hugsar hann. Che-bolurinn vill ekkert sjá nema styrki til þriðja heimsins. Hann gengur fram í eldhús, opnar ískápinn (Bretland) og fær sér nýkreistann appelsínusafa (B.N.A.). Ekkert Coca-Cola-sull (B.N.A.) fyrir alvöru anarkista hugsar hann. „Niður með heimsveldið!“ – gargar Che litli. Bolurinn fær sér magnaðan 1944 örbylgjurétt, á honum stendur frá Indlandi, það heillar Bolinn – vera svolítið spes. Hann skellir í nýju JBL græjurnar (Danmörk) andansupplífgandi munkamúsík frá Tíbet (Sviss). „Frí Típet!“ heyra nágrannar Bolsins hann öskra.

Eftir heilar 8 mínútur af „úmm“ og „omm“ hljóðum munkanna er komið að lestri dagsins. Che-bolir lesa ekki dagblöðin, þau eru kúgunartæki kapítalistanna. Svo segir gáfumannafélagið sem hann stundar fundi hjá. (Félagsmenn hafa óvænt lent á síðum Séð og Heyrt – en það hefur víst verið misskilningur.) Ó nei! Það er meistari Moore sem lesinn skal, Micheal Moore. Hann hefur verið að lesa bók hans (B.N.A.) frá því í haust og er nú hálfnaður með hana. Með sannleikann að vopni heldur hann á fund vinar síns, Rastafarí-hársins, þeir hafa ákveðið að hittast og ræða heimsmálinn á heimili Hársins í Garðabæ eða Gardens-Town eins og Rastafarí-hárið kallar heimabæinn með tilgerðarlegum hreim. Eftir þriggja klukkustunda spjall ákveða þeir að fyrir sanna friðelskandi mannvini eins og þá þýðir ekkert minna en að mótmæla alþjóðavæðingunni og frjálsum viðskiptum með tilheyrandi rúðubrotum og táragasi. Sem vinstrimenn eiga þeir einkarétt á réttlætinu og sannleikanum og verða þess vegna að láta til sín taka. „Til Útlands!“ gargar Bolurinn.

Það er brilljant hvernig kapítalisminn bregst við andófi gegn sjálfum sér, enginn sendur til Síberíu eða Mansjúríu, engir böðlar, engir hlekkir, engir geðvondir fangaverðir, en andstaðan einfaldlega gerð að markaðsvöru og þeir sem eru á móti frjálsum viðskiptum eru fullkomlega frjálsir að því að borga fyrir Che-boli, rastafarigreiðslu eða diska með Rage against the machine.

Latest posts by Ásgeir H. Reykfjörð (see all)