Nokkur orð um lýðræði

Hvað þarf til, svo að lönd verði að lýðræðisríkjum? Og það sem meira er, hvernig verða lönd að frjálslyndum lýðræðisríkjum? Þessu verður auðvitað ekkert svarað endanlega í einum pistli – en nokkrar orð skemma hins vegar ekki fyrir.

Í pistli sem birtist hér á Deiglunni fyrir stuttu síðan, spyr Baldvin Þór Bergsson hvort það sé nægjanlegt að halda kosningar í óstöðugum ríkjum líkt og Afganistan og Írak, til að þau flokkist sem raunveruleg lýðræðisríki. Hann spyr – og það réttilega – í lok pistilsins, hvort ekki þurfi aðrir þættir að fylgja með? Og í stað þess að láta þar við sitja, skulum við huga að þessu betur. Enda áhugavert efni.

Fareed Zakaria, pistlahöfundur á bandaríska vikuritinu Newsweek, gerir þetta umræðuefni að þema í nýrri bók sinni, sem kom út s.l. sumar. Ber hún heitið “The future of freedom: Illiberal democracy at home and abroad”. Í bókinni bendir hann á þá almennu tilhneigingu á Vesturlöndum, að líta á lýðræðið og hina frjálslyndu stjórnskipan okkar, sem eitt og hið sama. Zakaria segir að sú afstaða sé ekki alls kostar rétt. Lýðræði er sú leið sem farin er við myndun ríkisstjórna í frjálsum og sanngjörnum kosningum. Frjálslynd stjórnskipan hins vegar, snýst um takmarkanir á völdum ríkisstjórna. Stjórnskipan sem byggir á réttarríkinu – verndun eignaréttarins og varðveislu á réttindum og frelsi einstaklinganna.

Hvort tveggja hefur því sitt eigið markmið og ef litið er á sögu Vesturlanda, þá sést að þetta hefur ekki ávallt farið saman. Í kringum aldamótin 1800 hrósaði Montesquieu Bretlandi fyrir að vera með frjálslyndustu stjórnskipan heimsins. Þeir Bretar sem þá höfðu kosningarétt voru um 2%. Svipað var uppi á teningnum í Bandaríkjunum á þessum tíma. Aðeins 5% Bandaríkjamanna tók þátt í kosningunum 1824. Semsagt; heilmikið frelsi, en lýðræðið aftur á móti, var af mjög skornum skammti.

Það tók því langan tíma fyrir þessi ríki að sameina þetta tvennt og koma á fót því stjórnarfari sem við þekkjum á Vesturlöndum í dag. Og þessi leið, segir Zakaria, á að vera sú fyrirmynd þegar verið er að reyna koma á fót nýjum lýðræðisríkjum í öðrum heimshlutum. Það sem þarf að vera til staðar áður en haldnar séu kosningar, eru þær stofnanir sem tryggja réttindi og frelsi einstaklinganna. Að mati Zakaria, er þetta sú forsenda sem er nauðsynleg, svo að úr verði stöðugt lýðræðisríki að hætti Vesturlanda.

Tökum dæmi. Síðan 1990 hafa 42 af 48 ríkjum Afríku haldið kosningar. Í flestum tilvikum hafa þær kosningar engu breytt um stjórnskipan ríkjanna. Stjórnarfarið er eins slæmt og áður. En svo hefurðu dæmi af löndum eins og Suður-Kóreu, Taiwan, Malasíu og Tælandi, þar sem fyrst hefur verið lagt áherslu á uppbyggingu réttarríkisins og markaðshagkerfis sem leiðir svo til sjálfstæðrar millistéttar. Og það er eftir allt þetta ferli sem lýðræði kemst loks á og sem hægt er að telja marktækt.

Aðalatriðið hjá Zakaria er í stuttu máli, að snögg umskipti í þeim löndum sem hafa búið við einhvers konar einveldisskipan, í átt til lýðræðislegs stjórnarfars getur verið varasöm. Ríkisstjórnir sem komast til valda við þær aðstæður, eiga það til að misnota grimmilega aðstöðu sína. Bendir hann á lönd eins og Venesúela og Rússland sem dæmi um þetta. Í stað þess að einblína á það að halda kosningar sem fyrst, þá eigi fremur að leggja áherslu á undirstöður réttarríkisins og markaðshagkerfisins.

Það eru þó ýmsar mótbárur sem hægt er að setja við þessar hugmyndir Zakaria. The Economist hefur til að mynda séð ástæðu til að gagnrýna sumt í málflutningi hans. Vitaskuld er það rétt hjá honum, að í Bandaríkjunum og Bretlandi þróaðist lýðræðið á eftir réttarríkinu og markaðshagkerfinu – fyrst kom frelsið, síðan lýðræðið. En sumt í skrifum hans ber þess merki, að hann telji að þetta sé aðeins spurning um einfaldan valkost, milli þess að stofnsetja lýðræði eða halda áfram stigvaxandi umbótum á öðrum sviðum. Svo þarf alls ekki að vera. Þetta sýna til dæmis rannsóknir Þorvalds Gylfasonar, hagfræðings. Þar hefur hann sýnt fram á þau jákvæðu tengsl sem eru á milli lýðræðis og hagvaxtar á tímabilinu 1960-2000. Lýðræði örvar hagvöxt og svo öfugt.

Enda þótt kosningar í sjálfu sér, geri lönd ekki að stöðugum lýðræðisríkjum á einu bretti, þá geta þær hjálpað til á þeirri leið. Það þarf að gefa ungum lýðræðisríkjum tíma á meðan þau fara í gegnum skammvinna vaxtaverki. Stöðug lýðræðisríki er mun líklegri til að vernda eignarréttindi og tryggja frelsi einstaklinganna. Er ekki líklegt að svo verði einnig með hin nýju lýðræðisríki þegar fram líða stundir? Zakaria virðist ekki gefa því mikinn gaum. Kosningar, réttarríki og sterkt borgarasamfélag styrkja nefnilega hvort annað.

Áhyggjur Fareed Zakaria eru samt sem áður skiljanlegar að sumu leyti. Mörg ung lýðræðisríki þyrftu að taka stærri skref í átt til framfara á mörgum sviðum. Það á ekki að fagna eingöngu við að þau haldi kosningar með reglulegu millibili. Annað, og jafnvel mikilvægara, þarf að fylgja með. Hins vegar, þá hefur Zakaria þá tilhneigingu, til að álása þeim um misbresti sem frekar er um að kenna arfi sem fylgt hefur frá fyrra stjórnarfari.