Hamar Hringbrautar

Flestir vilja búa í miðbænum eða Vesturbænum og er það eftirsóttast meðal ungs fólks. Skref hafa verið stigin til að fjölga íbúðum á þessum svæðum og búseta ungs fólks í miðbænum er veigamikill þáttur í uppbyggingu svæðisins. Á dagskrá er einnig að kljúfa í sundur miðbæinn frá Vatnsmýrinni og Háskólasvæðinu.

Sex akreina Hringbraut verður hyldýpi í miðborginni

Samkvæmt rannsókn á húsnæðis- og búsetuóskum borgarbúa árið 2003 sem unnin var fyrir þróunar- og fjölskyldusvið og skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkurborgar á árunum 2002 og 2003 vilja flestir búa í miðbænum eða Vesturbænum og er það eftirsóttast meðal ungs fólks.

Skref hafa verið stigin til að fjölga íbúðum í á þessum svæði. Uppbygging Skuggahverfis mun fjölga íbúðum á svæðinu og gerbreyta svæði sem hefur verið lýti á miðborginni. Fyrirhuguð bygging íbúðahúsnæðis fyrir stúdenta í suðausturhluta Skuggahverfisins er framfaraskref og mun vega þungt fyrir framtíð miðborgarinnar. Vonandi mun þessi þróun halda áfram og fleiri íbúðir fyrir stúdenta og ungt fólkt verði byggðar í miðbænum.

Í þessu ljósi er athyglisvert og að sama skapi furðulegt að nýverið auglýsti borgin eftir tilboðum í færslu Hringbrautar. Hin nýja fyrirhugaða Hringbraut er teiknuð sem sex akreina stofnbraut ofanjarðar frá gatnamótum Snorrabrautar og Miklubrautar niður fyrir Læknagarð og BSÍ og langleiðina upp að Melatorgi. Slík sex akgreina braut verður því svipuð að stærð og Miklabrautin er frá Grensásvegi að Ártúnsbrekku.

Verðmætu byggingarlandi á einum eftirsóttasta stað í borginni verður því ef fram heldur sem horfir breytt í malbik og næsta nágrenni við slíka umferðargötu er ekki eftirsótt til búsetu. Ekki er einungis verið að sóa eftirsóttu byggingarlandi heldur er verið að kljúfa miðbæinn frá Háskólasvæðinu og Vatnsmýrinni. Með slíkum aðgerðum er verulega dregið úr aðdráttarafli Vatnsmýrinnar sem nýbyggingarlands og mun leiða til enn frekari dreifingu byggðarinnar. Hvort sem það er markmið borgarinnar draga úr aðdráttarafli Vatnsmýrarsvæðisins og varðveita flugvöllinn er annað mál.

Ef Hringbrautin væri ekki til staðar í dag er afar ólíklegt að ákveðið yrði að leggja sex akreina veg ofanjarðar á milli Tjarnarinnar og Vatnsmýrinnar. Þá þætti fáranlegt að kanna ekki vel þann möguleika að setja umferðina í stokk neðanjarðar. Það skýtur því skökku við að hugmyndir um að setja brautina í stokk séu ekki skoðaðar alvarlega og séu eins og hendi sé veifað hafnað vegna þess að það hljómi svo dýrt og að það krefjist breytinga á skipulagi. Vissulega er dýrara að setja brautina í stokk ef kostnaður við malbik og steypu brautarinnar er skoðað án áhrifa á aðra þætti. Sé hins vegar litið á stóru myndina, áhrif á umhverfið, verðmæti byggingarlandsins og ímynd borgarinnar snýst dæmið við.

Þessar breytingar á skipulagi borgarinnar og umhverfis okkar virðast sigla í gegnum skipulegsbatterí borgarinnar og borgarstjórn án mikillar umræðu meðal borgarbúa. Samkvæmt fyrrnefndri rannsókn er áhuginn á skipulagsmálum minnstur meðal ungs fólks. Hver ástæðan er fyrir áhugaleysi ungs fólks á skipulagsmálum er ekki ljóst.

Fá atriði hafa eins mikil áhrif á umhverfi okkar og ásýnd borgarinnar, flestum dreymir vafalaust um miðborg með iðandi mannlífi með ungum sem öldnum á vappi. Við viljum geta farið um miðborgina og verið stolt af henni. En til að ná því markmiði verðum við að koma í veg fyrir að þessari fáránlegu hugmynd um færslu Hringbrautarinnar verði hrundið í framkvæmd.

Latest posts by Berglind Hallgrímsdóttir (see all)