Verkin tala

Kosningar til Stúdentaráðs fara fram í dag og á morgun. Kosið er á milli Vöku, Röskvu og H-listans. Umræðan um skólagjöld hefur verið mikil og öll framboðin hafna skólagjöldum við Háskóla Íslands.

Baráttuaðferðirnar eru þó ólíkar og af því má draga þá ályktun að kosningar snúist um starfsaðferðir.

Vaka vann sögulegan sigur á Röskvu árið 2002 og lauk með því 11 ára setu Röskvu í meirihluta. Sigurinn var sennilega enn sætari sakir þess að aðeins fjögur atkvæði skildu Vöku og Röskvu að. Eftir eins árs setu í meirihluta vann Vaka svo stórsigur. Stúdentar virtust hæstánægðir með hinn nýja meirihluta.

Vaka hafnar skólagjöldum

Í aðdragana kosninga til Stúdentaráðs í ár hefur umræðan um skólagjöld verið mjög mikil. Fyrir liggur að öll framboðin hafna skólagjöldum en nokkur munur virðist vera á þeim aðferðum sem fylkingarnar beita. Röskva vakti athygli á dögunum þegar Röskvuliðar mynduðu hring í kringum Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Þessi táknræni gjörningur átti að sýna samtakamátt stúdenta; að stúdentar tækju höndum saman til að mótmæla skólagjöldum við HÍ. Þessi táknræni gjörningur heppnaðist ágætlega, Röskvuliðar sýndu að þeir kunna að leiðast og er það vel. Röskvuliðar fengu athygli fjölmiðla, en þegar litið er tilbaka og spurt er hverju þessi gjörningur hafi skilað stúdentum við Háskóla Íslands er varla hægt að telja áhrifin mikil. Sennilega hefur það heldur ekki verið aðalmarkmiðið, heldur að vekja athygli á Röskvu þar sem kosningabaráttan stóð sem hæst.

Vaka leggur fram tillögur til lausnar fjárhagsvanda HÍ

Í þau tvö ár sem að Vaka hefur farið með meirihluta í Stúdentaráði hafa einkunnarorðin hins vegar verið þau að láta verkin tala, en ekki að tala um verkin. Þannig hefur jafnframt verið tekið á skólagjaldaumræðunni. Stúdentaráð hefur hafnað skólagjöldum og sinnt hlutverki sínu gagnvart stúdentum sem og Háskólanum sjálfum. Davíð Gunnarsson, formaður Stúdentaráðs, gekk í vetur á fund Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, þar sem hann afhenti henni greinargerð hvar skólagjöldum var harðlega mótmælt. Í greinargerðinni voru að auki tillögur til að leysa fjárhagsvanda Háskóla Íslands. Afhending greinargerðarinnar fór ekki ýkja hátt í fjölmiðlum. Í kjölfar þess að hafa fengið umrædda greinargerð ákvað menntamálaráðherra að láta fara fram fjárhags- og stjórnsýsluúttekt á Háskóla Íslands.

Þegar allt kemur til alls þá skiptir það nefnilega máli að forysta Stúdenta sé traust og ábyrg í störfum sínum. Traust forysta Stúdenta vinnur verk sín og missir aldrei sjónar á hlutverki sínu, sem er að gæta hagsmuna stúdenta en ekki að fremja óræða gjörninga fyrir fjölmiðla.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)