Þjóðnýting sparisjóðanna hafin

SpronVala Veinólínó viðskiptaráðherra lagði á þriðjudag fram frumvarp um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki í þeim tilgangi að hindra söluna á SPRON til KB banka. Óhætt er að segja að með þessu frumvarpi séu stigin mörg skref til baka á fjármálamarkaði. Ríkisvæðing sparisjóðanna er hafin.

SpronVala Veinólínó viðskiptaráðherra lagði á þriðjudag fram frumvarp um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki í þeim tilgangi að hindra söluna á SPRON til KB banka. Óhætt er að segja að með þessu frumvarpi séu stigin mörg skref til baka á fjármálamarkaði. Frumvarpið svo gott sem gerir Sparisjóðunum ókleift að stækka með þeim afleiðingum að þeir munu aldrei geta keppt við stóru viðskiptabankana þrjá um kjör viðskiptavina. Afleiðingarnar gætu orðið mjög alvarlegar fyrir íslenskan fjármálamarkað, almenning í landinu og sérstaklega – byggðir landsins (sem menn halda að þeir séu að vernda)

Fyrir utan að vera alvont er frumvarpið sorglegt fyrir réttarríkið. Augljóst er að tilgangur þess er fyrst og fremst að koma í veg fyrir að ákveðinn gjörningur eigi sér stað, ekki í fyrsta skipti sem það er gert heldur þriðja! Það er alveg ótrúlegt að í lýðræðisríki sjái þingmenn sig knúna til að koma í veg fyrir samninga sem gerðir eru samkvæmt gildandi lögum með nýrri lagasetningu. Fröken Veinólínó virðist því loks hafa tekist að koma í veg fyrir eðlilega framþróun í þriðju tilraun.

Það er óskiljanlegt hvað ákveðnir þingmenn, eins og Lúðvík Bergvinsson og Einar Oddur Kristjánsson, hafa lagst gegn þessum hugmyndum um hagræðingu. Hagræðingu sem myndi á endanum skila sér til neytenda. Þeir vilja heldur halda í gamla sveitarómantík sem löngu er orðin tímaskekkja við núverandi aðstæður. Það skrýtnasta af öllu er að rök þessara þingmanna hafa einfaldlega verið sú að það sé nauðsynlegt að halda í sparisjóðakerfið. Popúlisminn í sinni mest þrúgandi mynd. Á hinum endanum er svo Pétur Blöndal sem hefur einn þingmanna haldið uppi málefnalegri umræðu á meðan það virðist sem öðrum hafi verið varpað 30 ár aftur í tímann.

Það sem er kannski undarlegast við þetta allt er að með þessari lagasetningu eru þingmenn að koma í veg fyrir að til verði góðgerðasjóður sem á sex milljarða króna. Sá sjóður átti að styrkja menningarlíf og góðgerðarfélög á starfssvæði SPRON, þ.e. höfuðborgarsvæðinu, um hundruðir milljóna árlega. Af einhverjum undarlegum ástæðum er það vont að listafólk, íþróttafólk og góðgerðastofnanir geti sótt um styrki í þennan sjóð sem hefði orðið sá langstærsti sinnar tegundar á landinu. Er kannski sveitapólitík að spila þarna inn í líka? Eru þingmenn kannski ósáttir við að svona stór sjóður muni einbeita sér að styrkveitingum á höfuðborgarsvæðinu en ekki í dreifðari byggðum? Maður hlýtur að spyrja svona þegar erfitt er að átta sig á raunverulegum ástæðum.

Líklega er þó ein mesta vitleysan í sambandi við frumvarpið sú staðreynd að Samband sparisjóða mun tilnefna einn mann í stjórn sjálfseignarstofnunar sem verður til við hlutafjárvæðingu sparisjóðs. Sparisjóðasambandið hefur farið mikinn undanfarnar vikur og framsóknarfnykurinn af því sambandi er svo mikill að það hálfa væri nóg. Stærsti sparisjóðurinn innan sambandsins þ.e. SPRON borgar mest en fær ekki atkvæðavægi í líkingu við það svipað og framsóknarflokkurinn í þingkosningum.

Framkoma Sparisjóðasambandsins hefur reyndar verið til háborinnar skammar og sjaldan hafa sést jafnléleg vinnubrögð hjá hagsmunasamtökum, þar sem rangfærslur voru í hávegum hafðar m.a. í formi skoðanakönnunar sem augljóslega var höfð villandi til að sýna fram á fyrirfram ákveðnar niðurstöður. Sá stjórnarmaður sem mun sitja í umboði sambandsins mun ekki hafa hagsmuni sjálfseignarstofnunarinnar í huga heldur sambandsins sjálfs, því að þeir hagsmunir munu illa fara saman ef marka má framkomu sambandsins undanfarið.

Samkvæmt frumvarpinu mun viðskiptaráðherra tilnefna tvo stjórnarmenn af fimm í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar. Í þann mund sem ríkið sleppir hendinni af ríkisbönkunum þá vill það reyna að búa til ríkissparisjóði! Þetta er ekki aðdáunarvert og það að gefa stjórnmálamönnum færi á að stýra stórri sjálfseignarstofnun, og þar með hugsanlega sparisjóði, veit ekki á gott.

Það má ekki láta það viðgangast að þingmenn stöðvi löglega samninga sem eru þvert gegn þeirra vilja. Þetta fordæmi sem hefur verið gefið með þessari hringavitleysu í kringum sparisjóðina er því mjög hættulegt og vekur upp spurningar um réttarríkið. Að mati pistlahöfundar er það einnig ákaflega undarlegt hversu mikið hitamál þetta er ákveðnum þingmönnum. Hafa þeir virkilega ekkert betra við tímann sinn að gera en að koma í veg fyrir hagræðingu á fjármálamarkaði og að menningar- og listalíf ásamt góðgerðarstofnunum geti átt kost á styrkjum sem eru ekki í líkingu við það sem áður hafa sést á Íslandi. Er von að maður spyrji hvaða hagsmuni þeir eru að verja, eða telja sig vera að verja?

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)