Friðhelgi einkalífs í hávegum höfð

Í nýlegum dómi Hæstaréttar í svokölluðu gagnagrunnsmáli reyndi í fyrsta sinn verulega á túlkun réttarins á hinu nýja friðhelgisákvæði stjórnarskrárinnar. Dómurinn bendir til þess að ákvæðið muni hafa mjög sterka stöðu í íslenskum rétti.

Ekki er langt síðan íslenskt þjóðfélag logaði í deilum um miðlægan gagngrunn á heilbrigðissviði en vorið 1998 samþykkti Alþingi lög nr. 138/1998 sem heimiluðu gerðu slíks gagnagrunns. Uppsetning gagnagrunnsins hefur tafist og samhliða því hafa deilurnar koðnað niður. Það var því í hálfgerðri kyrrþey sem æðsti dómstóll landsins kvað upp tímamótadóm um þessa lagasetningu nú skömmu fyrir jól.

Samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þetta ákvæði var eitt af þeim sem kom nýtt inn með nýjum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar árið 1995 en friðhelgi einkalífs var ekki orðuð í eldra ákvæði um friðhelgi heimils. Talið hefur verið að í hinu nýja ákvæði fælist m.a. sjálfsákvörðunarréttur um einkalíf. Deilurnar um gagnagrunninn á sínum tíma snérust að verulegu leyti um hvort setja mætti grunninn á fót án þess að afla ótvíræðs samþykkis sjúklinga.

Hið umdeilda ákvæði gagnagrunnslaganna, lög nr. 139/1998, er í 1. mgr. 7. gr. og hljóðar svo:

“Að fengnu samþykki heilbrigðisstofnana eða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna er heimilt að afhenda rekstrarleyfishafa upplýsingar, sem unnar eru úr sjúkraskrám, til flutnings í gagnagrunn á heilbrigðissviði. Heilbrigðisstofnanir skulu hafa samráð við læknaráð og faglega stjórnendur viðkomandi stofnunar áður en gengið er til samninga við rekstrarleyfishafa.”

Eins og sjá má í þessum texta er það undir heilbrigðisstofnunum eða heilbrigðisstarfsmönnum að gefa samþykkið, en sjálfsákvörðunarrétturinn yfir persónuupplýsingum hefur verið talinn einn af hornsteinum þeirrar friðhelgi sem einkalíf manna ætti að njóta.

Í dómi Hæstaréttar frá 27. nóvember sl. í máli nr. 151/2003, Ragnhildur Guðmundsdóttir gegn íslenska ríkinu, er fjallað um nokkur álitaefni sem tengjast hinum miðlæga gagnagrunni á heilbrigðissviði. Í dóminum tekur Hæstiréttur af öll tvímæli um að 71. gr. tekur til þeirra heilbrigðisupplýsinga sem fara inn í grunninn. Segir um þetta í dóminum:

Ótvírætt er að ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar tekur til slíkra upplýsinga og veitir sérhverjum manni friðhelgi um einkalíf sitt að þessu leyti. Til að tryggja þá friðhelgi verður löggjafinn meðal annars að gæta að því að lög leiði ekki af sér raunhæfa hættu á að upplýsingar sem þessar um einkahagi tiltekins manns komist í hendur annarra, sem eiga ekki réttmætt tilkall til aðgangs að þeim, hvort sem um er að ræða aðra einstaklinga eða handhafa ríkisvalds.

Rétturinn kemst þó að þeirri niðurstöðu að afhending slíkra upplýsinga til þriðja aðila, þ.e. rekstraraðila gagnagrunnsins, sé ekki í sjálfu sér brot á 71. gr. stjórnarskrárinnar, þó svo að sjúklingur hafi ekki sjálfur gefið samþykki sitt fyrir slíkri afhendingu.

Hins vegar gerir Hæstiréttur þær kröfur til löggjafans að að stuðla að því að með reglum sem hafa slíkt í för með sér verði tryggt eins og frekast er kostur að upplýsingarnar verði ekki raktar til ákveðinna manna. Hér er fast að orði kveðið hjá dómurum Hæstaréttar og bendir orðalagið „eins og frekast er kostur“ til þess að rétturinn hafi með þessum dómi sett mjög hátt viðmið í kröfum til lagasetningar á þessu sviði.

Niðurstaða Hæstaréttar í málinu er sú að ekki sé unnt að líta svo á að ákvæði laga nr. 139/1998 tryggi svo að viðhlítandi sé að virtum þeim kröfum sem leiddar verða af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, að fullnægt verði því markmiði laganna að heilsufarsupplýsingar í gagnagrunninum verði ekki raktar til ákveðinna manna. Með öðrum orðum, þá eru lögin andstæð stjórnarskrá.

Hafa verður í huga að miðlægur gagnagrunnur á heilbrigðissviði hefur enn ekki verið búinn til og því er Hæstiréttur ekki að dæma um það hvort framkvæmdin sjálf stríði gegn ákvæðum laga. Hins vegar má segja að málið falli á fyrstu hindrun því lögin sjálf veita friðhelgi einkalífs ekki nægilega vernd, eins og rétturinn túlkar 71. gr. stjórnarskrárinnar. Hér er rétturinn því einungis að prófa lagasetninguna sjálfa. Mjög líklegt er að þegar og ef gagnagrunnurinn verður settur á muni reyna mjög á hvort tiltekin atriði í framkvæmd hans standist lög.

Lykilatriði í dómi Hæstaréttar er að það vantar lögmæltar viðmiðanir um framkvæmdina, lögin eru með öðrum orðum of opin, svo opin að áskilnaði 71. gr. stjórnarskrár er ekki mætt. Um þetta segir í forsendum Hæstaréttar:

Vegna þeirra skyldna, sem 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar leggur samkvæmt áðursögðu á löggjafann til að tryggja friðhelgi einkalífs, getur ekki komið hér í staðinn ýmiss konar eftirlit með gerð og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði, sem lagt er í hendur opinberra stofnana og nefnda án þess að þær hafi við ákveðnar og lögmæltar viðmiðanir að styðjast í störfum sínum.

Og af hverju skiptir það máli að viðmiðanir séu lögmæltar? Vegna þess að stofnanir og nefndir taka breytingum, oftast samkvæmta ákvörðunum stjórnvalda. Ef þær viðmiðanir sem tryggja eiga nægilega persónuvernd eru komnar undir áliti og skoðunum þeirra sem í slíkum nefndum og stofnunum starfa, þá er friðhelgi einkalífsins ekki nægilega tryggð. T.a.m. gæti framkvæmdavaldið á hverjum tíma haft veruleg áhrif á hvaða viðmið væru notuð, þessar stofnanir og nefndir heyra jú undir framkvæmdavaldið. Löggjafinn getur einn sett slík viðmið og það er nákvæmlega það sem Hæstiréttur er að segja, og hann segir enn fremur að löggjafinn verðir sjálfur að tryggja friðhelgi einkalífsins eins og frekar er kostur.

Ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar er enn mjög ungt og á eftir að mótast í réttarframkvæmda á næstum árum. Sá dómur sem hér hefur verið fjallað um er einn sá fyrsti þar sem reynir á túlkun Hæstaréttar á þessu ákvæði. Túlkun Hæstaréttar á lagaákvæðum er gildandi réttur og því má segja að þessi dómur hafi þau stefnumarkandi áhrif, að í íslenskum rétti verða gerðar ítrustu kröfur um friðhelgi einkalífs.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.