Fjármálahneyksli og lausnir

Keyboard(1).jpgInnherjaviðskipti – Falsanir – Fjárdráttur – Hringamyndun – Skattsvik. Þetta eru fyrirsagnir sem blasa við okkur í fjölmiðlum á hverjum degi. Fjárdráttur í Landssímanum og lífeyrissjóðum, innherjaviðskipti í bönkunum, rífleg laun forstjóra KB-banka, hringamyndun Baugs og Norðurljósa og meint skattsvik Jóns Ólafssonar eru meðal mála sem hafa skokið íslenskt viðskiptalíf undanfarið ár. Í erlendum fréttum eru vandamálin af enn stærri toga, fyrst Enron í Bandaríkjunum, Skandia í Svíþjóð og nú Parmalat á Ítalíu svo einhver dæmi séu tekin.

Keyboard(1).jpgInnherjaviðskipti – Falsanir – Fjárdráttur – Hringamyndun – Skattsvik.

Þetta eru fyrirsagnir sem blasa við okkur í fjölmiðlum á hverjum degi. Fjárdráttur í Landssímanum og lífeyrissjóðum, innherjaviðskipti í bönkunum, rífleg laun forstjóra KB-banka, hringamyndun Baugs og Norðurljósa og meint skattsvik Jóns Ólafssonar eru meðal mála sem hafa skokið íslenskt viðskiptalíf undanfarið ár. Í erlendum fréttum eru vandamálin af enn stærri toga, fyrst Enron í Bandaríkjunum, Skandia í Svíþjóð og nú Parmalat á Ítalíu svo einhver dæmi séu tekin.

Í Bandaríkjunum var tekið á vandanum með því að lögfesta á mjög skömmum tíma svokölluð Sarbanes-Oxley lög sem gengu í gildi í júlí 2002, eða SOX eins og þau eru gjarnan kölluð. Grundvallarmarkmið laganna var að endurskapa traust á bandarískum fyrirtækjum og fjármálamarkaði. Lögin taka á fjölmörgum atriðum sem komu upp í Enron málinu og snúa m.a. að endurskoðun fyrirtækja, eftirliti með endurskoðendum og skráðum fyrirtækjum, gegnsæi á eignarhaldi stjórnenda, auknum skyldum stjórnenda, hertum refsingum og svo framvegis.

Það er erfitt að meta hvaða áhrif slík lög hafa, fyrir utan að sjálfsögðu að gera allt regluverkið ótrúlega viðamikið og afla lögfræðingum endalausra verkefna í að túlka þau og hjálpa fyrirtækjum við að innleiða þau. En sem dæmi má nefna að það virðist ekki hafa orðið viðsnúningur á trausti almennings til fjármálamarkaðarins í Bandaríkjunum sem bendir til þess að þau séu ekki að ná upprunalegum markmiðum sínum að öllu leyti.

Þá hafa mörg fjármálahneyksli dunið á í Evrópu jafnvel þó þar hafi sums staðar verið í gildi reglur sem teknar voru að hluta til inn í SOX. Má hér nefna sem dæmi að í aðdraganda SOX var mikið rætt um hvort gera ætti fyrirtækjum skylt að skipta um endurskoðendur reglulega, t.d. á 4-5 ára fresti, og koma þannig í veg fyrir að endurskoðendur yrðu um of háðir afkomu og efnahag einstakra risafyrirtækja. Á endanum var þetta að hluta til sett inn í SOX. Í þessu samhengi hefur verið bent á að á Ítalíu voru í gildi slíkar reglur, en þótt Parmalat hafi skipt um endurskoðunarfyrirtæki árið 1999 varð það ekki til þess að upp komst um svindlið sem þar var í gangi.

Hér á landi hafa menn ekki farið varhluta af umræðu um stjórnun fyrirtækja, viðskiptasiðferði almennt og því hvernig best sé að taka á þeim málum sem upp hafa komið. Viðskiptaráðherra hefur nú séð ástæðu til að láta málið sérstaklega til sín taka með því að skipa nefnd um íslenskt viðskiptaumhverfi. Nefndin var skipuð í fyrradag og og er hlutverk hennar að skoða hvernig bregðast megi við aukinni samþjöppun og hvernig eigi að þróa reglur þannig að viðskiptalífið sé skilvirkt og njóti trausts.

Ef litið er til ofangreindrar reynslu frá útlöndum sést að mikilvægt er að nefndin fari varlega og grípi ekki strax til þess að leggja fram tillögu að lagasetningu. Viðhorf í svona málum hefur nefnilega gjarnan verið á þá leið að setja lög sem taka sérstaklega á því broti sem framið var eða því ástandi sem ríkir á hverjum tíma. Þetta viðhorf var uppi á teningnum í Bandaríkjunum í kjölfar fjármálahneykslanna þar og átti sinn þátt í umræddri Sox-löggjöf. Þetta ber að varast. Reglur sem eru of þröngar og taka aðeins á afmörkuðum atriðum eru líklegri til að leiða af sér lagaflækjur og göt í lagasetningu sem óprúttnir einstaklingar geta nýtt sér. Við megum síðan aldrei gleyma í allri þessari umræðu að það sem skiptir mestu máli er að þeir einstaklingar sem starfa í viðskiptalífinu hafi sæmilegt siðferði og vinni ekki eingöngu með persónuleg gróða- og valdasjónarmið að leiðarljósi.

Það eru ítarlegar og góðar reglur fyrir hendi á flestum sviðum viðskiptalífsins hér á landi. Frekar en að stökkva strax til og setja nýjar reglur er því ekki úr vegi að nýskipuð nefnd um íslenskt viðskiptaumhverfi kanni hvernig efla megi þær eftirlitsstofnanir sem þegar eru til staðar og hvernig efla megi almenna siðferðisvitund athafnamanna og starfsmanna í viðskiptalífinu. Slíkt yrði sennilega einfaldara, ódýrara og áhrifameira en ný lagasetning.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.