17. Fara út í geim

GeimferðamennskaFyrir nokkru síðan áttaði ég mig á því að ég væri ekki eilífur, svo undarlegt sem það kann að hljóma. Skiljanlega olli þessi staðreynd mér töluverðu hugarangri og þá greip ég til þess ráðs að skrifa niður á blað lista yfir þau 25 atriði sem ég ætlaði að hafa að leiðarljósi og framkvæma á lífsleiðinni. Eitt af þessum 25 atriðum mun mér sennilega reynast erfitt að uppfylla og það er: 17. Fara út í geim.

GeimferðamennskaFyrir nokkru síðan áttaði ég mig á því að ég væri ekki eilífur, svo undarlegt sem það kann að hljóma. Skiljanlega olli þessi staðreynd mér töluverðu hugarangri og þá greip ég til þess ráðs að skrifa niður á blað lista yfir þau 25 atriði sem ég ætlaði að hafa að leiðarljósi og framkvæma á lífsleiðinni. Þennan einlæga lista geymi ég í veskinu mínu og rekst þ.a.l. á hann annað kastið og held mér þannig við efnið – tel mér að minnsta kosti trú um það. Þessi listi er svo sem ekki merkilegur og inniheldur atriði allt frá því að ná svörtu belti í karate yfir í að verða góður faðir og afi. Eitt af þessum 25 atriðum mun mér þó sennilega reynast erfitt að framkvæma og það er: 17. Fara út í geim.

Það hefur verið fjarlægur draumur margra að ferðast út í geim til þess upplifa þyngdarleysi og horfa á hnöttótta jörðina. Hvað getur annars verið stórkostlegra en að “komast út úr líkamanum” í krafti þyngdarleysis og “slíta sig frá upprunanum” með því að horfa á heimkynni mannkyns úr fjarlægð? Fegurri sýn er vart hægt að sjá. Flestir hafa hins vegar þurft að láta sér nægja að fá drauminn uppfylltan í dagdraumum því einungis fáir aðilar hafa verið svo heppnir að verða fulltrúar gemvísindastofnanna.

Með heimsókn auðjöfursins, Dennis Tito, í MÍR geimstöðina árið 2001 var hins vegar brotið blað í mannkynssögunni er geimferðamennska varð að veruleika. Ferð Tito gaf mér og öðrum ævintýramönnum byr undir báða vængi. Fargjaldið var reyndar stjarnfræðilegt en reynslan hefur kennt okkur að ef eftirspurnin er næg fleygir tækninni hratt fram og því ekki útilokað að geimferðir verði á “viðráðanlegu verði” eftir 10-100 ár! Það er svo spurning hvar á þessu bili “viðráðanlegi” tímapunkturinn er og hvort heilsan verður ofan- eða neðanjarðar á þeim tíma.

Nýlega hefur mér þó flogið í hug að e.t.v. gæti ég “beygt” þetta markmið mitt eitthvað og látið þar með drauminn rætast. Vinur minn hefur nefnilega bent mér á vefsvæðið www.spaceadventures.com sem er heimasíða fyrirtækisins sem sendi Tito út í geim. Auk þess að bjóða beinlínis upp á geimferðir, sem koma þér á sporbaug jarðar fyrir X milljónir dollara, býður fyrirtækið upp á “þyngdarleysisferðir” og “lofthjúpsferðir” fyrir einungis brot af fargjaldi geimferðar.

Þyngdarleysi“Þyngdarleysisferðir” eru í raun hluti af undirbúningsferli geimfara og ganga þannig fyrir sig að geimferðamenn fljúga með stórri þotu, sem er hol að innan og þakinn púðum, hátt upp í himininn og þotan lætur sig svo “hrapa” til jarðar. Við það að steypa þotunni niður vinnur fallhraðinn upp þyngdarkraftinn, ef svo má að orði komast, og áhöfnin upplifir eiginlegt þyngdarleysi á meðan. Það gefur augaleið að þyngdarleysisferðin varir einungis í skamman tíma en áhrifin eru klárlega eftirsóknarverð.

Jörð séð úr MIG-25“Lofthjúpsferðir” eru af öðrum toga en gera tveggja manna áhöfn kleift að sjá sjóndeildarhringinn beygjast í kúlu, upplifa blámann af jörðinni og myrkur himingeimsins. Í stuttu máli gengur ferðin út á það að ferðamaður sest upp í MIG-25 orrustuþotu með þjálfuðum flugmanni sem flýgur þráðbeint upp í loft á tvöföldum hljóðhraða. Á ákveðnum tímapunkti, þegar loftið er orðið mjög þunnt, drepst á hreyfli vélarinnar sökum súrefnisskorts en hún þýtur áfram þar til þyngdaraflið nær að stöðva ferðina. Þá blasir við ferðamönnum algeymi fegurðar – sjálft sköpunarverkið. Ferðin varir líka einungis í stutta stund því vélin hefur ekki kraft til að yfirvinna þyngdarkraft jarðar og hrapar niður aftur (sem betur fer).

Þessar ferðir eru enn sem komið er kostnaðarsamar en hver veit nema með þessu móti geti ég og aðrir fengið fengið draum okkar uppfylltan áður en yfir lýkur.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)