Hverjum er treystandi til þess að breyta úthlutun aflaheimilda?

gamalltogari.jpgSú óvissa sem ríkir um eignarrétt yfir aflaheimildum í sjávarútvegi er alvarlegur dragbítur á hagræðingu í greininni. Flestir þeir sem berjast fyrir breytingum á kerfinu virðast hins vegar engann áhuga hafa á aukinni hagkvæmni. Það er umhugsunarefni fyrir þá sem berjast fyrir fyrningu aflaheimilda.

gamalltogari.jpgNúverandi lög um stjórn fiskveiða eru alvarlegur dragbítur á hagræðingu í sjávarútvegi þar sem óvissa ríkir um eignarrétt yfir aflaheimildum. Þessi óvissa gerir það að verkum að núverandi handhafar aflaheimilda treysta sér ekki til þess að leggja jafnmikið kapp á hagræðingu og þeir annars myndu þar sem þeir eru hræddir um að slíkar aðgerðir gætu leitt til þess að aflaheimildirnar verði teknar af þeim.

Margar leiðir eru færar til þess að eyða þessari óvisuu. Tvær bestu leiðirnar eru:

1) Að fella brott fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða og setja þess í stað lög sem tryggja eignarrétt núverandi handhafa aflaheimilda.

2) Að ríkið selji á uppboði vel skilgreindar aflaheimildir. (Fyrningarleiðin væri skynsamleg útfærsla á þessari leið.) Báðar þessar leiðir myndu leiða til aukinnar hagræðingar í sjávarútvegi

Fyrningarleiðin hefur að margra mati þann kost að allir landsmenn fá notið rentunnar af fiskveiðunum í stað þess að hún renni öll til fjármagnseigenda í sjávarútvegi. Hættan við það að berjast fyrir breytingum á stjórn fiskveiða á þessum forsendum er hins vegar sú að flestir þeir sem berjast fyrir breytingum á stjórn fiskveiða gera það á allt öðrum forsendum.

Þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar tala um breytingar á stjórn fiskveiða snúast þær oftar en ekki um leiðir til þess að tryggja byggð hér og hvar á landinu og leiðir til þess að takmarka framsal aflaheimilda. Ef þessir flokkar verða þeir sem breyta kerfinu er því allt eins líklegt að breytingarnar muni hvorki snúast um aukna hagkvæmni né um að þjóðin fái öll notið rentunar. Þær munu þvert á móti snúast um að taka rentuna af einum sérhagsmunahóp og færa hana öðrum sérhagsmunahóp.

Eilíft tal þingmanna stjórnarandstöðunnar um byggðakvóta og takmörk á framsali aflaheimilda leiða til þess að ég efast um að það sé skynsamlegt að berjast fyrir fyrningarleiðinni. Ef til vill væri skárra að reyna að sannfæra núverandi stjórnarflokka um að tryggja núverandi handhöfum aflaheimilda varanlegan eignarrétt. Þótt sú leið fórni markmiðinu um réttláta skiptingu arðs nær hún þó að minnsta kosti því markmiði að auka til muna hagkvæmni í sjávarútvegi.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.