Gettu betur, syngdu best og dettu samt úr leik

Sigursælasti skóli í sögu Gettu betur, Menntaskólinn í Reykjavík, féll í gær úr leik í seinni útvarpsumferð keppninnar. Í Idol-keppninni síðastliðinn föstudag fékk Nanna Kristín Jóhannsdóttir fæst atkvæði áhorfenda og varð því frá að hverfa. Var þetta verðskuldað, eða má kenna bjánalegu skipulagi um ófarir þessara aðila?

Fyrir nokkrum árum birtist einkar athyglisvert viðtal við Guðna Guðmundsson rektor í Skólablaði Menntaskólans í Reykjavík. Þar lýsti hann þeirri skoðun sinni að meðalmennskan væri að drepa allt frumkvæði, að þeir lélegu kæmust upp með að stjórna kerfinu til þess eins að hygla sjálfum sér. Þetta kallaði Guðni kjaftur sósíalisma andskotans, þegar stefnt væri að því að gera alla jafna með því að hafa samnefnarann nógu djöfulli lágan. Sjaldan hefur þessi viðvörun Guðna átt betur við en einmitt nú.

Guðni var stoltur af sögu Menntaskólans og hann tók virkan þátt í gleðinni þegar MR sigraði í Gettu betur. Það gerði skólinn sleitulaust frá árinu 1993 þar til í fyrra þegar ungt lið Borghyltinga lagði stórveldið í undanúrslitum. Því miður tókst þeim ekki að fylgja árangrinum eftir í úrslitunum þar sem Verslunarskóli Íslands hafði betur. MR mun ekki endurheimta titilinn í ár þrátt fyrir að vera stigahæsta lið keppninnar hingað til. Í 1. umferð hlaut skólinn 30 stig og í gær fékk skólinn 26 stig. Borgarholtsskóli hlaut 28 stig í 1. umferð en 29 stig í gær og sló MR úr leik.

Það hlýtur því að vera eðlilegt að spyrja hvers vegna lið, sem klárlega er eitt af þeim bestu, dettur út í forkeppninni?

Sumir segja að þetta sé einfaldlega spurning um reglur. Liðum sé ekki raðað eftir styrkleika í annarri umferð og því geti þetta alltaf komið fyrir. Gott og vel, látum það vera að farið sé eftir reglum. Það er hins vegar öllu alvarlega að veikari liðin hafa ávallt lagst á móti því að fyrirkomulaginu sé breytt. Þau vita sem er að verði liðum raðað eftir styrkleika þá eiga þau veikari von um að komast í Sjónvarpið, en um það snýst þetta víst allt saman. Vissulega má færa rök fyrir því að það sé keppninni fyrir bestu að sem flestir skólar eigi möguleika á því að komst sem lengst, en það sama má þá segja um allt annað. Eigum við til að mynda að fækka knattspyrnuliðum af Höfuðborgarsvæðinu í úrvalsdeildinni til þess eins að smærri bæjarfélög eigi meiri möguleika? Er ástæða til að minnka kröfurnar inn í Háskólana til þess að fleiri eigi kost á langskólanámi?

Gettu betur, eins og svo margt annað snýst einfaldlega um að vera bestur. Skemmtileg tilþrif, búningar eða önnur hliðaratriði hverfa í skuggann af aðalatriðinu, því að svara sem flestum spurningum. Markmið skipuleggjanda hlýtur að vera að lið sem svarar flestum spurningum fari sem lengst í keppninni. Því miður varð það ekki raunin í ár.

Idol-keppnin virðist þó fylgja annars konar lögmálum því þar dugir ekki að vera góður söngvari. Í söngvakeppni, vel að merkja. Í síðustu viku var Nanna Kristín Jóhannsdóttir kosin út úr keppninni af þjóðinni, eða eigum við ef til frekar að segja að þjóðin hafi ekki kosið hana áfram. Nær allir þeir sem hafa tjáð sig um málið halda því blákalt fram að Nanna Kristín hafi ekki átt þetta skilið, að hennar frammistaða hafi verið mun betri en annarra keppenda. Ívar Páll Jónsson bendir reyndar á ágætan punkt í grein sinni í Fréttablaðinu, en þar segir hann að þeir næstbestu tapi mest á kerfinu. Enginn sjái sér hag í því að greiða þeim atkvæði því nær öruggt sé að viðkomandi fari áfram. Þannig geti sá einstaklingur, sem allir telji næstbestan, fallið strax úr leik. Þetta er ekki aðeins rétt athugun hjá Ívari Páli, heldur þörf ábending um kerfisbundinn galla í ákveðnum kosningakerfum.

Í Idol-inu virðast 3 atriði skipta mestu máli. Í 1. lagi að syngja þokkalega, krafan um að halda lagi ætti að vera sjálfsögð í 10 manna úrslitum en annað hefur komið á daginn. Í 2. lagi að vera skrýtinn, þeir sem vekja athygli eiga meiri möguleika á því að vera kosnir áfram. Og í 3. lagi er það ávísun á árangur að koma utan af landi, því bæjarfélögin styðja greinilega sitt fólk. En svona er bara þjóðin, og það er víst þjóðin sem kýs.

Er kerfið gallað, heimurinn ósanngjarn, þjóðin galin eða ég bara tapsár? Skýrt, skilmerkilega og skorinort, hlýtur svarið að vera – Já.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)