Nói litli fer í háskólann

sdfdKristinn H. Gunnarsson verður seint talinn bjartasta peran á seríunni, og ekkert nýtt af nálinni að hann fái gjörsamlega geggjaðar hugmyndir. Þó hyggur greinarhöfundur, að nýjasta hugarsmíð hans um háskóla á Vestfjörðum, slái út öll hans fyrri meistaraverk. Lesendur sjá strax að hér er djúpt í árinni tekið.

Fáir geta haldið aftur af sér þegar Kristinn H. Gunnarsson er til umræðu. Meira að segja skopteiknarar fara á kostum.

Kristinn H. Gunnarsson verður seint talinn bjartasta peran á seríunni, og ekkert nýtt af nálinni að hann fái gjörsamlega geggjaðar hugmyndir. Þó hygg ég, að nýjasta hugarsmíð hans um háskóla á Vestfjörðum, slái út öll hans fyrri meistaraverk.

Í frumvarpi Kristins kemur fram að rökin fyrir Háskóla á Vestfjörðum séu þau sömu og beitt var þegar rætt var um stofnun Háskóla á Akureyri árið 1987. Eitthvað virðist Kristinn nú hafa ruglast í ríminu, enda var meginröksemdafærslan á þeim tíma sú, að enginn háskóli væri á landsbyggðinni. Þau rök halda ekki lengur. Kristinn bendir einnig á, að uppbygging Háskóla á Vestfjörðum, snúist fyrst og fremst um byggðastefnu. Ég bið lesendur um að afsaka dónalegheitin; no shit, Sherlock!

Háskólar eru nefnilega atvinnuskapandi og fara ekki svo glatt á hausinn. Öfugt við loðdýrarækt, fiskeldi, fjarþjónustu og aðrar patent-lausnir á landsbyggðinni, þá þyrftu menn að leggja ansi hart að sér til að keyra háskóla í gjaldþrot. En sem hluti af byggðstefnu er háskóli á Ísafirði vond hugmynd. Og sem byggðastefna er byggðastefna vond hugmynd.

„Úff, um hvað er maðurinn eiginlega að tala?“ — kynni einhver að spyrja!

Jú, maður fær það oft á tilfinninguna að núverandi byggðastefna sé ekkert annað en rándýr leið með það eina markmið að næla í örfá aukaatkvæði. Ekki það að fjöldi atkvæða skipti nokkru guðslifandi máli í íslenskum stjórnmálum — enda mun verðandi forsætisráðherra gegna embætti sínu í umboði 17% þjóðarinnar.

Byggðastefna er tvíeggjað sverð. Í eðli sínu skýtur það óneitanlega rammsökku við, að stjórnvöld leggi fjármagn til uppbyggingar á háskóla á Vestfjörðum, til þess eins að reyna að viðhalda stærð byggðar í landsfjórðungnum. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að skapa íbúum landsbyggðarinnar mannsæmandi skilyrði til búsetu. En einhvers staðar verður að draga markalínu.

Það þarf ekkert undrabarn til að sjá að stofnsetning, uppbygging og rekstur á sjálfstæðum háskóla fyrir um 150 nemendur, er ansi langsótt, kostnaðarsamt og óhagkvæmt. Svona svipað eins og Héðinsfjarðargöng!

Stjórnvöld þurfa að gera upp við sig hvort feta eigi áfram eftir þeirri braut að stofna marga smáa háskóla, eða hvort skynsamlegra er að styðja almennilega við bakið á Háskóla Íslands. Í mínum huga hníga öll rök að seinni valkostinum og mér finnast hugmyndir Kristins jafnábyrgðalausar og þær eru smekklausar. Að hefja uppbyggingu enn eins háskólans á meðan Háskóli Íslands berst í bökkum við að halda starfsemi sinni gangandi er í mínum huga óverjandi afstaða.

Hér er ekki um höfuðborgarfasisma að ræða, heldur almenna skynsemi. Auðvitað væri það frábært ef allir hefðu sömu möguleika til að sækja þá þjónustu sem þá lystir, burtséð frá búsetu. Þannig væri voðalega gaman ef liðsmenn Magna frá Grenivík gætu skellt sér í bíó eftir velheppnaða bandíæfingu og eflaust væri frábært fyrir íbúa Grímseyjar að fá heimsenda pizzu til að maula yfir Idolinu — án þess að þurfa að ræsa út þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Ein þeirra röksemda, sem nefnd hefir verið í umræðunni er sú, að með uppbyggingu háskóla verði komið í veg fyrir landsbyggðarflótta til höfuðborgarinnar. Eins og staðan er í dag, geta nemendur frá Vestfjörðum sótt háskólanám í Reykjavík eða á Akureyri eins og aðrir landsmenn. Menn benda hins vegar á, að útskrifaðir nemendur flytjist ekki aftur út á land að námi loknu. Sökum þessa, telja flutningsmenn tillögunar, að landsbyggðarflóttinn verði stöðvaður ef ungt fólk getur sótt háskólamenntun í sinni heimabyggð. Þvert á móti er ég þess fullviss að sú verður ekki raunin, enda virðist aðdráttarafl höfuðborgarsvæðisins aukast á hverju ári.

Þessari staðreynd hafa flestir áttað sig á. Til dæmis hefir bæjarráð Borgarness aldrei sent frá sér ályktun þess efnis, að hefja skuli tafarlausa uppbyggingu Borgarness sem fjármálamiðstöðvar Evrópu — þrátt fyrir að á Bifröst sé rekinn blómlegur viðskiptaháskóli. Reyndar virðist kaupfélagsstjórinn ekki alveg vera á sömu blaðsíðu, enda má skilja af viðbrögðum hans í fjölmiðlum, að hann undirbúi óvinveitta yfirtöku á KB-banka til þess eins að fá að vera í friði með vörumerki sitt!

Umkomuleysi ungs fólks á Vestfjörðum er óumdeilt og það kristallaðist í kvikmyndinni um Nóa albínóa. Þrátt fyrir að Nói hafi gert hvað hann gat til að sleppa við skólann, er mikið af ungu fólki á Vestfjörðum sem áttar sig á að menntun er besta fjárfesting þess. Og þó hugmyndir Kristins H. Gunnarssonar falli hugsanlega í kramið hjá afmörkuðum hópi manna, trúi ég ekki öðru en að kjósendur nái áttum og felli Kristinn H. Gunnarsson í næsta prófkjöri.

Hann er nátttröll í íslensku samfélagi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)