Nokkur orð um hringamyndun

antitrustfbi.jpgSumir ákafir markaðshyggjumenn telja hræðslu við hringamyndun „vinstrivillu“, jafnvel óþarfa áhyggjur, markaðurinn leiðrétti sig sjálfur – eins og hann gerir í mörgum tilfellum. Þetta er þó ekki alltaf rétt.

antitrustfbi.jpgSumir ákafir markaðshyggjumenn telja hræðslu við hringamyndun „vinstrivillu“, jafnvel óþarfa áhyggjur, markaðurinn leiðrétti sig sjálfur – eins og hann gerir í mörgum tilfellum. Þetta er þó ekki alltaf rétt.

Á Íslandi er almennt viðurkennt að hér ráði nokkrar blokkir öllu sem máli skiptir í viðskiptalífinu. Hinar klassísku eru auðvitað „Kolkrabbinn“ og leifar sambandsins sáluga „S-Hópinn“, sumir segja „Kolkrabbann“ dauðann, eftir lætin nú fyrr í vetur. Um tíma leit út fyrir að herja ætti á þessar blokkir með stofnun „Orca – hópsins“, en fyrir þá sem ekki vita er Orca latína og þýðir háhyrningur. Háhyrningur étur bæði kolkrabba og smokkfiska. „Háhyrningurinn“ tók slaginn, en drapst eftir hörð átök eins og má fræðast um í títtnefndum greinarflokki Agnesar Bragadóttur. Aðrar blokkir eru hinir nafntoguðu „Baugsfeðgar“, Björgólfsfeðgar“. Oft eru Íslandsbanki og lífeyrissjóðirnir settir saman í eina blokk. Fleiri hafa verið nefndar en ekki tekur að eyða miklu púðri í þessa kaffispjallseinföldun á íslensku viðskiptalífi. Því er þó ekki að neita að sýnileg valdabarátta hefur verið háð innan og milli þessara blokka. Menn virðast hafa „of“ mikinn áhuga á völdum en minni á hámarksarðsemi eins og markmið fyrirtækja ætti að vera. Þótt auðvitað séu undantekningar.

Skýrasta dæmið af viðskiptablokk var hin ógurlegi „Kolkrabbi“ sem stóð saman af fyrirtækjum sem áttu hlut hvort í öðru. Þessi fyrirtæki eru enn starfandi, en eignarhaldið er annað. Þessi blokk var sérstök sökum þess að þetta voru og eru enn ein öflugustu fyrirtæki landsins, sömu menn, tengdir fjárhags- og fjölskyldutengslum, sátu saman í stjórnum þessara fyrirtækja í krafti eignarhluta þeirra hvert í öðru.

Ef menn líta á þetta sem vandamál eru nokkrar leiðir til úrbóta. Ein er að láta markaðinn ráða ferðinni og skipta upp fyrirtækjum eins og gerðist nú á dögunum með kaupum Steinhóls á Skeljungi, „Björgólfsblokkinni“ á Eimskipum – sem nú er verið að brytja niður.

Önnur er sú sem nóbelsverðlaunahafinn og einn helsti hugmyndafræðingur frjálshyggjunnar Friedrich August von Hayek kynnir í ritgerð sinni „The Corporation in a Democratic Soceity“ sem birtist í bók hans Studies in Philosophy, Politics and Economics.

Í ritgerðinni kveðst Hayek aldrei hafa skilið rökin fyrir því að leyfa fyrirtækjum að fara með atkvæðisrétt í öðrum fyrirtækjum sem þau eiga hlut í. Hayek vill gera skýran greinarmun á hlutafjáreign og atkvæðisrétti. Ekkert sé því til fyrirstöðu að fyrirtæki fjárfesti í öðrum slíkum til að ávaxta pund sitt. Hayek bendir hins vegar á að ef fyrirtæki geti farið með atkvæðarétt i öðru fyrirtæki gefi það hugtakinu eignarréttur aðra merkingu en það er jafnan talið hafa. Í stað þess að vera samband eignaraðila sem hafa sömu hagsmuni, breytist fyrirtækið í samband hópa, þar sem hagsmunir geta auðveldlega rekist á. Slíkt getur skapað siðferðisleg vandamál. Hagsmunir hverra víkja?

Í raun getur einn hópur sem sjálfur á aðeins lítinn hlut af þeim eignum sem viðkomandi fyrirtæki á, með sérstökum hætti náð yfirráðum yfir eignum sem eru mun meiri en þessi ákveðni hópur á sjálfur. Með því að eiga ráðandi hlut í einu fyrirtæki, sem á ráðandi hlut í öðru fyrirtæki, sem jafnvel á í einu í viðbót getur viðkomandi hópur með fremur litla eign ráðið yfir margfalt meiri fjármunum. Munurinn á því fé sem hópurinn eða einstaklingurinn á er þannig orðinn margfalt meiri en það fé sam sá sami ræður yfir. Þannig urðu menn „Stjórnarformenn Íslands“, en sú staða virðist hafa verið lögð niður nýlega. Núverandi „Eigandi Íslands“ segist láta fjármagnið ráða ferðinni. En hann, þótt góðviljaður og viðkunnalegur virðist vera, getur auðveldlega fallið í sömu gryfju og fyrirrennarar sínir.

Næstum ómögulegt er að koma þessum hugmyndum Hayeks í framkvæmd enda flest íslensk fyrirtæki í eigu annarra fyrirtækja, sem síðan eru í eign einhverja annarra skúffufyrirtækja – skráðum erlendis. Engu að síður hugmyndin áhugaverð.

Latest posts by Ásgeir H. Reykfjörð (see all)