Góðir og slæmir hirðar

Þessa dagana logar allt í illdeilum vegna yfirtökutilboðs Kaupþings á Spron. En í öllu rifrildinu um hversu mikið stofnfjáreigendur fá í sinn hlut hefur ekki gefist mikill tími til að velta vöngum yfir líknar- og menningarsjóðnum sem yrði til við gerninginn. Þetta er „féð sem enginn á“, „fé án hirðis“, sjóðurinn sem stofnjáreigendur virðast hafa meiri áhyggjur af en nokkur annar.

Orrahríðin sem nú stendur um Spron er þriðja hrinan í slagnum um sparisjóðinn. Slagurinn hófst þegar sett voru lög, að beiðni sparisjóðanna, sem heimiluðu þeim að hlutafjárvæðast. Með þessum lögum opnuðuðust ýmsir möguleikar á sameiningu við aðrar fjármálastofnanir, með tilheyrandi hagræðingu og verðmætaaukningu á sparisjóðunum.

Vandinn sem fylgir þessu er að eignarrétturinn á fé og viðskiptavild sparisjóðanna er illa skilgreindur. Stofnfjáreigendur hafa vissulega lagt fram fé til sjóðanna, en það fé er að ýmsu leyti líkara lánsfé en hlutafé. Talsverðir fjármunir eru innan sparisjóðanna, umfram það fé sem stofnfjáreigendur hafa lagt fram, og að sjálfsögðu vilja margir koma höndum yfir það fé.

Fyrsta hrinan í þessum slag brast á þegar þáverandi stjórn Spron lagði fram tillögu um hlutafjárvæðingu samkvæmt ofangreindum lögum og stofnun menningar- og líknarsjóðs í umsjón stjórnarinnar. Þessum áformum var harðlega mótmælt af Pétri Blöndal og fleiri stofnfjáreigendum, og tókst þeim að koma í veg fyrir þau.

Næsta hrina var nokkuð flókinn gjörningur sem „fimmenningarnir“, undir forystu Péturs Blöndals, settu saman. Þessi gjörningur átti að gera mögulega yfirtöku Spron án þess að honum yrði breytt í hlutafé. Á sama tíma lögðu starfsmenn sparisjóðanna fram svipaða tillögu í samkeppni við fimmenningana, en á endanum stöðvaði fjármálaeftirlitið allt saman.

Sú leið sem nú er til skoðunar er á margan hátt afturhvarf til fyrstu leiðarinnar. Í stað skrýtinna loftfimleika með stofnfé er áætlað að hlutafjárvæða Spron og stofna menningar- og líknarsjóð. Hlutafjárvætt Spron á svo að selja í einu lagi til KB banka. Stóri munurinn er sá að við mat á verðmæti stofnfésins er nú tekið tillit til þess að það skilar talsverðum arði og verðmæti þess því meira en nafnverð.

Eins og áður hefur komið fram hér á Deiglunni var óháður aðili fenginn til að reikna út þessi verðmæti. Verðmæti stofnfjár taldist vera 1,3 milljarðar, heildarverðmæti Spron taldist vera 7,3 milljarðar, mismunurinn, 6 milljarðar, skyldi falla í skaut menningar- og líknarsjóðsins ef til breytingar kæmi. Þessi breyting kemur svo til kasta fundar stofnfjárhafa, sem geta samþykkt hana eða hafnað henni.

Þetta er allt gott og blessað, og í samræmi við nýsett lög um sparisjóðina. Það sem gerist eftir hlutafjárvæðinguna er vafasamara. KB banki hefur boðist til að kaupa hlut stofnfjáreigenda á hátt í þreföldu matsverði, gegn því að bankinn fái að kaupa bréf menningar- og líknarsjóðsins á matsverði. Ekki verður séð að þessi gjörningur sé besta mögulega niðurstaðan fyrir sjóðinn en gæslumenn hans, stofnfjáreigendurnir, hagnast talsvert á þessu.

Þrátt fyrir að greiðsla yfirverðs fyrir hlut stofnfjáreigenda sé á margan hátt sérkennileg, er þessi niðurstaða auðvitað mun betri en fyrri hugmyndir í sömu átt. Spron getur starfað sem arðbærari eining en áður, og til verður 6 milljarða sjóður sem á að styrkja menningar- og líknarmál í Reykjavík eða nágrenni. Þessi sjóður ætti að geta styrkt góð málefni um hundruð milljóna króna á ári hverju án þess að ganga á höfuðstól sinn.

Það er því athyglisvert hversu mikið eitur í beinum frjálshyggjumanna þessi sjóður er. „Fé án hirðis“, „misnotkun er óumflýjanleg“, „sjá menn ekki þá spillingu sem boðið er upp á“, segja menn. Sama fólkið og vill draga úr umsvifum ríkisvaldsins í þeirri trú að góðhjartaðir auðjöfrar auki þá sjálfkrafa samfélagshjálp sína, trúir ekki að sjóður sem einmitt á að styrkja góð málefni, fái að standa óáreittur. Frjálshyggjumenn virðast mun sannfærðari en aðrir um að sjóðurinn verði blóðmjólkaður af stjórnendum hans, öllum til óheilla.

Afstaða Péturs Blöndals í þessu máli er svo sérkapítuli út af fyrir sig. Pétur er stjórnarmaður í Spron og aðaldriffjöðurin í þeim umbreytingum sem nú eiga sér stað, auk þess sem hann situr á Alþingi. Sennilega er enginn Íslendingur í betri aðstöðu til að setja varnagla um meðferð þessara milljarða.

Skynsamlegt væri að setja fastar reglur um fjárfestingarstefnu sjóðsins, svo sem að sjóðurinn sé þögull fjárfestir og kaupi ekki nema litla hluti í fyrirtækjum, eða þá að hann fjárfesti einungis í hlutabréfavísitölum. Vissulega mun sjóðurinn við stofnun eiga stóran hlut í Kaupþing, en hægt væri að setja tímamörk um það hvenær sá hlutur yrði seldur og honum skipt út fyrir minnihlutaeignir.

Eins væri ráð að tryggja að úthlutanir úr sjóðnum verði gagnsæjar og réttlátar. Hægt væri að mæla skýrt fyrir um það í stofnsamþykktum að allar úthlutanir yrðu birtar opinberlega og að óháð úthlutunarnefnd, með skýrum vanhæfisreglum, sæi um úthlutanirnar.

En Pétur Blöndal eyðir ekki sínum tíma í slíkt. Hann virðist sannfærður um það að hann og félagar hans í Spron muni einskis láta ófreistað til að misnota sjóðinn. Í grein í Morgunblaðinu í gær segir Pétur meðal annars:

„Ætli þingmenn hafi áttað sig á hverslags draug þeir voru að vekja upp? Sjóður sem enginn á og sumir myndu vilja sjá enn stærri á kostnað stofnfjáreigenda verður þriðji stærsti hluthafi í KB bankanum og mun líklega ráða stjórnarsæti í stærsta fyrirtæki landsins. Vita menn hvers virði slík völd eru ef t.d. kemur upp valdabarátta? Sjá menn ekki þá spillingu sem með þessu er boðið upp á?“

Vissulega blasa við möguleikar á spillingu, en einnig möguleikar á því að koma í veg fyrir hana með varnöglum, til dæmis í stofnsamþykktum sjóðsins eins og lýst var hér að ofan.

Auk þess að tryggja öryggi þessa tiltekna sjóðs með varnöglum í samþykktum hans, væri ráð að Alþingi hugaði að skýrari reglum um slíka sjóði. Bandaríkjamenn virðast höndla slíka sjóði ágætlega og væri ekki úr vegi að Alþingi liti vestur um haf við smíði slíkra reglna. Í Bandaríkjunum eru margir og stórir sjóðir „sem enginn á“ og talsverð reynsla er komin á meðferð þeirra.

„Sem enginn á“, segi ég og ekki „fé án hirðis“. Því hvað sem menn segja á fyrirhugaður menningar- og líknarsjóður sína hirða, um ellefuhundruð talsins, og Pétur Blöndal er forsvarsmaður þeirra. Hann ræður miklu um það hvort um þetta fé verður byggð örugg rétt, eða hvort það verður rekið fyrir úlfa.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)