Annar kafli geimkapphlaups

Maðurinn á TunglinuKeppni Bandaríkja- og Evrópumanna um að lenda könnunarfari á Mars hefur vakið mikla athygli og von um að tíðni rannsóknaferða í geiminn eigi eftir að aukast. Fullyrðingar Bush um að koma Bandaríkjamanni til Mars og að byggja vistarverur á Tunglinu grafa varla undan þeim væntingum og ljóst að samkeppni Bandaríkjanna, Kína og Evrópu ætti að geta leitt til metnaðarfullra ferða út í geiminn.

Maðurinn á TunglinuKeppni Bandaríkja- og Evrópumanna um að lenda könnunarfari á Mars hefur vakið mikla athygli og von um að tíðni rannsóknaferða í geiminn eigi eftir að aukast. Fullyrðingar Bush um að koma Bandaríkjamanni til Mars og að byggja vistarverur á Tunglinu grafa varla undan þeim væntingum og ljóst að samkeppni Bandaríkjanna, Kína og Evrópu ætti að geta leitt til metnaðarfullra ferða út í geiminn.

Misheppnuð lending Beagle II, könnunarfars ESA (European Space Agency) og, að því er virðist, vel heppnuð lending „Spirit“, könnunarfars NASA, gefur til kynna töluvert forskot Bandaríkjamanna. Þó ber að hafa í huga að ekki er um fyrstu tilraun NASA því erfiðlega hefur reynst að lenda á Mars. Til að mynda hafa nær allir könnunarleiðangrar til Mars mistekist og skemmst að minnast fjögurra misheppnaðra tilrauna Bandaríkjamanna á 10 vikna tímabili árið 1999.

Segja má að mannaðar geimferðir hafi legið í dvala um nokkurt skeið. Upphaf þeirra markast af ferð Sovétmannsins Yuri Gagarin árið 1961 á geimfarinu „Sputnik“ sem fór nokkra hringi á sporbaug í kring um Jörðina. Ferðin varð kveikja að miklu kapphlaupi í hápunkti kaldastríðsins á milli stórveldanna, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna fyrrverandi, um hvort ríkið væri fremri á sviði tækni og vísinda.

Ótrúlegur metnaður stjórnmálamanna, eins og John F. Kennedy og Nikita Kruschev, og spenna kalda stríðsins gerði það að verkum að öllum árum var róið til að nema land á Tunglinu. Árið 1969 höfðu Bandaríkjamenn síðan árangur sem erfiði þegar Neil Armstrong lét hafa eftir sér þessi ódauðlegu orð: „That’s one small step for [a] man, one giant leap for mankind“ og tók fyrsta skref manns á öðrum hnetti en Jörðinni. Eftir það gengu alls 12 Bandaríkjamenn á Tunglinu í sex vel heppnuðum ferðum Apollo áætlunarinnar. Apollo 17 var síðasta mannaða geimferðin til tunglsins og hefur af mörgum verið kölluð upphaf endisins á slíkum ferðalögum.

En nú virðist sem nýtt kapphlaup út geiminn sé hafið.

Þó að evrópska geimferðastofnuninni hafi mistekist að lenda Beagle II á yfirborði Mars hefur hún sýnt að metnaðurinn er mikill og vænta má að fleiri leiðangrar verði kynntir á næstu árum. Í október síðastliðnum skutu Kínverjar sínu fyrsta mannaða geimskoti sem var ávöxtur 11 ára leynilegrar geimáætlunar og urðu þar með þriðja þjóðin til að ná því takmarki. Kínverskir vísindamenn höfðu áður lýst yfir áhuga á að senda mann til Tunglsins og byggingu geimstöðvar þar.

Nú í desember bætti Bush, forseti Bandaríkjanna, svo um betur og gerði grein fyrir áætlunum stjórnar sinnar í könnun geimsins sem meðal annars fól í sér byggingu geimstöðvar á tunglinu sem þjóna á hlutverki birgðastöðvar mannaðrar ferðar til Mars.

Metnaðarfullar hugmyndar um geimleiðangra ættu að gleðja áhugamenn um vísindi um allan heim því að sjaldan hafa verið tekin eins stór skref tækni, vísindum og menntamálum eins og í tengslum við síðasta geimkapphlaup. Ef forseta Bandaríkjanna er alvara með stefnu sinni þýðir það að könnun geimsins er aftur komin inn á borð stjórnmálamanna. Hins vegar gæti allt eins verið að yfirlýsingin sé liður í kosningabaráttu forsetans og hann freisti þess að höfða til menntamanna sem varla getur talist hans sterkasti stuðningshópur.

Hvort sem um er að ræða innantóm kosningaloforð eða metnaðarfullar framtíðaráætlanir er ljóst að mikill áhugi á frekari afrekum á sviði geimvísinda. Hvort sem er um að ræða geimstöð á Tunglinu eða ferð til Mars er ljóst að mörgum hindrunum verður að ryðja úr vegi til að ná slíkum markmiðum. Viðleitni í þá átt gæti virkað sem vítamínsprauta á allt vísindastarf og eru því spennandi tímar framundan.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.