Hjá pabba um jólin?

Flest ung pör kannast við þann höfuðverk sem fylgir skipulagningu á hátíðadagskránni yfir jólin. Aðfangadagur hér, jóladagur þar og svo framvegis. En þær ákvarðanir sem pör þurfa að taka eru þó léttvægar miðað við vandræðin sem fráskildir foreldrar þurfa að eiga við. Og þar hallar því miður allt of oft á föðurinn.

Það er margt sem þarf að hafa í huga í jólaamstrinu þótt ekki komi til áhyggjur af því hvar börnin verða yfir hátíðarnar. Samningaviðræður um slíka hluti eru þó reglulegur hluti af jólaundirbúningnum hjá fráskildum foreldrum. Í mörgum tilfellum ganga þær sem betur fer vel fyrir sig og sátt næst um málið þótt kannski fái ekki allir allt sem þeir vilja. En þótt pistlahöfundur hafi ekki sjálfur þurft að taka þátt í slíkum samningaviðræðum (enda barnlaus), þekkir hann dæmi um að slíkar viðræður séu nýttar til að ná sér niður á föðurnum, í stað þess að reyna að tryggja sem ánægjulegust jól hjá barninu.

Í barnalögum kemur fram að foreldri sem fer með forsjá barns er skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt og að hinu foreldrinu ber skylda til að rækja umgengni og samneyti við barn sitt. Sú skylda hvílir því á báðum foreldrum að tryggja eins mikla umgengni við forsjárlausa foreldrið og mögulegt er. Samt er það svo að sumum mæðrum þykir umgengni við föðurinn vera „greiði“ við hann, sem veittur er eftir dúk og disk.

Það eru margar hindranir sem feður rekast á í tengslum við börnin sín þegar til skilnaðar kemur. Þegar kemur að ákvörðun um forsjá er meginreglan í raun sú að móðir hlýtur forsjána nema um annað sé samið. Í nýlegum barnaverndarlögum er skýrt betur hvernig reglum um sameiginlega forsjá sé háttað, en þrátt fyrir að ýmis rök með sameiginlegri forsjá komi fram í greinargerð kaus löggjafinn þó ekki að stíga það skref að gera hana að meginreglu.

Því fer móðirin í flestum tilfellum með forsjána og umgengni við barnið byggist því að miklu leyti á því að móðirin sjái sér fært að uppfylla umgengnisréttinn. Sifjalaganefnd alþingis telur æskilegan lágmargsumgengnisrétt vera 86 daga á ári, Félag ábyrgra feðra miðar við 118 daga og ráðgjafarþjónusta sýslumannanna í umgengnismálum miðar við 123 daga. Þrátt fyrir þetta eru engar reglur um lágmarksumgengni í barnalögunum og móðirin getur, ef hún kýs, gert samninga um umgengni mjög erfiða.

En jafnvel þótt samið hafi verið um umgengni er málinu ekki lokið. Því samningunum þarf að framfylgja. Misbrestir á því geta verið margskonar, allt frá því að forsjárforeldrið sé reglulega of seint að skila af sér barninu, til þess að setja óeðlileg skilyrði fyrir umgengninni (svo sem kaup á fötum eða heimilistækjum) og jafnvel til algerrar sviptingar á umgengni.

Nýleg barnalög tryggja ákveðnar leiðir til að framfylgja forsjánni. Móður sem kerfisbundið tálmar umgengni má dæma til dagsekta. Ákvæðið er þó mjög undarlegt að því leyti að áfallnar dagsektir falla niður þegar umgengni kemst á aftur, og móðirin getur því refsilaust tálmað umgengni í lengri eða skemmri tíma, svo fremi sem hún gerir á því bragarbót á endanum. Lögin bjóða líka upp á aðfarargerð til að tryggja umgengni. Það ákvæði er nýtt, og var mikil bragarbót, en slíkt er auðvitað mjög harkaleg aðgerð og erfitt fyrir föður að taka ákvörðun um að leita eftir slíku.

Alþingi ætti sem allra fyrst að breyta lögunum í þá veru að dagsektir fyrir umgengnistálmunum falli ekki niður við endurnýjaða umgengni, enda væri ákvæðið þá fyrst virkt vopn í baráttu gegn slíkum tálmunum. Einnig ætti að breyta reglunum um forsjá í þá veru að sameiginleg forsjá sé meginregla nema ríkar ástæður séu til annars.


Ef einhverjir lesendur standa nú frammi fyrir því að rifta sambúð eða skilja og ákveða forsjá og umgengni barna sinna er vert að benda á vef Félags ábyrgra feðra sem inniheldur mikið af gagnlegum upplýsingum um hvernig hægt er að lágmarka tjón barna af sambúðarslitum.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)