Á sokkunum skulu þér þekkja þá!

Á Íslandi í dag búa margir hópar fólks, þjóðflokkar ef svo mætti kalla. Við höfum t.a.m. ríkt fólk og fátækt fólk, innfædda og fólk af erlendum uppruna, konur og karla, börn og fullorðna og svo fjölskyldufólk og piparsveina. Piparsveinar eru nefnilega sér þjóðflokkur.

Á Íslandi í dag búa margir hópar fólks, þjóðflokkar ef svo mætti kalla. Við höfum t.a.m. ríkt fólk og fátækt fólk, innfædda og fólk af erlendum uppruna, konur og karla, börn og fullorðna og svo fjölskyldufólk og piparsveina. Piparsveinar eru nefnilega sér þjóðflokkur. Þeir eru eflaust flestir mjög ólíkir hvort heldur sem er í útliti eða skoðunum. Það eru þó nokkur atriði sem tengja þá alla saman og gera okkur kleift að flokka þá sem sér þjóðflokk.

Piparsveinar eru líklega sá minnihlutahópur sem fengið hefur hvað minnsta athygli í þjóðfélaginu. Einhverra hluta vegna er eins og að það sé ekkert pláss fyrir þá í “kerfinu”. Þeir fá ekki þær bætur frá hinu opinbera sem eru nauðsynlegar til að halda uppi háum lífsstandard þeirra. Það er t.a.m. ákaflega dýrt að kaupa í matinn fyrir einn aðila og þess vegna hættir piparsveinum til að lifa á næringarríku örbylgjufæði eða dýrum íslenskum veitingahúsum. Húsnæðiskostnaður er sá sami óháð fjölskyldumynstri, rekstrarkostnaður bifreiðar sá sami og svo mætti lengi telja. Það er því ljóst grunnframfærslukostnaður piparsveina er síður en svo lægri en hjá hjónum (pari) og líklega um 50% hærri sé tekið mið af nauðsynlegum barferðum og skemmtikostnaði. Hjón hafa t.a.m. tvær fyrirvinnur og barnafólk fær auk þess bætur frá hinu opinbera, hærri ef það er einstætt. Piparsveinar þurfa aftur á móti að róa lífsróðurinn á eigin spýtur, án allrar utan aðkomandi aðstoðar.

Einn góðvinur pistlahöfundar, sem er piparsveinn í miðborg Reykjavíkur, hefur oft velt þessu óréttlæti fyrir sér. Íhugar hann sérframboð í næstu Alþingiskosningum, Piparsveinaframboðið eða x-P. Helsta baráttumál framboðsins er jöfnunarsjóður piparsveina sem styrkir framfærslu manna af þessum þjóðflokki. Aukin heldur má nefna piparsveinaafslátt í ÁTVR og afnám skemmtanaskatts gegn framvísun löggilds piparsveinaskírteinis. Líklega yrðu þessi tvö síðastnefndu atriði best til þess fallinn að bæta kjör piparsveina. Þeir þurfa jú, eðli málsins samkvæmt, að eyða ómældum tíma á börum bæjarins í að gera hosur sínar grænar fyrir piparjómkum landsins. Og í flestum tilvikum nægir ekki að kaupa drykki fyrir einn, það þarf að kaupa fyrir dömurnar líka!

Piparsveinar eru auðþekkjanlegir úr hópi manna. Þeir eru oftast órakaðir og í sömu fötunum dag eftir dag enda engir kvenmenn á heimilinu til að segja þeim til syndanna. Það telst einnig ákaflega sjaldgæft að sjá piparsvein í nýstraujaðri skyrtu og þess vegna verður einfaldari klæðnaður á borð við boli og peysur oftast fyrir valinu. Ef það sést til piparsveins á börum bæjarins í jakkafötum er ljóst að öll önnur föt í fataskápnum liggja í hrúgu á svefnherbergisgólfinu. Piparsveinninn stendur þá í þeirri trú að óhreindin hafi orðið til þess að þau lifnuðu við og skríði svo inn í þvottavélina og komi út úr henni aftur samanbrotin.

Líklega á þessi lýsing nú við fleiri karlmenn en piparsveina og því eru góð ráð dýr sé nauðsynlegt að greina sauðina úr hjörðinni. Það er þó til óbrigðult ráð til þess. Vélið karlmanninn úr báðum skónum og lítið á sokkaleistana. Sé annar hvítur og hinn svartur, eða séu þeir á annan hátt augljóslega ósamræmanlegir, er þvottavélin ekki mikið notuð á heimilinu og því um piparsvein að ræða. Á sokkunum skulu þér þekkja þá!

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)