Svona lítur hann út

DV fór ótroðnar slóðir í blaðamennsku í vikunni og birti mynd af manni sem grunaður er um ógeðfelldan glæp. Þessi myndbirting markar stórt skref afturábak í íslenskri blaðamennsku.

Steingrímur Njálsson var fyrir allra augum í DV þann 3. október 1986. Mynd var birt af manninum sem þá þegar var kunnur fyrir brot sín gegn ungum drengjum. Hann hafði þá hlotið þrjá dóma fyrir kynferðisbrot gegn alls 12 drengjum. Myndbirtingin braut blað hérlendis og var að sama skapi umdeild.

Tæpum tveimur áratugum síðar fer DV á ný ótroðnar slóðir. Fyrir nokkrum dögum var birt mynd af manni sem sakaður hefur verið um kynferðisbrot gegn drengjum. Ólíkt fyrra málinu hefur þessi maður ekki verið dæmdur fyrir umrædd brot og það sem meira er: hann hefur ekki verið ákærður. Vinnubrögð DV verða að teljast forkastanleg og út fyrir öll velsæmismörk.

Það er eðlileg og nauðsynleg krafa að fjölmiðlar geti rökstutt gerðir sem þessar. Nafnbirting gengur eðlilega mjög nærri mönnum en myndbirting gengur mun lengra. Ritstjóri DV verður að gera sér grein fyrir því að hann fer með mikið vald. Látum liggja á milli hluta hvort vald hans verðskuldi það að vera kallað fjórða valdið, en vald er það engu að síður. Það er einfaldlega barnaskapur að ætla að fréttir hafi ekki áhrif. Upplýsingum er miðlað til almennings, upplýsingum sem hafa áhrif á skoðanir fólks og jafnvel gjörðir.

Röksemdafærsla Illuga Jökulssonar eins og hún birtist í sjónvarpsþættinum í Íslandi í dag myndi sennilega teljast hlægileg ef ekki væri fyrir það hve grafalvarleg málið er. „Af hverju ekki?”, sagði Illugi ítrekað.

Blaðamennska Illuga er blaðamennska öfugrar sönnunarbyrði. Illugi segist fyrstur manna ætla að fjalla um það ef í ljós kemur að viðkomandi maður sé saklaus. Fram að því virðist maðurinn sekur með augum DV.

Þessi nálgun er vitaskuld mjög hættuleg. Illugi hefði átt að spyrja sjálfan sig að því, hvers vegna nafnbirting og myndbirting þessa manns var nauðsynleg. Til þess að þessi leið verði réttlætanleg verður hún að stafa af nauðsyn.

Samkvæmt siðareglum Blaðamannfélags Íslands geta almannahagsmunir réttlætt nafnbirtingu. Siðareglurnar segja hins vegar ekkert um myndbirtingu, en gera má ráð fyrir því að í þeim tilvikum sem nafnbirting er réttlætt út frá hagsmunum almennings geti sömu rök legið því til grundvallar að heimila myndbirtingu. Blaðamenn skulu hafa í huga hvenær almennt öryggi borgaranna, sérstakir hagsmunir almennings eða almannaheill krefst nafnbirtingar segir orðrétt í siðareglunum.

Í tilviki Steingríms Njálssonar hafði umrædd frétt í för með sér að kona sem sá Steingrím með ungum dreng tókst að koma í veg fyrir að manninum tækist að brjóta gegn enn einu barni. Þar hafði verið til umfjöllunar margdæmdur maður og því mátti færa rök fyrir því að rétt væri að vara samfélagið við honum.

Þessi röksemd á ekki við hér. Sá sem fékk birta mynda af sér í DV er í gæsluvarðhaldi og því stafar almenningi nákvæmlega engin hætta af honum sem stendur; né heldur er sérstök ástæða til að vara við honum. Nú er reyndar allsendis óvíst hvort almenningi hafi einhvern tímann staðið ógn af honum, enda liggur ekkert fyrir um sekt hans. Varnaðargildi fréttarinnar er því ekkert.

Þriðja grein siðareglna og jafnframt sú mikilvægasta segir að blaðamaður vandi upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýni fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.

Það er einkenni siðareglna að orðalag þeirra er víðtækt og reglurnar eru matskenndar. Engu að síður varða þær ákveðna leið sem heppilegt er að fara. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að vel hefði mátt segja þessa frétt án þess að ganga svo nærri æru manns og fjölskyldu hans sem þessi frétt gerir. Það skiptir ekki síður máli hvernig frétt er framsett, hvort rétt sé að hafa nafn og mynd með fréttinni að svo stöddu, eða hvort að mál sem enn er jafnóljóst og raun ber vitni „verðskuldi” uppslátt á forsíðu. Ábyrgur fjölmiðill lætur ekki standa sig að þess háttar vinnubrögðum.

Fjórða grein siðareglna Blaðamannafélagsins segir að í frásögnum af dóms- og refsimálum skulu blaðamenn virða þá meginreglu laga að hver maður er talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Blaðamönnum ber að leita sannleikans og gera skýran greinarmun á frétt og skoðun. Það má velta því fyrir sér hvort umrædd frétt sé ekki framsett með þeim hætti sem gert var vegna þeirrar skoðunar DV að umræddur maður sé sekur. Þegar allt kemur til alls er það ekki annað en skoðun að umræddur maður sé sekur um þau brot sem honum hafa verið gefin að sök. Staðreyndir um slíkt liggja ekki fyrir.

Engin lagaákvæði eru til um fréttaflutning um afbrotamál á rannsóknarstigi. Stundum er farin sú leið að loka réttarhöldum og vega hagsmunir einstaklinga þar þungt. Fyrir vikið geta fjölmiðlar ekki fjallað um viðkomandi dómsmál að öðru leyti en um hinn endanlega dóm. Sömu hagsmunir eiga við um málmeðferð á rannsóknarstigi.

Gríðarlegur munur er á aðstöðu sakaðs manns og rannsakanda. Þessi aðstöðumunur eykst til mikilla muna þegar fjölmiðlar nafngreina og birta myndir af mönnum í þessari stöðu. Fréttamenn mega ekki gleyma því að heimildir þeirra reynast ekki alltaf fullkomlega réttar. Sitthvað kemur í ljós við rannsókn mála sem fréttamenn geta eðli máls samkvæmt ekki vitað um.

Það er fullkomlega eðlilegt að menn verði reiðir við fréttir af brotum gegn börnum. Kynferðisbrot gegn barni er einhver svívirðilegasti glæpur sem menn geta framið. Það er hins vegar ekki eðlilegt að menn missi fullkomlega ráð og rænu í umfjöllun um þessi mál. Menn mega ekki blindast af því að börn kunni hér að vera fórnarlömb. Sennilega myndi fáum ritstjórum til dæmis koma til hugar að birta mynd af manni á forsíðu sem sakaður væri um að hafa nauðgað konu. Og bæta við fyrirsögninni: Hún treysti þessum manni.

Deiglan telur að í ljósi alls þessa sem að framan er sagt hafi það verið ákaflega óvönduð ákvörðun hjá DV að freistast til þess að birta mynd af hinum grunaða misyndismanni. Raunar beit blaðið höfuðið af skömminni daginn eftir með myndbirtingu á unglingi sem grunaður er um aðild að vopnuðu ráni; en það er önnur saga.

Staðreyndin er sú að vald fjölmiðla er mikið og það er ábyrgðarleysi þegar menn yppta öxlum og láta sér fátt um þá ábyrgð finnast. Það er mikilvægt að spyrna við fótum þegar fjölmiðlar hegða sér á þann hátt sem DV gerði í þessu tilviki. Blaðamennska eins og sú sem hér um ræðir er í raun árás á réttarríkið því með henni er verið að kynda undir þá hugmynd að „réttlæti götunnar” sé raunverulegur valkostur við dómstóla og réttláta málsmeðferð.

Það getur vissulega verið erfitt að bíða eftir réttlætinu þegar grunur um slíkan óhugnað sem misnotkun á börnum er. Þeir sem kynnt hafa sér mannkynssögu ættu þó flestir að hafa dregið þann lærdóm af lestrinum að tilkoma réttarríkisins og mannréttinda var ekki afturför frá þeirri tíð þegar einstaklingarnir, eða reiðir hópar einstaklinga, tóku sjálfir að sér að dæma menn og refsa.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)