Auglýsingaskrum

sdfdAuglýsingar eru sífellt vaxandi þáttur í daglegu lífi okkar og þótt sumum þyki nóg um allt skrumið er pistlahöfundur þeirrar skoðunar að auglýsingar séu skemmtilegar. Sérstaklega áhugavert er að reyna að gera sér í hugarlund hver, ef einhver, er hugsunin á bak við þau slagorð og fullyrðingar sem settar eru fram í ýmsum auglýsingum.

Í hálkunni sem myndast á helstu götum bæjarins ríður mikið á að menn átti sig á hvort þeir aki um á akstursbíl eða venjulegum bíl.

Um daginn fékk ég auglýsingabækling inn um bréfalúguna frá búð sem selur vörur fyrir stóra stráka. Hneykslunargjörnum pempíum er þó óhætt að lesa áfram, enda hafi þær efast um siðgæði pistilsins við lestur fyrstu línunnar, fullyrði ég að það segi meira um þær en um þann sem þetta ritar. Bæklingurinn var nefnilega frá búð sem selur föt fyrir fitubollur. Þetta væri kannski ekki í frásögu færandi, nema fyrir þær sakir að bæklingurinn var sendur í fjölpósti! Eftir stutta eftirgrennslan hefi ég komist að því að íbúar götunnar minnar eru ekkert átakanlega mikið feitari en gengur og gerist (fyrir utan Lalla á númer sjö) þannig að ekki hefir verið um mistök að ræða hjá blaðbera. Markhópur fitubollubúðanna er einfaldlega skýrt afmarkaður — íslenska þjóðin.

Auglýsingar eru sífellt vaxandi þáttur í daglegu lífi okkar og þótt sumum þyki nóg um allt skrumið er ég þeirrar skoðunar að auglýsingar séu skemmtilegar. Sérstaklega áhugavert er að reyna að gera sér í hugarlund hver, ef einhver, er hugsunin á bak við þau slagorð og fullyrðingar sem settar eru fram í ýmsum auglýsingum.

Þegar ég las um nýja AKSTURSbílinn frá Mazda, prísaði ég mig sælan að það skyldi vera tekið sérstaklega fram að um akstursbíl væri að ræða. Ég hefði hugsanlega getað lent í þeirri óskemmtilegu aðstöðu að lesa auglýsinguna til enda án þess að átta mig á, að umfjöllunin snérist um akstursbíl en ekki venjulega bifreið. Er ekki hægt að aka öllum bílum? Sökum þessa hvet ég lesendur þessa lespistils eindregið til að hafa varan á og dobbúltékka næst þegar þeir kaupa sér buxur hvort að ekki sé öruggt að um fatnaðarbuxur sé að ræða.

Síðast þegar ég vissi voru skilningarvitin fimm: Sjón, heyrn, ilman — og svo einhver tvö sem ég man aldrei hvað eru kölluð. Eitthvað virðist þetta nú samt vefjast fyrir snyrtivöruframleiðendum, enda auglýsir einn þeirra nútímalegan ilm sem geislar af ljósi og heildverslun auglýsir flösusjampó sem örvar skilningarvitin! Ég veit ekki með ykkur, en persónulega er ég lítið í því að örva á mér eyrun með flösusjampói og hefi alltaf forðast það að fá sápu í augun. En ef eitthvað er að marka auglýsingarnar er það bara ég sem er eitthvað að mis…

Í smáauglýsingadálkum dagblaðanna kennir einnig ýmissa grasa. Þar má finna ástina, ísskápa og smáauglýsingar um hversu ódýrt er að kaupa sér smáauglýsingar. En einkennilegust þeirra allra er þó ein sem birtist vikulangt á síðum Fréttablaðsins:

Nýr Jeppi — 32” sjónvarp

Stúlka á milli 18 og 36 ára óskast til að hjálpa manni.

Getur gist.

Ef það er mælikvarði á góðar auglýsingar að þær veki upp áhuga hjá öðrum en þeim markhópi sem þær eru stílaðar inn á, stendur þessi svo sannarlega undir nafni. Þrátt fyrir að ég sé ekki stúlka á aldrinum 18 til 36 ára hafa ítrekaðar símhringingar mínar í uppgefið símanúmer undir dulnafninu Birta Sól, ekki enn fært mig nærri sannleikanum um hvað þessi auglýsandi meinar! Vantar hann félagsskap við að horfa á Nágranna í nýja sjónvarpinu? Á stúlkan að þvo og bóna jeppann? Á stúlkan að þvo hann og bóna bö*****? Og tákna jeppinn og sjónvarpið laun þeirrar greiðviknu stúlku sem er tilbúin til að hlaupa undir bagga með þessum manni — eða er ég enn eina ferðina bara eittvað að mis? Þegar ég sá auglýsinguna fyrst vissi ég vart hvort ég ætti að hlægja eða gráta, en eftir lestur síðustu línunnar: „Getur gist“ — missti ég algerlega stjórn á mér og lagðist í gólfið í hláturskrampa.

En þankagangur íslenskrar kvenþjóðar er og verður pistlahöfundi alltaf hulin ráðgáta, en þó er alltaf gott að vita að einhverjir eru verr staddir. Í nýrri herðferð frá Lyfjum og heilsu spyr ungur strákur hvort að apótekarinn eigi eitthvað til að gleðja kærustuna. Apótekarinn er nú hræddur um það og nefnir þrjár vörur í því samhengi. Nuddolíu, vaselín — og rúsínan í pylsuendanum: Sabal-blöðruhálskyrtilstöflur! Ofangreindur er nú almennt hlynntur algeru frjálsræði í svefnherberginu, en hins vegar hlýtur að vera tekið að syrta í álinn í samlífinu þegar Sabal-blöðruhálskyrtilstöflur frá Lyfjum og heilsu stuðla að hápunkti kvöldsins.

Ekki alls fyrir löngu birtust síðan auglýsingar frá lesblindusamtökunum þar sem talin voru upp mikilmenni sem þjáðst hafa af bleslindu. Hugmyndin á bak við herferðina er sú að benda á að fyrst maður eins og Einstein hafi getað sett fram eina eða tvær kenningar þrátt fyrir það að hafa þjáðst af sjúkdóminum, geti smituð íslensk ungmenni hæglega yfirstigið ýmsar hindranir á menntabrautinni. Ég hrökk í kút við þessar fréttir og faxaði gamla eðlisfræðikennaranum í menntó eintak af auglýsingunni í þeirri von um að hann myndi endurmeta fjögurra ára gamla, en mjög svo vanmetna stúdentsprófssönnun mína á því að e=cm3. Ég bíð enn svars.

Gðóa Hlegi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)