Allt er vænt sem er samræmt

Á síðustu vikum hafa piltar og stúlkur í 4. og 7. bekk fengið niðurstöður úr samræmdum prófum í íslensku og stærðfræði. Að venju sýnist sitt hverjum og voru deilur um prófin háværari nú en áður.

Samræmd próf í síðasta bekk grunnskóla hafa verið reglulegur þáttur í námsferli íslenskra grunnskólanema allt frá 1977. Þar áður þreyttu unglingar landspróf sem einnig var samræmt milli skóla, en var reyndar ekki skylda. Þessum prófum eru allir vanir og varla dettur nokkrum manni í hug að leggja til að þeim verði hætt. Gagnrýni á framkvæmd þeirra er þó fastur liður eins og eðlilegt er.

Undanfarin fjögur ár hefur Námsmatsstofnun, sem ber ábyrgð á samræmdum prófum, einnig haldið próf í 4. og 7. bekk og hafa þau valdið mun meiri deilum en hin. Samræmd stúdentspróf, sem haldin verða í fyrsta skipti næsta vor, hafa líka lagst illa í marga.

Í umræðu um samræmd próf yngri barna hafa andstæðingar þeirra helst haldið því á lofti að börnin séu ekki tilbúin til að taka próf á þessum aldri og skilji jafnvel ekki hugsunina að baki prófum (þetta á auðvitað helst við um próf í 4. bekk). Sumir skólar leggja ekki fyrir próf fyrr en í 5. bekk, svo samræmdu prófin eru fyrstu prófin sem þessir nemendur hafa tekið. Anna María Þorkelsdóttir sendi til dæmis inn bréf til Morgunblaðsins þar sem hún mótmælti framkvæmd prófanna. Hún sagði þar meðal annars:

„Þegar við gerðum okkur grein fyrir því að þetta próf stæði fyrir dyrum, fórum við foreldrarnir að athuga hvernig hún stæði í stærðfræði. Það kom okkur mikið á óvart, hve illa undirbúin hún var. Þannig að í allt haust sátum við mæðgurnar og fórum yfir grunnatriði stærðfræðinnar. Hún kunni reyndar að leggja saman og draga frá, en hún átti í vandræðum með að muna að geyma þar sem það þurfti og svo þegar það var komið á hreint, þá mundi hún ekki eftir að taka með það sem hún geymdi. Þannig að hana vantaði töluverða þjálfun í þessum aðferðum. Bekkurinn hennar hafði ekki farið lengar en að 6-sinnum margföldunartöflunni svo að við sátum og lærðum alla töfluna utan að vikurnar fyrir próf. Eflaust er ekki ætlast til þess skv. þessu nýja námsefni, en það var eina leiðin til ða fá hana tíl að skilja þetta á þessum stutta tíma.“

Þrátt fyrir að Anna María hafi með skrifum sínum verið að gagnrýna prófin verður ekki betur séð af ofangreindum texta að þau hafi haft jákvæð áhrif á námsferil stúlkunnar. Prófið varð til þess að foreldrarnir fylgdust betur með stöðu hennar í náminu og þau eyddu með henni umtalsverðum tíma til að hjálpa henni í stærðfræðináminu. Síðast en ekki síst olli þetta því að foreldrarnir skoðuðu kennslutækni skólans með gagnrýnum augum.

Ýmislegt annað kom fram í máli Önnu Maríu um framkvæmd prófanna sem aðstandendur þeirra ættu að kanna rækilega, svo sem þá tilhögun að leyfa þeim sem kláruðu prófið snemma að lesa Andrésblöð, á meðan aðrir nemendur flýttu sér að klára til að fá líka að lesa Andrés.

Það er þó heppilegt í umræðu um samræmd próf að allir sem þar taka til máls geri sér grein fyrir því hvort gagnrýni á þau snýr að framkvæmdinni, sem þá má lagfæra ef eitthvað er athugavert við hana, eða til þess að samræmd próf séu yfir höfuð haldin. Því þrátt fyrir ýmsa galla gefa samræmd próf mikilvægar vísbendingar um stöðu nemenda og hjálpa til við að skipuleggja fyrirkomulag kennslunnar. Gallar þeirra þyrftu því að vera mjög verulegir til að réttlæta að dregið yrði úr notkun þeirra aftur.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)