Hver er þessi Howard Dean?

Howard DeanÞótt enn séu tæpir tveir mánuðir í fyrsta prófkjör Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 2004 virðist slagurinn um útnefningu flokksins að mestu ráðinn. Howard Dean ber nú höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur og allar líkur eru til þess að hann muni etja kappi við George Bush næsta haust.

Howard DeanÞótt enn séu tæpir tveir mánuðir í fyrsta prófkjör Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 2004 virðist slagurinn um útnefningu flokksins að mestu ráðinn. Howard Dean ber nú höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur og allar líkur eru til þess að hann muni etja kappi við George Bush næsta haust.

Fyrir rúmu ári var Dean nánast óþekktur ríkisstjóri í Vermont. Þegar hann hófst handa við að berjast fyrir útnefningu Demókrataflokksins voru fáir sem tóku hann alvarlega. Þannig hafði New York Times þetta að segja um Dean þegar blaðið fjallaði í fyrsta skipti um framboð hans 18. desember í fyrra:

„But at the moment, there is only one big question about Mr. Dean’s campaign for the 2004 Democratic presidential nomination: Why should anyone take him seriously? Governor of a tiny state, with no national network and no money, he is a lesser-known version of the brainy outsiders like John Anderson and Bruce Babbitt and Paul Tsongas, who had their day — and lost.“

Síðan þá hefur talsvert vatn runnið til sjávar. Dean markaði sér fljótt sérstöðu með því að taka afdráttarlausa afstöðu til stórra mála. Hann var alfarið á móti innrás í Írak á meðan flestir mótframbjóðendur hans vissu ekki í hvorn fótinn þeir ættu að stíga. Hann sagðist ætla að hverfa frá öllum skattalækkunum Bush á meðan aðrir Demókratar vildu ganga mun skemur. Hann gagnrýndi Bush tæpitungulaust fyrir að ganga erinda sérhagsmunahópa og láta stefnu sína ráðast af þörfum þeirra sem gáfu í kosningasjóði hans.

Þessi beitta stefna gerði það að verkum að eftir Dean var tekið. Hún vann fljótt hug og hjörtu margra vinstrisinnaðra Demókrata sem eru hvað virkastir í innra starfi flokksins og gegna lykilhlutverki í prófkjörum hans. Þegar komið var fram á sumar var Dean orðinn fremstur í skoðanakönnunum fyrir prófkjörið í New Hampshire.

Samt sem áður tóku fáir framboð hans alvarlega. Forystumenn Demókrataflokksins kepptust um að tala um að Dean væri of vinstrisinnaður til þess að geta unnið kosningar á móti Bush. Talað var um að ef Dean færi fram á móti Bush myndi fara eins fyrir honum og George McGovern og Walter Mondale sem báðir töpuðu illa. Karl Rove, ráðgjafi Bush, sagði að Dean væri sá frambjóðandi sem hann vildi helst sjá á móti Bush.

En þótt Dean hafi lagt áherslu á mál sem hann hefur mjög vinstrisinnaðar skoðanir á (á bandarískan mælikvarða) er erfitt að draga hann í dilka almennt. Sem ríkisstjóri í Vermont lækkaði hann skatta og lagði áherslu á að skila fjárlagaafgangi. Hann fékk ágætiseinkunn hjá NRA, félagi byssueiganda í Bandaríkjunum, fyrir að standa vörð um rétt fólks til að eiga skotvopn. En á móti kemur að hann setti lög sem tryggðu öllum börnum í fylkinu sjúkratryggingar og skrifaði undir lög sem heimiluðu borgaralegar giftingar samkynhneigðra.

Það var síðan í byrjun júlí þegar í ljós kom að Dean hafði safnað mun meira fé í kosningasjóð á öðrum ársfjórðingi ársins en aðrir frambjóðendur Demókrata að fólk fór loks að taka framboð hans alvarlega. Í ágúst var hann á forsíðu Newsweek og Time í sömu vikunni. Síðan þá hafa aðrir frambjóðendur átt í vök að verjast. Í nóvember má segja að Dean hafi nokkurn veginn gert út um slaginn þegar hann tryggði sér stuðning nokkurra af stærstu verkalýðsfélaga Bandaríkjanna.

Síðustu vikurnar hefur Dean snúið sér í auknum mæli að því að undirbúa það að etja kappi við Bush. Hann hefur þannig afþakkað kosningastuðning hins opinbera þar sem slíkur stuðningur er háður skilyrðum um hvað frambjóðendur mega eyða miklu. Dean hefur sett sér það markmið að safna jafn miklu fé í kosningasjóð og Bush. Hann bendir á að ef 2 milljónir Bandaríkjamanna gefa honum $100 hver þá muni honum takast þetta. Og ef hann getur eytt jafn miklu fé og Bush er hann til alls líklegur í kosningunum.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.